Vonast eftir réttlæti fyrir fólkið

„Ég veit ekki hvort ég á að viðurkenna það, en ég vissi ekki almennilega hvar Namibía var einu sinni á korti,“ segir Aðalsteinn. Þáttagerðamenn síðasta Kveiksþáttar voru ekki alveg með staðhætti á hreinu þegar lagt var af stað með umfjöllunarefnið sem teygði sig til Afríku.

Vonast eftir réttlæti fyrir fólkið

Aðalsteinn Kjartansson og Helgi Seljan umsjónarmaður ásamt Stefáni Aðalsteini Drengssyni pródúsent ræða um gerð Kveiksþáttarins um Samherjaskjölin og eftirköstin í þessum hlaðvarpsþætti Kveiks. Þeir fara yfir ferðasöguna til Namibíu og þeirra upplifun af landi, menningu og þjóð.

„Þetta er fólk sem er í fullri vinnu. Það er ekki eins og þetta sé eitthvað samansafn, svo við notum orð Aðalsteins Helgasonar, einhverjir lífsglaðir letingjar, það er ekki þannig,“ segir Helgi Seljan.

„Eins mikið og mér finnst mikilvægt að Íslendingar átti sig á hvað íslenskt fyrirtæki er búið að vera að gera, þá bara, réttlæti fyrir þetta fólk, eða einhvern vegin að spilltu ráðherrarnir þarna, sem eru að bjóða upp á þetta, að þeir þurfi að sæta einhverri ábyrgð, það er það eina sem maður getur vonað,“ segir Aðalsteinn.