Kemst hjá því að svara fyrir brotið

Erlendur ferðamaður, sem olli alvarlegu bílslysi fyrir ári, sleppur við refsingu. Landsréttur taldi ekki ástæðu til að setja hann í farbann, svo hann yfirgaf Ísland og hefur engu svarað síðan.

Laugardagurinn 28. apríl 2018 var fallegur dagur á höfuðborgarsvæðinu. Sólin skein í heiði, varla ský á himni, hitinn um frostmark. Undir hádegi var Óskar Aðils Kemp ásamt dætrum sínum, Rúnu og Íshildi, tveggja og þriggja ára, á leiðinni inn í Hafnarfjörð af Reykjanesi. Óskar, sem vann á þessum tíma við að skipuleggja vegalokun vegna malbikunar, ekki síst á Reykjanesbraut, tók eftir að umferðaröngþveiti var við Vallahverfi því að fótbolti hafði skoppað út á brautina.

Óskar stöðvaði bifreiðina, gaf öðrum merki um að stöðva og fjarlægði boltann af veginum. Aðrir ökumenn stöðvuðu strax. Rúnar Jón Hermannsson var í næsta bíl á eftir Óskari. Við hittum Rúnar við Reykjanesbrautina og ökum með honum áleiðis að slysstað. Það er augljóst að atburðir síðasta árs hvíla þungt á honum.

„Ég held að þetta sé líklega svona þriðja skipti sem ég fer þessa leið núna eftir þetta slys,“ segir Rúnar. Hann segist eiginlega alltaf fara hina leiðina út úr hverfinu, ekki vegna þess að það sé hentugra heldur vegna slyssins. „Ég sé Óskar úti í kanti“, segir Rúnar og bendir í áttina að vegriði. „Áreksturinn verður hér. Bara hérna við enda vegriðsins.“

Rúnar stöðvaði fyrir aftan bíl Óskars, setti viðvörunarljósin á og fylgdist með Óskari sækja boltann út á götuna. Jeppi með hestakerru hægði ferðina fyrir aftan en sveigði svo framhjá. Og svo kom bandarískur ferðamaður, Giovanni Gonzaga, nýlentur á Keflavíkurflugvelli.

„Þetta er bara sekúndubrot sem ég sá hann í baksýnisspeglinum koma á mikilli ferð á mig,“ segir Rúnar. „Og svo snerist bíllinn minn og ég lenti á Óskari þegar hann stóð ennþá úti á götu.“

Rúnar Jón Hermannsson (Mynd: Arnar Þórisson)

Í fyrstu virtist enginn átta sig á því hvað hefði gerst, nokkrir bílar óku hjá án þess að veita aðstoð en á augabragði dreif að lögreglumenn sem höfðu verið skammt frá. Á undan þeim komu að vegfarendur sem brugðust hárrétt við þegar þeir sáu Óskar liggjandi á götunni og blæddi honum út um eyru, nasir og munn.

„Í rauninni, ég sé bara fyrir mér bílana þegar þeir voru hérna,“ rifjar Rúnar upp. „Bíllinn hans Óskars var hérna, uppi við vegriðið. Minn sneri í hina áttina við hliðina á honum. Bíllinn hjá Gonzaga var alveg þarna,“ og bendir dágóðan spotta frá hinum bílunum. „Og svo bara allir sjúkrabílarnir og slökkviliðsbíllinn sem var hérna. Ég einhvern veginn sé þetta allt fyrir mér aftur. Og hérna yfir á bílaplaninu, hérna hinum megin, var bara allt fullt af fólki. Sem var bara að fylgjast með.“

Símtalið sem enginn vill fá

Inda Hrönn Björnsdóttir, eiginkona Óskars, hafði verið á næturvakt hjá Neyðarlínunni og steinsvaf þegar frændi hennar í lögreglunni hringdi.

Skjáskot af RUV.is

„Hann bar mér bara þessi tíðindi,“ segir Inda. „Að það hafi orðið skelfilegt slys og í því hafi verið Óskar og báðar dætur okkar. Ég sturlaðist auðvitað.“ Hún segir að hún hafi mjög fljótt gert sér grein fyrir því að alvarlegt slys hefði orðið og þegar hún settist inn í lögreglubílinn, brunaði hann af stað með sírenurnar á. Inda fékk strax að vita dætur hennar væru uppistandandi en Óskar væri í mjög krítísku ástandi og að þetta liti illa út.

