*

Má ekki opna flóðgáttirnar of snemma

Sigurður Guðmundsson, smitsjúkdómalæknir og fyrrverandi landlæknir, telur mjög skynsamlegt að aflétta hömlum í samfélaginu vegna faraldurs kórónuveirunnar með löngu millibili, eins og yfirvöld hafa boðað.

Má ekki opna flóðgáttirnar of snemma

Sigurður telur mjög erfitt að spá fyrir um hve lengi þurfi að halda í gildi einhverjum takmörkunum í samfélaginu, en segir að óþolinmæði gæti „komið okkur í koll.“

Hann segir að enginn vafi sé á að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á Íslandi til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins hafi borið árangur.

„Auðvitað erum við ekki komin út úr skóginum, þannig að við skulum ekki fara að berja okkur á brjóstvöðvana alveg strax að þetta sé búið. Það er ekki búið.“

Sjálfur hefði hann ekki gert hlutina öðruvísi ef hann hefði þurft að marka stefnuna, segir hann. „Nei, ég bara vona að mér hefði borið gæfa til þess að gera þetta eins.“

Hann segir ákaflega jákvætt að hér hafi náðst þessi árangur. „Það er ekki það sem við erum að sjá í ýmsum öðrum löndum hér í kringum okkur.“

Sigurður segir „svolítið sérstakt“ hve tilfellum kórónuveirunnar hefur fækkað hratt á Íslandi. Ef faraldurinn sé að lognast út af þurfi menn samt, þess þá heldur, að gæta sín, „að opna ekki flóðgáttirnar of snemma, til þess að eiga einmitt ekki á hættu að þetta komi allt í fangið á okkur aftur.“

Gripið hefur verið til margvíslegra ráðstafana á Landspítalanum. Sigurður, sem sinnir sjúklingum á smitsjúkdómadeild spítalans, segir að það sé „með ólíkindum“ hversu vel hefur gengið að breyta honum í að vera „sóttarspítali.“

„Þar hafa hjúkrunarfræðingar borið kannski hitann og þungann af þessum breytingum,“ að breyta venjulegri sjúkradeild í einangrunardeild, „mér liggur við að segja á nokkrum mínútum,“ segir Sigurður.

Það sé einstakt að sjá hve samheldnin og krafturinn í fólki hafi verið mikill.

„Ég vona að þetta hljómi ekki, svona, væmið, en þetta er bara svona.“

Sigurður hefur tekið þátt í þróunaraðstoð í Malaví, sem er annað af tveimur Afríkuríkjum þar sem Íslendingar stunda þróunarsamvinnu á vettvangi, ásamt Úganda. Í þeim heimshluta eru aðstæðurnar allt aðrar en á Landspítalanum.

Í Kveik í kvöld verður rætt við Sigurð og fleiri um áhrif farsóttarinnar á fátæk lönd Afríku, þar sem heilbrigðiskerfið er ekki í stakk búið að takast á við faraldur sem þennan. Sigurður telur að vestræn ríki hafi ekki gert nóg til að hjálpa Afríkulöndum í faraldrinum.

Í þættinum verður líka litið um borð í farþegaþotu Icelandair sem kom til Íslands fyrir helgi, full af búnaði frá Kína. Landspítalinn hefur alls flutt inn um 50 tonn af vörum í þremur ferðum.

Sigurður segir að það hafi alls ekki komið honum á óvart að heimfaraldur skylli á, þótt hann hefði kannski frekar búist við meiriháttar inflúensu en kórónuveiru.

Hann segir smitsjúkdómalækna vana að vinna í kringumstæðum eins og nú, að þurfa að klæða sig í einuangrunarbúning til að sinna fólki með smitnæman sjúkdóm.

Aftur á móti sé mjög sérstakt og upplýsandi að vera „í auga stormsins“ og fylgjast með því þegar nýr sjúkdómur verður til.

„Og læra raunverulega meira, eða ekki minna, um þennan sjúkdóm með því að tala við sjúklingana sína, skoða þá, meðhöndla þá og fylgja þeim eftir, heldur en að lesa um hann í einhverjum tímaritum.“

Hann kveðst finna til „ákveðinnar auðmýktar gagnvart þessu fyrirbæri sem þessi sjúkdómur er.“

Enn sé alltof lítið vitað um sjúkdóminn. Læknar viti lítið um hvaða lyf duga, hvernig sé best að fylgja sjúklingunum eftir og hvað ræður mestu um hverjir veikjast og hverjir ekki.

Að því leyti minni þetta á upphaf HIV-faraldursins, þótt sjúkdómurinn sé allt öðruvísi.

„Þetta að vera að eiga við fyrirbæri sem er nýtt, óþekkt og maður hafði aldrei kynnst áður, og vissi þess vegna ekki hvernig er best að eiga við sjúkdóminn til þess að reyna að hjálpa sjúklingum sínum,“ segir Sigurður.

„Það eru óþægindin við þetta. Það er það sem mér finnst jafnvel svolítið skelfilegt stundum.“

Sigurður kveðst þó mjög bjartsýnn á að böndum verði komið á sjúkdóminn.

Hann telur alveg ljóst að lyf eigi eftir að finnast, en ef endanlega eigi að ráða niðurlögum sjúkdómsins verði það með bólusetningu. „Ég er nánast viss um það að það mun takast,“ segir hann. „En það mun taka tíma.“

Kveikur er á dagskrá RÚV kl. 20:00 í kvöld, aðeins fyrr en venjulega.