Færa misnotkun valds upp á yfirborðið

Uppljóstrarar um allan heim hafa svipt hulunni af alls kyns leynimakki og komið misnotkun valds upp á yfirborðið í þágu almennings. Lengi hefur staðið til að setja lög sem vernda uppljóstrara en hvers vegna ættu þeir að njóta verndar?

Uppljóstrarar hafa svipt hulunni af hernaðarbrölti, njósnum, peningaþvætti, pyntingum og ýmsu fleiru, sem hinn venjulegi maður á erfitt með að gera sér í hugarlund, en getur átt erindi við hann.

Hér á landi hefur verið komið upp um skattsvik, óeðlilega viðskiptahætti brotastarfsemi og siðferðisbresti sem hefðu hugsanlega aldrei komist í hámæli nema fyrir tilverknað uppljóstrara.

Uppljóstrarar hafa þýðingu fyrir lýðræðið

„Uppljóstrarar hafa gríðarlega þýðingu fyrir almenning og fyrir hollustu lýðræðisins má segja, því að þeir eru oft einstaklingarnir sem koma upp á yfirborðið duldum sannleik um misnotkun valds um brot sem snúa að almannahagsmunum,“ segir Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari, tekur í sama streng. „Það ætti frekar að vera jákvætt að borgari stígi fram og lýsi broti og aðstoði við að upplýsa mál heldur en að tala um uppljóstrara eða klöguskjóðu eða hvaðeina annað neikvætt.“

„Þetta opinbera kerfi sem við höfum komið okkur upp, ríki og sveitarfélög, eru í raun og veru fyrir okkur. Það eru okkar hagsmunir að vel sé staðið að málum þarna og hlutir séu gerðir með réttum hætti,“ segir Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.

Uppljóstrarar á allra vörum við hrun

Umræða hér á landi um vernd uppljóstrara varð áberandi þegar þrír stærstu bankar landsins urðu gjaldþrota hver á fætur öðrum haustið 2008.

„Það stóðu bara allir frammi fyrir þessari stóru spurningu: Bíddu hvað gerðist? Hvers vegna gerðist þetta? Og það vildu allir leggja sitt af mörkum til þess að upplýsa málin,“ segir Tryggvi.  

Löggjafinn áttaði sig á því að til þess að komast að sannleikanum þyrftu einhverjir sem störfuðu innan bankakerfisins að vera tilbúnir til að leysa frá skjóðunni. Þegar rannsóknarnefnd Alþingis var því stofnuð til að kafa ofan í fall bankanna, var sett inn í lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sérstakt ákvæði sem var ætlað að vernda það fólk sem stigi fram.

13. gr. a. Óheimilt er að láta starfsmann gjalda þess að hann greini viðeigandi aðilum frá lögbrotum eða brotum á siðareglum sem hann hefur orðið áskynja um í starfi.

Þá var stofnað embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka möguleg brot innan bankanna og í lögum um embættið var einnig sett inn ákvæði um vernd.

5. gr. ...sá sem hefur frumkvæði að því að bjóða eða láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar eða gögn sæti ekki ákæru þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að broti hans sjálfs.

Lögin torveld í framkvæmd

Þau skilyrði voru sett í lögunum að upplýsingarnar sem uppljóstrari kæmi á framfæri gætu leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti. Þá þurfti sérstakur saksóknari að sækja um heimildina til ríkissaksóknara.

„Þetta var svolítið þungt í framkvæmd vegna þess að sá sem vildi gefa upplýsingarnar vildi náttúrulega hafa fullvissu fyrir því að verða ekki saksóttur, en við þurftum eiginlega að fá að vita hvað hann ætlaði að segja okkur fyrir fram til þess að geta sótt um, þetta þannig að það var svolítið svona strögl á framkvæmdinni,“ segir Ólafur Þór.

Þegar embætti sérstaks saksóknara var lagt niður og embætti héraðssaksóknara stofnað árið 2015 féll þessi heimild úr gildi. Þó var um það rætt, þegar frumvarpið um sérstakan saksóknara var lagt fram í nóvember 2008, að ákvæði um vernd uppljóstrara ætti að vera almennt en frá því var hins vegar horfið. Ólafur telur að þetta úrræði væri mjög æskilegt.