Í lögregluskýrslu, sem Kveikur hefur séð, segist Gonzaga hafa ekið inn í reykský á 85 kílómetra hraða. Inda, Óskar og Rúnar eru öll sannfærð um að hann hafi ekið mun hraðar. Vitni, sem Kveikur hefur rætt við, taka í sama streng og segja engan vafa leika á að Gonzaga hafi ekið mjög hratt og gáleysislega. Þar sem málið hefur ekki verið dómtekið liggja rannsóknargögn lögreglunnar ekki fyrir og því óvíst hver raunverulegur hraði var.

Þrátt fyrir að bílarnir hafi verið í rúst, voru áverkar Gonzagas og Rúnars ótrúlega litlir og þeir voru sendir saman í sjúkrabíl á bráðadeildina.

„Ég hitti hann síðan aftur,“ segir Rúnar og heldur áfram: „bara í anddyrinu á slysadeildinni, þegar við vorum útskrifaðir báðir. Þá var hann kominn með nýjan bílaleigubíl og var bara að fara að halda áfram, eitthvert, sínu ferðalagi.“ Þegar Rúnar er spurður að því hvort Gonzaga gert sér grein fyrir atburðarásinni og afleiðingunum, svarar hann: „Ég held ekki.“

Skjáskot af Instagram síðu Giovanni Gonzaga

Af myndum sem Gonzaga birti á samfélagsmiðlum er raunar ekki að sjá að slysið hafi fengið mikið á hann, heldur hafi hann notið lífsins, meðal annars í bjórböðunum á Árskógssandi. Upphaflega stóð til að hann yrði hér í viku, til fjórða maí.

Á meðan lá Óskar milli heims og helju á sjúkrahúsi, og alls óvíst hvort hann myndi lifa af. Klukkustundir urðu dagar, sem urðu vikur.

Inda svarar játandi þegar hún er spurð að því hvort hún hafi alltaf borið von í brjósti eða hvort hún hafi einhvern tímann orðið vonlítil. „Við kvöddum hann náttúlega nokkrum sinnum.“

Óskar á spítalanum (Mynd úr einkasafni)

Engin þörf á farbanni

Lögregla áttaði sig fljótt á alvarleika málsins og brotum Gonzagas, að gáleysislegur akstur hans og afleiðingarnar væru þess eðlis að hegningarlög hefðu verið brotin. Þar sem líklegt þótti að krafist yrði fangelsisrefsingar yfir Gonzaga var farið fram á farbann í tvo mánuði, annars gæti hann reynt að komast undan málsókn eða refsingu.

Héraðsdómur féllst á þetta í byrjun maí, um hálfum mánuði eftir slysið, en taldi nóg að Gonzaga yrði á landinu fram í byrjun júní. Gonzaga og lögmaður hans sættu sig ekki við þetta og áfrýjuðu málinu til Landsréttar.

Landsréttur er ekki óumdeildur og niðurstaðan í þessu tiltekna máli er það svo sannarlega ekki heldur. Þrír dómarar tóku áfrýjunina fyrir, einn dómarinn er í þeim hópi sem deilt er um hvort skipaðir hafi verið með eðlilegum hætti. Niðurstaða Landsréttar í þessu máli var að engin þörf væri á farbanni. Þau sneru við niðurstöðu héraðsdóms. Gonzaga mátti fara.

Skjáskot af Instagram síðu Giovanni Gonzaga

Varnaraðili er erlendur ríkisborgari sem kom hingað til lands sem ferðamaður, en hefur engin tengsl við landið að öðru leyti. Í málinu liggja hins vegar fyrir upplýsingar um heimilisfang hans í heimalandinu, vinnustað, símanúmer og netfang. Hefur ekkert komið fram í málinu sem leiðir líkur að því að hann muni reyna að leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar, ef til þess kæmi.

Þá sé búið að taka skýrslu af manninum og vitnum, en þó ekki Óskari, sem lá á þessum tíma þungt haldinn á sjúkrahúsi, þar sem honum var haldið sofandi í fjórar vikur.

