„Mér finnst það bara ekki rétt, landsins vegna“

Jóna Björk Jónsdóttir náttúruverndarsinni segir að ekki sé rétt að brjóta óspjallað land undir umdeilda Hnútuvirkjun í Hverfisfljóti í Skaftafellssýslu. Landeigandinn segist vilja virkja til að nýta hlunnindi jarðarinnar, enda bjóði hún ekki upp á mikla möguleika sem landbúnaðarjörð.

„Mér finnst það bara ekki rétt, landsins vegna“

Hnútuvirkjun í Hverfisfljóti fékk falleinkunn hjá Skipulagsstofnun í umhverfismati, var talin myndu hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif, en sveitarstjórnin í Skaftárhreppi heimilaði að hún yrði reist.

Hnútuvirkjun myndi rísa í óbyggðum þar sem lítil merki eru um mannshöndina.

„Mér finnst það að brjóta undir sig land, eins og hér, sem er svona algjörlega óspjallað, ósnert, mér finnst það bara ekki rétt, landsins vegna,“ segir Jóna Björk Jónsdóttir, sem var varamaður í sveitarstjórn í tvö kjörtímabil og hefur barist gegn Hnútuvirkjun.

Virkjunin þurfti ekki að fara í gegnum rammaáætlun og fyrir Alþingi því hún er innan við 10 megavött. Framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins var kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og niðurstöðu er beðið.

Hverfisfljót streymir niður á láglendi í fossum og flúðum.

Ragnar Jónsson, landeigandi á jörðinni Dalshöfða, segist vilja nýta hlunnindi jarðarinnar til tekjuöflunar. „Af því að jörðin býður ekkert upp á mikla möguleika sem landbúnaðarjörð,“ segir hann. Þar séu litlir ræktunarmöguleikar út af hrauni og fjöllum.

Kveikur gengur að fyrirhuguðu virkjunarsvæði Hnútuvirkjunar í öðrum þætti vetrarins sem er á dagskrá í kvöld klukkan 20:05 á RÚV.