„Það eru gríðarleg mistök að þetta element skyldi ekki hafa haldið sér í lögum um héraðssaksóknara,“ segir Kristinn, talsmaður Wikileaks.

Þáttur fjölmiðla stór

Í bankahruninu var þáttur fjölmiðla stór. Fólk var almennt viljugt til að láta þeim í té upplýsingar sem kynnu að varpa ljósi á það sem hafði gerst.

„Ég held að ein stærsta frétt af því taginu hafi náttúrulega verið leki á lánabók Kaupþings 2009,“ segir Kristinn og vísar til upplýsinga sem birtust fyrst á erlendri vefsíðu Wikileaks. Það kom í hlut fréttamanna að sannreyna þær og meta hvort rétt væri að greina frá þeim.

„Upplýsingarnar í heild sinni áttu erindi til almennings vegna þess að heildar- upplýsingarnar drógu upp mynd sem skýrði nákvæmlega hvernig bankinn var,“ segir hann. Nýja Kaupþing og skilanefnd gamla Kaupþings fóru hins vegar fram á að lögbann yrði sett á umfjöllun RÚV.

„Að reyna að setja lögbann á eitthvað sem er búið að birta á internetinu og er speglað í sörverum um allan heim er náttúrulega bara fráleitt. Enda koðnaði þetta lögbann niður á þrem, fjórum dögum,“ segir Kristinn.

Aftur reynt á lögbann átta árum síðar

Átta árum eftir að lögbann á umfjöllun um lánabók Kaupþings var fellt niður birtu Stundin og Reykjavík Media, í samvinnu við The Guardian, fréttir upp úr gögnum innan úr Glitnisbanka.

Umfjöllunin beindist að viðskiptaháttum Glitnis fyrir hrun og viðskiptaumsvifum þáverandi forsætisráðherra. Eigendur þrotabús Glitnis fóru fram á lögbann á umfjöllun Stundarinnar og byggðu það á lögum um bankaleynd. Varð sýslumaður við þeirri beiðni. Ári síðar höfnuðu dómstólar lögbannskröfunni þar sem umfjöllunin átti erindi til almennings.

„Tilgangurinn var náttúrlega einfaldlega þessi: að reyna að tefja umfjöllun,“ segir Kristinn. Það er einmitt málið. Oftar en ekki er farið á eftir þeim sem veitir upplýsingar eða segir frá.

„Í reynd er það að alveg með ólíkindum hversu margir engu að síður ákveða að stíga þetta skref, þrátt fyrir það að þeir hafi vitneskju og fordæmi fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft. Samviska manna er nú bara þannig að menn vilja ekki sjá órétt og eru tilbúnir til að færa miklar fórnir fyrir.“

Dæmin ófá

Kristinn nefnir sem dæmi John Kiriakou, fyrrverandi starfsmann bandarísku leyniþjónustunnar, sem fyrir rúmum tíu árum ljóstraði upp um pyntingaráætlanir bandarískra stjórnvalda. „Hann endar í fangelsi, það er eini maðurinn sem hefur farið í fangelsi vegna ólögmætra pyntinga bandarísku leyniþjónustunnar, það er maðurinn sem sagði frá.“

„Það er reyndar því miður harmsaga flestra uppljóstrara að þurfa að gjalda það dýru verði að hafa samvisku sinnar vegna stigið fram og greint frá því sem þeir töldu vera brot gegn almannahagsmunum,“ segir Kristinn.

Annað nýlegt dæmi er þegar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vildi fá að vita hver hefði komið upplýsingum um afdrifaríkt símtal hans við forseta Úkraínu til fjölmiðla og sagði uppljóstrunina jafngilda njósnum. „Vitið þið hvað við gerðum í gamla daga þegar við vorum klár gagnvart njósnum og föðurlandssvikum?“ spurði forsetinn.