Þegar Landsréttur ákvað að Gonzaga mætti fara, var hvorki búið að vinna úr blóðprufum né lesa úr ökutölvu bílanna, til að komast að ökuhraða, til dæmis.

Skjáskot af Instagram síðu Giovanni Gonzaga

Þetta kom saksóknara og raunar flestum öðrum sem komu að málinu í opna skjöldu, og fer í bága við öll sambærileg mál sem Kveik er kunnugt um.

Halldóra Þorsteinsdóttir, lektor við lagadeild HR og kennara í sakamálaréttarfari, tekur undir það: „Áður var litið svo á, í flestum úrskurðum Hæstaréttar og Landsréttar, að það dugi að um sé að ræða útlending. Það er einfaldlega sagt: Viðkomandi er útlendingur, hann er frá þessu landi og ríkisborgari þar. Hann hefur engin tengsl við Ísland og þar með eru uppfyllt þessi skilyrði. Í þessum úrskurði fer Landsréttur í raun og veru í meira mat, huglægt mat. Og segir að það þurfi að liggja fyrir einhver gögn sem bendi til þess að viðkomandi fari og það dugi ekki til að hann hafi engin tengsl við land og þjóð.“

Halldóra Þorsteinsdóttir, lektor við lagadeild HR og kennara í sakamálaréttarfari (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Halldóra segir að framkvæmdin til þessa hafi verið sú, að ekki þurfi mikið til að koma svo að farbanni sé beitt. „Þá bara einfaldlega með vísan til þess að viðkomandi hafi engin tengsl við Ísland. Og þegar af þeirri ástæðu megi ætla að hann reyni að koma sér undan eða fari til síns heima. Og það reynist þá okkur Íslendingunum erfiðara að koma höndum yfir viðkomandi og þá háttsemi sem hann er sakaður um.“

Viðmælendur Kveiks, sem þekkja til þessa máls, segja að Landsrétti hafi orðið á í messunni. Skilaboðin séu þau, að gefi útlendingar sem sakaðir séu um brot upp heimilisfang, tölvupóstfang og símanúmer, sé farbann óþarft. Halldóra segir hins vegar ekki með öllu hægt að útiloka að einhver rök liggi að baki ákvörðuninni, þau komi þó ekki fram í úrskurðinum.

Hún segist alveg hefði viljað sjá farbanni beitt. „Ef maður horfir bara á fyrri framkvæmd.“

Og framkvæmdin í kjölfarið bendir til þess að meira að segja aðrir dómarar í Landsrétti telji þetta tilvik ekki fordæmisgefandi.

Lifir eins og ekkert hafi í skorist

Gonzaga fór úr landi, heim til San Jose í Kaliforníu. Miðað við virkni á samfélagsmiðlum lifir hann þar lífinu og þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að íslensk réttvísi hafi uppi á honum, því bandarísk stjórnvöld framselja þarlenda borgara aldrei til annarra ríkja. Gonzaga mun því hvorki sitja af sér dóm né greiða miskabætur nema hann ákveði sjálfur að koma til Íslands og horfast í augu við afleiðingar slyssins sem hann olli.

Skjáskot af Instagram síðu Giovanni Gonzaga

Óskar Kemp og fjölskylda hafa hins vegar ekkert slíkt val.

„Óskar er með óvirkan heiladingul“ segir Inda. Hún segir að það sé engin starfsemi í heiladingli eftir höfuðhöggið og að það sé svolítið flókið. „Hann framleiðir engin hormón. Svo að allri líkamsstarfsemi er haldið gangandi á lyfjum.“ Brösulega hafi gengið að eiga við það og miklar sveiflur á framganginum. „Við höfum verið svolítið á slysavarðstofunni og svolítið á A2. Búin að vera á flestum deildum Landspítalans. En hann er búinn að vera heima núna í átján daga, samfleytt.“

Óskar höfuðkúpubrotnaði og vegna þrýstings varð að opna höfuðkúpuna við bæði heilahvel, til að létta á blæðingu við heilann. Rifbein brotnuðu, það blæddi í brjóstholi og lungnavef, í lifur og hægra nýra. Sjónin á öðru auga er takmörkuð. Vanstarfsemi í heiladingli í kjölfar slyssins hefur leitt til persónuleikabreytinga og hefur óteljandi sinnum þurft að leggjast inn á sjúkrahús á ný. Að segja að Óskar sé annar maður í dag en fyrir ári, er því vægt til orða tekið.

