Þarf að taka símenntun lækna fastari tökum

Sjúklingar á Íslandi geta hvergi nálgast neinar upplýsingar um lækninn sem sinnir þeim. Hvorki hvaða menntun hann býr yfir, sérgrein hans né viðhaldsmenntun. Raunar er ekkert kerfi sem heldur utan um símenntun lækna og því alls óvíst að allir læknir uppfæri þekkingu sína yfir höfuð.

Í fagi þar sem miðað er við að helmingur þekkingar úreldist á fimm árum er það tæpast æskilegt. Alma Möller landlæknir segist sammála því að nauðsynlegt sé að taka símenntun lækna fastari tökum.

„Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt atriði varðandi að þú fáir góða og örugga þjónustu. Þetta er líka mjög mikilvægt varðandi starfsánægju lækna. Auðvitað líður öllum betur ef þeir eru, finna að þeir eru vel í stakk búnir til að takast á við verkefnin. Síðan eru kröfur í samfélaginu að aukast; Bæði notendur og eftirlitsaðilar vilja hafa betri yfirsýn, tækninni fleygir fram og breytingar eru örari. Þannig að það eru flestir sammála um að við þurfum að taka þetta fastari tökum. Við höfum einmitt rætt þetta, læknafélagið og embættið, og ákveðið að fara saman í stefnumótun, vonandi þegar á næsta ári. En við þurfum auðvitað að hafa löggjafann með okkur.“

Umræðan um símenntun eða viðhaldsmenntun lækna er ekki ný af nálinni. Fyrstu greinarnar má finna í Læknablaðinu upp úr 1970. En lítið hefur þokast, þrátt fyrir samræður Læknafélagsins og embættis landlæknis. Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, bendir á að á síðasta aðalfundi félagsins hafi verið samþykkt samhljóða ályktun um að taka upp formlegri skráningu á símenntun lækna.

„Við höfum verið að ræða og taka frumkvæði í því að hafa meira formlegri skráningu á því hvernig læknar halda sér við. Hvernig þeir sinna viðhaldsmenntun. Hvernig þeir sinna því að fara í nýja þjálfun þegar nýjungar koma upp. Við sjáum það í mörgum löndum, tökum Bandaríkin sem dæmi, að þar geta sjúklingar flett upp lækni og séð hvenær hann tók próf, hvenær hann hélt sér við, hvort hann mætti í prófin sem að þeir hafa sett upp sem reglur. Það eru komnar eftirmyndir af þessu í kringum okkur í Evrópu og ég held að það sé kominn tími á að við skoðum að taka upp slíkt kerfið hér á Íslandi.“