Margvíslegir gallar í núverandi fyrirkomulagi

Í síðustu viku fjallaði Kveikur um gríðarmikla framleiðslu kannabis hérlendis. Smygl virðist ekki lengur stundað, innanlandsframleiðslan uppfyllir eftirspurnina. Það sem meira er, þá er orðið mjög auðvelt að koma upp slíkri ræktun – gróðurhúsaeigendur í Hveragerði verða ekki fyrir spjöllum eins og áður var, þegar hitalömpum var sífellt stolið úr húsunum þeirra.

Nú er hægt að ganga inn í verslun og kaupa allan búnað sem þarf á löglegan hátt, fá leiðbeiningar um hvernig sé best að koma kannabisræktun af stað og sjaldan verður vart við ótta við afleiðingar lögbrotanna sem þetta felur í sér.

(Mynd Kveikur/RÚV)

Það er bannað að nota og rækta kannabis hérlendis og hefur verið með skýrum hætti frá árinu 1969, en þá var sett reglugerð þar sem notkun á kannabis og LSD var bönnuð. Ef marka má samtöl Kveiks við ræktendur, hafa þeir sem stendur frekar litlar áhyggjur af því að verða gripnir af lögreglu og sóttir til saka, þótt alltaf komist upp um einn og einn.

Innflutningur hefur horfið

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að heilt yfir sé lögreglan að sinna þessum málum. „og við vitum það að það þýðir ekki að sofa á verðinum með það,“ segir hann.

Sjá einnig: Kannabisverksmiðja í miðri borg

„Við sjáum aukningu á ræktunum hér á landi. Og við teljum og teljum okkur vita það að framleiðslan hér sér alveg um markaðinn hér. Og við sjáum það á fjölda ræktunarstaða, því sem við erum að taka, og svo erum við líka að sjá að innflutningur á þessum efnum, sér í lagi eins og hassi. Frá 2009, þá höfum við í rauninni ekki séð innflutning á hassi en sjáum á sama tíma aukningu á ræktunum.“

Margeir segir að fólk eigi auðveldara með að afla þekkingar til að geta hafið ræktun. „Fólk fer bara inn á netið og skoðar þetta þar. Það á auðveldara með að ná í búnað og koma sér fyrir. Í dag er þetta orðið svo miklu miklu einfaldara, og hvað á ég að segja, ódýrara. Menn eru kannski að fá betri framleiðslu heldur en var,“ segir hann.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. (Mynd Jóhannes Tryggvason/RÚV)

Ríki endurskoða afstöðu sína

Öðru hverju gýs upp umræða um lögleiðingu kannabis. Fá ríki hafa þó farið þá leið, þótt þeim fari fjölgandi. Í Evrópu var Holland lengi vel eitt í þeim hópi, en þar var sala og neysla á kannabisefnum opinberlega liðin árið 1976 – með talsverðum skilyrðum og takmörkunum sem breyst hafa í gegnum árin. En, nú hefur Spánn, Portúgal og fleiri lönd bæst við og umræða um lögleiðingu eða afglæpavæðingu skotið upp kollinum víðar.

Kaliforníuríki lögleiddi kannabis um síðustu áramót, þar sem fullorðin manneskja má eiga sex plöntur og eina únsu, tæp 30 grömm af marijúana á hverjum tíma. Gert er ráð fyrir að veltan í þessum geira, bara í Kaliforníu, verði nálægt sjö milljörðum Bandaríkjadala – um sjö hundruð milljörðum króna.

Hérlendis hefur umræða um lögleiðingu lengst af einskorðast við ákveðna hópa og ekki náð inn á Alþingi eða inn í stjórnmálaflokkana að nokkru marki, nema helst hjá Pírötum – en í haust lagði Pawel Bartozek, þá þingmaður Viðreisnar, fram frumvarp um lögleiðingu kannabis. Þrír þingmenn voru meðflutningsmenn, einn úr Viðreisn og tveir Píratar. Þetta gerðist reyndar skömmu eftir að ríkisstjórnin sprakk og fór því ekki lengra að sinni.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. (Mynd Jóhannes Tryggvason/RÚV)

Rökstyðja þarf bann fremur en lögleiðingu

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, er fylgjandi því að kannabis verði lögleitt. „Sönnunarbyrðin liggur alltaf hjá þeim sem vill banna, það þarf ekki rök til að leyfa, það þarf rök til að banna. Og ég einfaldlega hef ekki heyrt sannfærandi rök fyrir því að banna kannabis,“ segir hann.

