Lilja: Mitt stærsta mál á þessu kjörtímabili

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherrasegir væntanlegan kennaraskort eina stærstu áskorunina sem hún standi frammi fyrir í embætti. Aðgerða af hálfu ríkisins sé að vænta í haust.

Lilja: Mitt stærsta mál á þessu kjörtímabili

Í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld var fjallað um yfirvofandi kennaraskort, en eftir að námið var lengt í fimm ár hrundi aðsóknin og tölfræðin bendir til þess að skólakerfið verði óstarfhæft eftir 10-20 ár.

Sjá einnig: 10–20 ár þar til skólakerfið verður óstarfhæft

Sveitarfélögin hafa þungar áhyggjur af þessu og segjast ekki ráða ein við vandann. Meðal þeirra tillagna sem liggja fyrir er að námslán kennaranema breytist í styrki og hluti meistaranámsins verði launað starfsnám.

„Þetta er ein stærsta áskorun sem ég stend frammi fyrir, sem mennta og menningarmálaráðherra,“ segir Lilja. „Þetta og endurskoðunin á Lánasjóði íslenskra námsmanna, og það vill svo skemmtilega til að það er hægt að tvinna þetta svolítið saman til þess að gera betur hvað varðar kennaranámið.“

Sjá einnig: Eins og að koma út úr skápnum

Lilja segir búið að kortleggja vandann vel. Hún vilji vinna tillögur í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, menntavísindasvið HÍ og kennaraforystuna. Það sé kominn tími á aðgerðir og von sé á tillögum að þeim í haust. Íslenskt hagkerfi verði ekki hugverkadrifið árið 2050 ef þessu verði leyft að gerast.

„Þetta er mitt stærsta mál á þessu kjörtímabili,“ segir hún.

Umfjöllun Kveiks um kennaraskort má sjá hér.