Á ekki að rægja eða gera lítið úr uppljóstrurum

„Ég held að þegar við erum að fjalla um heimildarmenn eða uppljóstrara að þá þurfi að hafa þetta í huga að þetta sé þekkt aðferð við það að rægja eða gera lítið úr þeim sem kemur fram með upplýsingarnar,“ segir Ólafur Þór.

Árið 2002 varð uppljóstrari sem kallaður var litli Landsímamaðurinn þjóðþekktur eftir að hann kom upplýsingum á framfæri við fjölmiðla. Þær sýndu viðskipti stjórnarformanns Landsímans við fyrirtækið, sem mörgum þóttu ámælisverð, en honum sagt upp störfum hjá Landsímanum.

Skiptir máli að upplýsa almenning

En það er fleira sem þarf að huga að, að mati héraðssaksóknara. „Ef fjölmiðlar fara mjög bratt í það að tala um leka og hver sé hinn og þessi uppljóstrarinn í tilteknu máli þá eru bara tuttugu, þrjátíu aðrir sem fara bara ofan í holurnar sínar aftur og láta sér ekki detta í hug að gefa upplýsingar,“ segir hann.

„Það hefur auðvitað í för með sér ákveðna erfiðleika í starfi fjölmiðlamanna ef upplýsingagjöfin þrengist - sem er spurning um hvort sé nokkuð æskileg og mér finnst hlutirnir bera svolítið keim af þessu í dag. Það skiptir máli fyrir almenning að hann viti hvað er í gangi,“ segir Ólafur.

„Það er algjörlega nauðsynlegt að fjölmiðlar geti farið djúpt inn í mál og varpað ljósi á það sem er aðfinnsluvert í samfélaginu.“

„Það eru þónokkur dæmi um það að umfjöllun í fjölmiðlum hafi skipt máli í því sem við erum að gera bæði þá jafnvel stutt mál sem jafnvel eru í rannsókn eða orðið efni til þess að hefja rannsókn á málum,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri.

Heimildarmenn verða að njóta verndar

Blaðamenn hafa heimild til að vernda heimildarmenn sína og neita að svara spurningum sem gætu komið upp um þá. Hæstiréttur staðfesti það í dómi í máli Glitnis gegn Stundinni.

Þar segir að forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt sé „að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra.“ Liður í því sé að þeir geti tekið við upplýsingum í trúnaði.

„Það er náttúrulega bara mjög skýrt ákvæði með það að heimildarmenn fjölmiðla njóti verndar og margdæmt um slík mál,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.

„Við eigum að treysta blaðamönnum og blaðamenn eiga líka að vera traustsins verðir og vinna að því að skapa sér það traust. Þá koma líka fleiri uppljóstrarar til þeirra,“ segir Kristinn, talsmaður Wikileaks.

Ýmsar leiðir færar

Búi fólk yfir upplýsingum eru ýmsar leiðir til að koma þeim á framfæri. Það er hægt að hafa samband við fjölmiðla, það er hægt að hafa samband beint við lögreglu og það er hægt að leita til eftirlitsstofnana. Þá er hægt að senda ábendingar til ýmissa yfirvalda eins og Umboðsmanns Alþingis og skattrannsóknarstjóra.

„Það er bara þónokkuð um þetta. Það eru á annað hundrað slíkar ábendingar sem að berast á hverju einasta ári. Það er nú allavegana hvort að menn láta nöfn þarna fylgja með eða ekki,“ segir Bryndís, skattrannsóknarstjóri.

Uppljóstrarar njóta ekki neinnar sérstakrar verndar hjá skattrannsóknarstjóra en lögum um Umboðsmann Alþingis var hins vegar breytt í fyrra og þá var sett inn ákvæði um vernd uppljóstrara.

„Það er í lögunum gert ráð fyrir því að það séu ekki veittar upplýsingar um slíka aðila, það sé hægt að eyða persónugreinanlegum upplýsingum. Umbúnaðurinn um þær eru auðvitað þannig að það er þá ég sem tek við þeim. Þær eru þá í mínum kolli og ég vinn svo úr þeim,“ segir Tryggvi, umboðsmaður Alþingis.

