*

„Nei, þú ert með svo góðar einkunnir, farðu í Verzló!“

Ríkið greiðir að meðaltali eina og hálfa milljón króna á ári með hverjum framhaldsskólanema. Það segir sig því sjálft að það er mjög dýrt fyrir samfélagið að ýta ungu fólki í nám sem það hefur ekki endilega áhuga á - en fer í fyrir orð foreldra sinna eða til að fylgja félögunum.

„Nei, þú ert með svo góðar einkunnir, farðu í Verzló!“

Áratugum saman hefur verið reynt að fá fleiri til að velja iðn- og verknám en það hefur lítinn sem engan árangur borið, þar til kannski síðustu misseri að aðsókn hefur aukist töluvert.

Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla segir að starfsnám á Íslandi standi á krossgötum.

„Það er alltof mikið um það að við, sem samfélag, beinum nemendum sem eru góðir að læra á bókina beint inn í bóknámið, svo eiga aðrir að fara í starfsnámið. Við heyrum oft: „Já, ég veit að þú vilt fara í þetta iðnnám, en viltu ekki klára fyrst stúdentsprófið, þá geturðu gert það sem þú vilt.“ Þetta er bara það sem nemendur segja við okkur að foreldrarnir segi. Þetta er viðhorf samfélagsins.“

Guðrún Ragna Karlsdóttir stefnir á að læra bílamálun. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

Guðrún Ragna Karlsdóttir fór þessa hefðbundnu leið og kláraði stúdentspróf, var svo hálfnuð með háskólanám þegar hún komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki það sem hugur hennar stæði til. Hún skráði sig í Borgarholtsskóla og stefnir nú í allt aðra átt.

„Ég er búin að vera í menntaskóla og háskóla og allt þetta. Það er bara ekki fyrir mig. Ég er að pæla í að fara í bílamálunina. Mig langar að prófa eitthvað annað, öðruvísi, eitthvað með höndunum.“

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, segir að viðhorf samfélagsins séu að breytast, en þó ekki nóg. Það muni líklega taka tvær kynslóðir til viðbótar.

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Hér er ég með fullt af nemendum sem eru búnir með stúdentspróf, þeir eru jafnvel búnir sumir með BS-gráðu. Auðvitað er allt nám gott, en kannski langaði þá á endanum bara í smíði eða rafvirkjun en það var eitthvað úti sem sagði þeim að þetta væri rétta leiðin. Þetta er mjög kostnaðarsamt.“

Tölfræðin endurspeglar þetta. Því þótt hlutfall nýnema í starfsnámi sé aðeins um 15%, þá er heildarhlutfallið rúmlega 30%. Þetta bendir til þess að margir skipti um skoðun eftir að hafa prófað aðrar námsleiðir og fari þá í starfsnám.

Að sama skapi er kynjahlutfallið líka mjög ójafnt; aðeins þriðjungur nema í starfsnámi er kvenkyns.

Helga Björg er á þriðja ári í matreiðslu. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

„Ég hef alltaf haft rosalega mikinn áhuga á matreiðslu. Pabbi minn er matreiðslumaður, bróðir minn er matreiðslumaður, ég hafði alltaf mikinn áhuga á að elda og gera og græja fyrir aðra“, segir Helga Björg Þrastardóttir, þriðja árs nemi í matreiðslu. Hún er einnig í þeim hópi sem fetaði fyrst hina hefðbundnu stúdentsprófs-leið.

„Ég prófaði að fara í háskólann fyrst, en einhvern veginn dróst ég alltaf meira og meira að þessu verknámi og að vinna með mat.“

Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

Ársæll Guðmundsson segir mikilvægt að grípa til ráðstafana strax, breyta starfsnámskerfinu og stækka skólana.

„Ungt fólk hefur mjög hratt náð að opna augu sín fyrir öllum möguleikum og það sækir sér möguleikana. Við þurfum að koma til móts við þetta unga fólk sem veit meira hvað það vill.“

En stundum er ekki nóg að vita hvað maður vill.

Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri fræðslusetursins Iðunnar, sem sér um alla námssamninga iðn- og verknema, ætlaði til dæmis alls ekki að enda þar. Hana langaði í hárgreiðslu.

Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri fræðslusetursins Iðunnar. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Og hvers vegna skyldi það ekki hafa gengið eftir?

„Af því að móðir mín er hárgreiðslumeistari og pabbi er ljósmyndari og þau sögðu bara: Nei, þú ert með svo góðar einkunnir, farðu í Verzló!“

Fjallað verður um breytingar á iðn- og verknámi í Kveik í kvöld kl. 20.