Óskar (Mynd úr einkasafni)

„Það var bara hálfur Óskar fyrst,“ segir Þóra Kemp, systir Óskars, sem hefur stutt hann dyggilega. „Þegar maður hugsaði bara: „Er hann þarna?“ Og við vissum ekki neitt. Við vissum ekkert hvers konar maður var að koma til baka.“

„Hann þekkti ekki börnin sín, hann þekkti okkur ekki og hélt því statt og stöðugt fram, að hann ætti bara fjögur börn“ segir Inda. „Þá mundi hann ekki eftir yngstu dóttur okkar. Kannaðist ekki einu sinni við hana. Sagði alltaf við okkur: „Hvaða strákur er þetta?“ þegar hún var að koma á spítalann.“

Þau hlæja þegar þau rifja þetta upp en þau eru þreytt eftir átök ársins. Þóra líkir árinu við að vera endalaust í fallturni í leiktækjagarði. Það taki á og verði að lokum nokkuð þreytandi. En það sé ekki um neitt annað að ræða en að halda áfram. Óskar sé hins vegar breyttur, í raun alveg nýr Óskar. „En ég er ekkert að segja að hann sér verri heldur en sá sem var fyrir,“ segir Þóra.

Óskar (t.v.) og Þóra Kemp systir hans (Mynd: Arnar Þórisson)

Óskar prísar sig sælan að muna hins vegar ekkert eftir sjálfu slysinu. Það gerir Rúnar, sem var í hinum bílnum, hins vegar.

„Ég er eiginlega búinn að loka rosa mikið á þetta, síðan þetta gerðist,“ segir Rúnar. Svipbrigðin og líkamstjáningin bera með sér hversu erfitt það er fyrir hann að vera á vettvangi slyssins og ræða það. „Það er í rauninni ekki fyrr en núna, þegar málið er loksins að fara fyrir dóm og þess háttar, sem ég er farinn að þurfa að glíma við þetta.“ Hann hitti Óskar og Indu í desember. „Það var rosalega gott. En á sama tíma bara mjög erfitt, að sjá hvað þau hafa þurft að ganga í gegnum.“

Fórnarlömb slysa sitja oft uppi með sektarkennd og samviskubit. Spyr Rúnar sig, „hvað ef…?“ „Alveg klárlega já. Ég held ég hafi spilað þetta atvik svona milljón sinnum í hausnum á mér. Hvort ég hefði átt að gera eitthvað öðruvísi. En ég gerði það eiginlega mjög fljótt upp við mig, að það var ekkert sem ég gerði rangt. Ég stoppaði. Ég setti hazard-ljósin á. Það er óbrotin lína þarna, svo ég hefði ekki mátt fara fram úr honum. Þannig að, já. Ég held ég hafi gert allt rétt, alla vega.“

Óskari var haldið sofandi vikum saman og hann man ekkert eftir sjúkrahúsvistinni. Fyrsta minningin er frá brúðkaupi bróður hans, sem var í september, nærri fimm mánuðum eftir slysið. Hann er í endurhæfingu á Grensásdeildinni en segist ennþá eiga langt í land með að ná nokkru í líkingu við fyrri getu.