Lagafrumvarp á borðinu

Strax í kjölfar máls litla Landsímamannsins var mikið um það rætt hvort ekki bæri á einhvern hátt að vernda þá sem upplýstu um brot eða siðferðislega ámælisverða háttsemi jafnvel þótt þeir hafi brotið trúnaðar- eða þagnarskyldu.

Þingsályktunartillaga þess efnis var samþykkt á Alþingi árið 2010. Nú, níu árum síðar, hillir undir að slík lög taki gildi. Forsætisráðherra hefur kynnt frumvarp um vernd uppljóstrara sem til stendur að leggja fram á yfirstandandi þingi.

„Þessi ákvæði eru fyrst og fremst hugsuð út frá því sjónarmiði að menn geti þrátt fyrir trúnaðar- og þagnarskyldu greint frá upplýsingum sem þeir vita um og þá er líka haft í huga að það er í þágu almannahagsmuna“ segir Tryggvi. Þá þurfi leiðir til þess að vera einfaldar.

Persónuvernd hefur ekki skilað inn umsögn um frumvarp forsætisráðherra. Forstjóri Persónuverndar er því ekki tilbúin til að veita umsögn um það.

„En bara almennt séð að þá er bara spurningin: Hver er þörfin á löggjöfinni? Er algerlega, fullkomlega ljóst að hennar sé þörf á mjög víðu og breiðu sviði, eða er eðlilegt að löggjafinn takmarki sig við réttareglur, þar sem að vitað er að samfélagslegir hagsmunir eru mögulega meiri heldur en minni,“ segir Helga, forstjóri Persónuverndar.

Í umsögn sinni um frumvarpið eru Samtök atvinnulífsins í meginatriðum sammála því að það sé mikilvægt að upplýst sé um brot er varða almannahagsmuni. Frumvarpið gangi hins vegar mun lengra en þörf sé á. Ekki sé skýrt hvað teljist ámælisverð háttsemi eða hvaða ríku hagsmunir þurfi að vera til staðar til að réttlæta undanþágu frá þagnar- eða trúnaðarskyldu.

Ófá lagaleg álitaefni

„Það eru margvísleg lögfræðileg álitaefni sem að rísa þegar slíkar heimildir eru settar í lög og þegar þær eru framkvæmdar,“ segir Tryggvi umboðsmaður Alþingis.

„Ég tala nú ekki um þegar við erum að tala um lagasetningu þar sem tekist er á um tvö stjórnarskrárvarin réttindi, annars vegar tjáningarfrelsið og hins vegar friðhelgi einkalífs. Þá þarf að vanda sig,“ segir Helga, forstjóri Persónuverndar.

Hún segir að meðal þess sem þurfi að skoða er merking þess að vera í góðri trú. „Eitthvað sem getur verið í góðri trú einhvers er kannski ekki í góðri trú annars.“ Það, hvað sé siðferðislega ámælisvert, sé í raun orðið vítt hugtak, sem erfitt sé að starfa eftir. Því sé ábyrgð þeirra sem fá slíkar upplýsingar í hendurnar orðin nokkuð mikil.

Hið opinbera getur ekki verið alls staðar

Hvers vegna ætti fólk að koma upplýsingum eða gögnum um náungann, og það sem náunginn aðhefst, á framfæri við yfirvöld eða fjölmiðla? Hvaða máli skiptir það almenning?

„Þetta er gríðarlega stórt atriði. Ella er bara hætta á að brotastarfsemi nái að grassera og að lögreglukerfið nái ekki að bregðast við með viðhlýtandi hætti,“ segir Ólafur Þór héraðssaksóknari og bætir við að það skipti „máli fyrir almenning að hann viti hvað er í gangi.“

„Hið opinbera getur ekki verið alls staðar og þá þurfum við einhvern veginn að finna leiðir til þess að borgararnir geti hjálpað við að halda hlutunum í réttu horfi. Þetta er ekkert spurningin endilega um að vera að klaga náungann heldur er þetta fyrst og fremst bara það að þessir almannahagsmunir séu viðhafðir,“ segir Tryggvi umboðsmaður Alþingis.