Ráðherra endurskoðar löggjöf um spilakassa

Dómsmálaráðherra undirbýr nú endurskoðun á lögum um starfsemi happdrætta með það fyrir augum að styrkja eftirlit og forvarnir í rekstri spilakassa.

Ráðherra endurskoðar löggjöf um spilakassa

Frumvarp sem heimila átti Íslandsspilum og Happdrætti Háskólans að reka fjárhættuspil á netinu verður ekki lagt fram á þessu þingi eins og boðað hafði verið. Spilakassarekstur á Íslandi býr við fádæma lausatök í eftirliti hins opinbera í samanburði við aðrar þjóðir á Vesturlöndum.

Dómsmálaráðherra mun ekki leggja fram frumvarp sem heimila myndi rekstur peningaspila í gegnum netið á þessu þingi. Slík lagabreyting hafði verið boðuð í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Þess í stað verður farið í endurskoðun laga um happdrætti, en undir þau falla rekstur spilakassa sem ráðherra segir mikilvægt að koma eftirlit með í betri farveg og efla forvarnir gegn. Litið verði til nágrannaþjóðanna og laga um rekstur spilakassa þar, við endurskoðun laganna hér.

Eins og fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik nýverið sker Ísland sig úr þegar kemur að aðgengi að spilakössum eins og þeim sem Happdrætti Háskólans rekur undir nafni Gullnámunnar; þar sem hægt er að leggja tiltölulega háar fjárhæðir undir í spilakössum sem keyrðir eru saman og safna tugmilljóna króna pottum. Slíkir spilakassar eru hvergi í almennri dreifingu nema hér á landi. Finnast aðeins í spilavítum austan hafs og vestan, og þá undir mun meira og strangara eftirliti en hér er.

Spilafíklar óvarðir með öllu

Í raun er varla hægt að tala um eftirlit með spilakassarekstri hér á landi. Forsvarsmenn Íslandsspila og HHÍ, sem eru þau tvö fyrirtæki sem hafa leyfi til þess með lögum að reka spilakassa, sögðust í Kveik ekki verða vör við eftirlit hins opinbera og tímabært væri að setja strangari reglur um spilun í spilavélum þeirra. Hér á landi eru engin mörk sett við spilun í spilakössum, sem velta milljörðum króna ár hvert og skapa spilastöðum hundruð milljóna króna tekjur. Spilafíklum er einnig gert ómögulegt að útiloka sig frá spilun, eins og víðast hvar í heiminum þykir nú sjálfsagt.

Meðferð í skötulíki

Meðferð sem í boði er fyrir spilafíkla er jafnframt gagnrýnd en einungis örlítið brot af hagnaði af spilakassarekstri fer til SÁÁ til þjónustu við spilafíkla á meðferðarstöðinni Vogi. Spilafíklar hafa gagnrýnt þá meðferð harðlega og sagt hana í skötulíki auk þess sem þeir segja SÁÁ ekki trúverðugan meðferðaraðila fyrir spilafíkla á sama tíma og samtökin þiggi tugi milljóna króna á ári í tekjur af rekstri spilakassanna, en SÁÁ er ásamt Rauða Krossinum og Landsbjörgu, eigandi Íslandsspila hf.

Frumvarpi um spilahöll breytt

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur í þrígang lagt fram frumvarp um spilahallir; staði þar sem fjárhættuspil yrðu leyfð undir ströngu eftirliti. Hann lýsti því yfir í viðtali í þáttunum Vikulokunum á Rás 1 eftir umfjöllun Kveiks að hann ætlaði að leggja frumvarpið fram í breyttri mynd með það fyrir augum að takmarka dreifingu spilakassa og auka eftirlit með þeim.

Eftirlit og forvarnir efldar

Í svari aðstoðarmanns Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra til Kveiks segir að fyrirhugaðri heimild til spilakassafyrirtækja til reksturs fjárhættuspila á netinu, hafi verið slegið á frest. Áður hafði frumvarp um slíka heimild verið boðað á þessu þingi. Þess í stað verði nú unnið að breytingum á löggjöfinni í heild. Mikilvægt sé að kanna hvort koma megi eftirliti með happdrættum í betri farveg ásamt því að efla forvarnir. Löggjöf nágrannalandanna verði höfð til hliðsjónar í þeim efnum og samráð haft við hagsmunaaðila.

Spilakort til umræðu

Ein þeirra hugmynda sem rætt hefur verið og forsvarsmenn Íslandsspila og HHÍ hafa bent á, er að banna notkun reiðufjár í spilakassaspilun. Í staðinn yrði einungis hægt að leggja undir fjármuni í gegnum svokölluð spilakort. Slík kort eru algeng erlendis og talin hafa gefið góða raun í að efla eftirlit og gefa spilurum færi á að takmarka spilun í kössunum. Í viðtali við RÚV á dögunum sagði Sigríður Andersen upptöku slíkra korta meðal þeirra hugmynda sem hefðuð verið ræddar og kæmu til greina hér á landi.