*

Má ekki geyma rammaáætlun í frysti í mörg ár

Óvissa er um hvort tillaga Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra um virkjunarkosti í þriðja áfanga rammaáætlunar verður afgreidd á Alþingi fyrir kosningar. Stefán Gíslason, formaður verkefnisstjórar þriðja áfangans, segir að ekki megi geyma rammaáætlun í frystikistu í mörg ár.

Má ekki geyma rammaáætlun í frysti í mörg ár

Guðmundur Ingi er þriðji umhverfisráðherrann sem leggur tillögur verkefnisstjórnarinnar um flokkun virkjunarkosta fram á Alþingi. Hátt í fimm ár eru síðan verkefnisstjórnin skilaði Sigrúnu Magnúsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra, tillögum sínum.

Í áföngum raða verkefnisstjórnir fjölda virkjunarkosta í þrjá flokka: orkunýtingarflokk, sem þýðir að áætlað sé að ráðast megi í að virkja, verndarflokk, sem þýðir að friðlýsa eigi svæðið fyrir orkuvinnslu, og biðflokk, ef upplýsingar vantar. Tillögur verkefnisstjórnar fara að lokum til ráðherra.

Sigrún Magnúsdóttir mælti fyrir þriðja áfanganum 2016 og Björt Ólafsdóttir 2017, án þess að hann væri samþykktur. Eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum liðu þrjú ár þar til tillagan kom aftur inn á þingið.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir þessa töf.

„Það er auðvitað á ábyrgð ráðherrans að hafa ekki lagt málið fyrr inn í þingið eða tekið umræðu innan ríkisstjórnarflokkanna um það hvernig við skyldum vinna með það,“ segir Jón.

Guðmundur Ingi segir að hann hefði lagt þingsályktunartillöguna fram vorið 2020, en vegna faraldursins og niðurskurðar í þingmálum ráðherra hafi málið ekki komið fram fyrr en í haust.

Jón vill setja alla virkjunarkosti sem liggja fyrir þinginu í biðflokk þannig að verkefnisstjórn taki þá aftur til umfjöllunar.

„Ég hef viðrað þá málamiðlun að við bara tökum í raun allar þessar tillögur verkefnisstjórnarinnar um virkjanakosti annars vegar í vernd og hins vegar í nýtingu, setjum það bara inn í biðflokk aftur og bara ljúkum formlega vinnunni við rammaáætlun þrjú með þeirri flötu niðurstöðu,“ segir Jón.

Stefán Gíslason, formaður verkefnisstjórnar þriðja áfanga, segir að ekki sé hægt að kenna rammaáætlun sem slíkri um að ríkisstjórn og Alþingi hafi ekki náð að ljúka afgreiðslu málsins. „Það er bara þeim að kenna.“

Stefán telur að rammaáætlun sé nauðsynlegt tæki. „En við þurfum þá líka að nota það. Við megum ekki halda því í gíslingu eða vera með það einhvers staðar niðri í frystikistu í mörg ár,“ segir hann.

Fjallað verður um rammaáætlun í Kveik í kvöld klukkan átta.