„Þrátt fyrir það að það fylgi neyslu þeirra hættur og ýmislegt svoleiðis, eins og með ýmislegt annað í lífinu. Hitt er síðan það að ég tel löggjöfina eins og hún er í dag, gera meiri skaða en bót. Mér finnst allt í lagi að það sé eitthvert regluverk í kringum það, mér finnst það allt í lagi. Bara eins og er í kringum ýmislegt í samfélaginu, í kringum byssur og áfengi og annað sem getur verið skaðlegt.“

Kannanir sýna þó að mikill meirihluti þjóðarinnar er mótfallinn lögleiðingu kannabisefna. Þeirra á meðal er Steinunn Þóra Árnadóttir. „Vegna þess að með því að þá erum við að færa til mörkin í samfélaginu og þar með normalisera á ákveðinn hátt neyslu þeirra. Og ég hef áhyggjur af því að það verði þá til þess að auka neysluna og eins jafnvel að færa hana niður í aldurshópana,“ segir hún.

Helgi viðurkennir að það sé hætta á normalíseringu. „En þarna eru tveir pólar sem takast á. Annar er sá sem er að segja að kannabisefni séu bara algerlega skaðlaus - sem er rangt - eða að kannabisefni sé eitthvert undrameðal sem sé allra meina bót - sem er rangt. Svo er hinn póllinn, sem er alltaf að láta eins og þetta sé heróín, eins og þetta sé eitthvað stór, stórhættulegt efni. Það eru alveg hættur við kannabisefni og auðvitað því meira sem maður notar það og því lengur sem maður notar það, því líklegra er að maður lendi í vandræðum með það,“ segir Helgi Hrafn.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingkona Vinstri grænna. (Mynd Jóhannes Tryggvason/RÚV)

Afglæpavæðing nýtur stuðnings

Það er þó samhljómur með þeim Helga Hrafni þegar kemur að svokallaðri skaðaminnkun og afglæpavæðingu. „Afglæpavæðingin snýr þá að því að við séum hörð á því að framleiðsla og innflutningur og dreifing á efnunum sé ólögleg, en við þurfum kannski aðra nálgun þegar kemur að þeim sem eru að neyta þessara efna,“ útskýrir Steinunn.

Helgi tekur í sama streng. „Hjá mér og í okkar flokki, þá erum við aðallega að fókusa á að við eigum að hætta að refsa neytendum og við eigum að hætta því alveg. Það á ekki að vera refsivert að neyta neins vímuefnis. Sérstaklega ekki hættulegu vímuefnanna. Þegar kemur að sölufyrirkomulagi og dreifingu og framleiðslu og svoleiðis, þá eru skiptari skoðanir um það í mínum flokki þannig að það er ekki í stefnu flokksins núna að heimila kannabissölu og -framleiðslu til dreifingar,“ segir hann.

Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar undanfarið með lögleiðingu og sums staðar er kannabis eingöngu leyft í lækningaskyni. Steinunn er líklega eini þingmaðurinn sem gæti fallið í þann flokk að mega þá nota kannabis, í verkjameðferðarskyni, því hún er með MS.

„Þetta hefur ekki verið djúp umræða í þeim hópum sem ég er í meðal MS-fólks. En ég hef meðal annars rætt þetta við minn taugalækni, bara til þess að fá hans læknisfræðilega álit hvort að þetta sé verkjameðferð sem ég ætti að líta til. Hans niðurstaða er sú að ef það er ekki nein önnur verkjameðferð í boði, þá sé þetta mögulega skárri en engin meðferð,“ segir hún.