Óskar Aðils Kemp (Mynd: Arnar Þórisson)

„Eins og þegar við fluttum inn á þetta heimili, þá fannst mér vera hlutir sem ég hafði alveg getað gert. En ég var ekki beðinn um að gera. Og já, mér leiðist oft, því mér finnst ég vera bara allt annar heldur en ég var. Bara hlutir sem ég veit að ég get gert, eða finnst ég geta gert, er ég ekki að gera. Ég er búinn að gráta bara á þessum tíma, þessu ári, bara óendanlega mikið, bara endalaust. Aldrei grátið svona mikið. Það er allt svo erfitt. Hvernig manni líður og hvað þarf að gera.“

Miskabætur

Óskar og fjölskylda hans, og Rúnar hafa gert kröfu á Gonzaga um miskabætur, samtals upp á fimmtán milljónir króna. En Gonzaga er hvergi að finna, svo tæpast greiðir hann neinar bætur. Óvíst er hvað Sjóvá, sem tryggði bílaleigubílinn, greiðir, eða hvort hægt verður að sækja í bótasjóð þolenda afbrota. En það eru ekki peningarnir sem valda Indu og Óskari hugarangri, heldur sá dráttur sem hefur orðið á málinu. Það átti að taka það fyrir í janúar en þá birtist Gonzaga ekki. Eftir ítrekaða frestun var ákæran birt í Lögbirtingarblaðinu og nú verður málið tekið fyrir í lok apríl, hvort sem Gonzaga mætir eður ei.

„Ég er ekki heilög hérna“ segir Inda. „En málið er að ég hef ekki verið eitthvað stjórnlaus úr reiði.“ Hún segir að kannski undanfarið, eftir að málinu var ítrekað frestað, hafi hún áttað sig á afleiðingum þess að Gonzaga var leystur úr farbanni. „En ég er kannski ekkert reið út í hann, eins og Þóra segir. Mér finnst bara undarlegt að hann hafi verið leystur úr farbanni af því að það er ógeðslega mikið vesen fyrir okkur“ segir Inda. „Það er ekkert vesen fyrir okkur, að öðru leyti en því að þetta er hangandi yfir okkur. Ekki hægt að klára málin.“

Óskar (t.v.) og Rúnar (Mynd úr einkasafni)

„Ég myndi spyrja hann hvort hann hefði verið í símanum undir stýri,“ segir Rúnar. „Mér fannst það rosalega líklegt. Hann eiginlega bara hlýtur að hafa verið að gera eitthvað annað en að horfa á veginn. Miðað við hraðann sem hann var á og að það voru engin bremsuför eða neitt. Já, ef hann hefði verið með athyglina á veginum þá hefði ekki farið svona, held ég,“ bætir hann við.

Gonzaga sjálfur, hefur hann eitthvað um málið að segja? Við reyndum að hafa upp á honum. Í nokkur skipti fóru blaðamenn að heimili hans og fjölskyldu hans. Þegar einhver var heima, var því svarað til að Gonzaga væri þar ekki. Hann sjálfur hefur ekki svarað símtölum eða tölvupóstum. Símtölum í númer, sem skráð eru á fjölskyldu hans, hefur heldur ekki verið svarað. Það virðist sem Gonzaga geri sitt ítrasta til að láta ekki í sig ná.

Þakklæti efst í huga, þrátt fyrir aðstæður

Málið verður samt tekið fyrir í apríllok og fjarvera Gonzaga verður, samkvæmt ákærunni, túlkuð sem svo að hann viðurkenni að hafa framið brotið og að dómur verður felldur að honum fjarverandi.

Hvernig sem fer í apríllok, er ljóst að líf Óskars, Indu, barnanna þeirra og raunar líf risastórs hóps fólks, ættingja og vina, er annað en það var.

Ég hef svo oft sagt,“ segir Inda. „Að þessi óvissa þarna kortér, tuttugu mínútur, þegar ég vissi mjög lítið annað en að eitthvert hræðilegt slys hefði orðið, ég get alveg lært að lifa með þessu, en jafna ég mig einhvern tímann? Veistu, ég veit það ekki.“

Bæði Inda og Óskar segjast finna fyrir miklu þakklæti, þrátt fyrir aðstæðurnar. Þau eru þakklát þeim sem hafa stutt þau í gegnum erfitt ár, nákomnum og starfsfólki Landspítalans.

Óskar, Inda og hluti af börnum þeirra (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Já, ég er mjög þakklátur fyrir hjálpina,“ segir Óskar. „Búinn að fá hjálp frá mjög mörgum úr báðum fjölskyldunum og vinum og vinnufélögum, og þeim sem eru nánir manni. Mig langar að fara að vinna aftur, og fá bílprófið mitt aftur. Og gera það sem ég get til að þakka fyrir mig.“