„En við búum í það góðu samfélagi að hér er völ á lyfjum sem hafa sýnt fram á læknisfræðilega virkni sem er meiri, þannig að ég kýs nú að fylgja mínum lækni í þessu sem mér fannst bara færa ansi góð rök og vera búinn að kynna sér málið vel, til þess að sannfærast um það að kannabis væri ekki að fara að bæta líf mitt.“

Stríðið búið og dópið vann

Persónulega vill Helgi ganga lengra en Píratar hafa samþykkt að berjast fyrir. Hann segir stríðið við dópið hafa verið háð og því sé nú lokið. Tölur úr íslenskum rannsóknum sýna einnig að upp undir helmingur ungs fólks hafi neytt þessara efna og þriðji hver Íslendingur.

„Þetta fyrirkomulag sem við erum með núna, þessi bann-löggæslustefna, hún er upprunnin úr stríðshugarfari, engu minna en stríðshugarfari. War on Drugs. Dópstríðið. Þaðan kemur þessi hugmyndafræði. Og hugmyndin er sú að við getum farið í stríð við þennan óvin, sem er dóp og tortímt honum. Það er forsenda þess að þessi löggæslustefna hafi verið tekin upp til að byrja með. Og nú bara er það þannig að stríðið er búið, og dópið vann,“ segir hann.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands. (Mynd Jóhannes Tryggvason/RÚV)

Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, hefur kannað neyslu og afstöðu Íslendinga til kannabis árlega síðan 1997. Hann segir að í heildina séð séu Íslendingar fylgjandi þeim reglum og ákvæðum sem eru ríkjandi á Íslandi í dag.

„En við sjáum svona ákveðnar breytingar, heldur í þá átt að fleiri vilja sjá einhverjar breytingar. Og við tökum til dæmis hópinn 30 ára og yngri þá er þetta um það bil helmingur ungu kynslóðarinnar sem vill sjá breytingar af þessu tagi og það er einmitt sama tala, sama hlutfall, og við sjáum að segist vera að nota þessi efni eða segist hafa neytt þessara efna,“ segir hann.

Margvíslegir gallar á stefnunni

Ræktandi sem Kveikur ræddi við sagðist styðja lögleiðingu og sá fyrir sér að stofna fyrirtæki í kringum ræktun og sölu. Þá þyrfti að borga skatta og skyldur – en þá væri jafnframt hægt að sleppa því að beita þá kaupendur ofbeldi sem ekki greiddu reikningana sína – þeir færu bara í hefðbundna innheimtu.

Helgi bendir á nokkra hluti sem núverandi stefna hefur í för með sér. „Við sjáum auðvitað margvíslega galla í núverandi stefnu. Stór hluti ungs fólks er raunverulega bara gerður að brotafólki, færist á sakaskrá. Við erum að sjá að það er verið að selja efni sem hefur í sjálfu sér enga neytendavernd, við vitum í sjálfu sér ekkert hvað er í þessum efnum. Það eru handrukkarar. Við vitum ekkert hvernig kaup og sala fer fram, en það er ofbeldi þarna nærliggjandi,“ segir hann.

„Þannig að það eru margvíslegir gallar í núverandi fyrirkomulagi. Þetta eru samt sem áður skilaboð frá samfélaginu um það að þetta er breytni og þetta eru efni sem eru hættuleg og geta haft margvíslegt tjón í för með sér.“

Ræktandi sem Kveikur ræddi við segist ekki upplifa það að vera eltur af lögreglu. (Mynd Aðalsteinn Kjartansson/RÚV)

Ekki viðunandi ástand

Afleiðingar kannabisneyslu geta verið alvarlegar. En þá þýðir tæpast að loka augunum fyrir því að neyslan hér er mikil þótt framleiðsla og sala sé ólögleg. Lögreglan hefur í rauninni ekki fyllilega getað framfylgt lögunum. Er það í lagi?

„Ég held að það sé ekki viðunandi, en það er líka samt þannig með lög að við náum aldrei öllum sem eru að brjóta þau. En það er ekki þar með sagt að leiðin sé bara að fella lögin úr gildi og gera þar með athæfið löglegt,“ svarar Steinunn.

Helgi Hrafn segir þetta vekja upp spurningar. „Eigum við að herða á eftirlitinu og taka meiri löggæslupól í málið eða eigum við að horfast í augu við þann raunveruleika að fullt af fólki vill nota kannabisefni, flestir geta gert það án þess að lenda í teljandi vandræðum. Vill maður þá kannski horfast í augu við það? Ég myndi fara í þá átt frekar,“ segir hann.

Rafn M. Jónsson, verkefnastjóri hjá Landlæknisembættinu. (Mynd Jóhannes Tryggvason/RÚV)

Kannabis er skaðlegt vímuefni

Eins og nefnt var þá hefur kannabis verið bannað hérlendis frá 1969. Síðan er liðin tæp hálf öld og afstaða ýmissa þjóða hefur breyst. Hvað með hér á Íslandi? Hver er til að mynda afstaða landlæknisembættisins? Rafn M. Jónsson er verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Landlækni, segir að áfram eigi að vera bann við sölu og notkun kannabisefna.

„Kannabis er vímuefni sem hefur skaðleg áhrif á þann sem notar það og því meira sem það er notað, þeim mun meiri skaði. Og þetta er líka á lista Sameinuðu þjóðanna yfir ólögleg vímuefni og meðan við erum aðilar þar að er mjög eðlilegt að halda því banni við. Sennilega ef við hefðum ekki bann þá væri neyslan töluvert meiri og þar af leiðandi værum við með stærri hóp sem væri að prófa og þá mögulega stærri hóp sem myndi festast, ánetjast, og þar af leiðandi meiri samfélagslegur skaði,“ segir hann.

„Fyrir þá einstaklinga sem eiga við verulegan vanda að stríða eiga þau frekar að fá heilbrigðisþjónustu frekar en refsivörslu. Það eru líka bara mannréttindi að fá aðgengi að réttri heilbrigðisþjónustu, af hvaða tegund sem hún er. Hvort sem það er heilsugæsla, sjúkrahús eða hreinlega bara meðferð.“

Þurfum að skipta um gír

En hvað á þá að gera? Rafn segir að við þurfum að skoða hvað er að gerast annars staðar. „Hvaða áhrif er þetta að hafa á samfélag, samfélagslegan kostnað, til dæmis í Colorado og Úrúgvæ. Sjáum hvað áhrif þetta hefur á samfélagið þar áður en við förum að gera tilraun hérna heima,“ segir hann.

„Umræðan er alltaf af hinu góða en við verðum að taka ákvarðanir út frá niðurstöðum, rannsóknum, vísindalegum, hvaða áhrif þetta hefur. Við þurfum að láta meta þetta. Frekar en að láta tilfinningarök ein og sér ráða hvert við förum.“

Undir það tekur Helgi Gunnlaugsson. „Við þurfum að fylgjast með reynslu annarra þjóða, hvernig þetta reynist hjá t.d. Bandaríkjunum, en líka ýmislegt sem er að gerast líka í Evrópu. Við eigum bara að taka mið af því sem reynist best,“ segir hann.

„Við þurfum að skipta um gír í baráttunni gegn fíkniefnum. Ég er alveg sannfærður um það að það þarf að endurskoða löggjöfina með einhverjum hætti og þá með ákveðnum skrefum. Því ég tel það nokkuð víst, bara hvernig þróunin hefur verið á síðustu árum og áratugum, þar sem neyslan er smám saman að verða hluti af skemmtanaflóru unga fólksins, ekki bara á Íslandi heldur erlendis líka. Að við munum taka öðruvísi á þessum málaflokki í framtíðinni en við höfum gert hingað til. Við munum læra sem sagt af þeirri reynslu sem refsistefnan hefur haft í för með sér og koma þessum málum þannig fyrir að þetta sé reglustýrt með einhverjum þeim hætti að við getum betur fylgst með því hvernig þessu verður háttað í samfélaginu. Og þá í samvinnu við borgarana frekar en í stríði við þá.“