*

Aukinn hiti í baráttunni um pólinn

Aukinn hiti hefur færst í aðgerðir stórveldanna sem vilja seilast til áhrifa á norðurslóðum. Heimskautasilkileið Kínverja er dæmi um það. Í því felast tækifæri en líka ógnir fyrir okkur á Íslandi.

Það hefur að líkindum aldrei verið jafn augljóst að hafísinn við Norðurpólinn bráðnar hratt. Það er ógn við náttúruna og líf fólks um allan heim, en felur líka í sér tækifæri, því undir ísnum eru auðæfi sem margir girnast. Þar opnast líka mikilvægar siglingaleiðir.

Rússar fyrstir til með fánastöng á hafsbotni

Það vakti athygli, eða kannski aðallega hlátur, þegar rússneskur kafbátur kom fyrir málmfána á hafsbotni á Norðurpólnum árið 2007. Rússar voru líklega á undan öðrum að átta sig á því sem nú er ljóst, og því óvíst hvort flöggunin uppskæri hlátur í dag: Bráðnun norðurskautsins breytir öllu.

Það er mjög misjafnt hversu vakandi hin ýmsu þjóðríki eru fyrir þessu. Á Vesturlöndum hefur hálfgerður sofandaháttur verið áberandi. Þótt Rússar hafi plantað flaggi á hafsbotni, eru það merkilegt nokk Kínverjar sem hafa verið mest áberandi á þessu sviði undanfarið.

Kína: Stórveldi á norðurslóðum

Árið 2012 urðu kaflaskipti í kínverskum stjórnmálum. Xi Jinping tók við sem forseti og hefur síðan stóraukið eigin völd. Hann vill aukin ríkisumsvif í efnahagslífinu, vill vera ákveðinn og valdamikill leiðtogi ríkis sem þorir að beita sér á alþjóðavettvangi, sýna styrk sinn og stærð.

Aðgerðir og hugmyndir sem eru þvert á þá stefnu ríkti í Kína áratugum saman og í algjörri andstöðu við það sem kínverskir ráðamenn predikuðu, að halda sig frekar til hlés og rugga ekki bátnum.

Tveimur árum eftir að Xi komst til valda lýsti hann því yfir að Kína ætlaði sér að verða stórveldi á norðurslóðum - sem sumum gæti þótt skondið í ljósi þess að Kína er alls ekki á norðurslóðum.

Kínversk norðurslóðastefna fangaði athygli fólks

Nyrsti hluti Kína er um fimmtán hundruð kílómetra frá norðurheimskautsbaug, til dæmis. Miðað við þann mælikvarða er Berlín á norðurslóðum. Það stöðvar ekki Kínverja, sem kynntu fyrir einu og hálfu ári norðurslóðastefnu sína – nokkuð sem vakti athygli og jafnvel ugg.

„Kínverskir norðurslóðaembættismenn hefðu líklega undrast sum viðbrögðin við því. Til dæmis urðu bandarísk stjórnvöld eilítið áhyggjufull þegar þau heyrðu Silkiveg norðurslóða nefndan á nafn, en hugtakið Silkivegur norðurslóða hefur verið notað í um fjögur ár í Kína,“ segir Anne-Marie Brady sérfræðingur í málefnum Kína og norðurslóða.

Sumum þykja Kínverjar seilast fulllangt með norðurslóðametnaði sínum – jafnvel svo að þeim þykir sér ógnað. En hvers vegna fer þetta svona illa í menn? Til þess að skilja það þarf að setja norðurslóðastefnuna í samhengi.

Belti og braut og Heimskautasilkileiðin

Þessi aukni kínverski metnaður, ef það er rétta orðið, kemur meðal annars fram í áætlun sem Xi ýtti úr vör 2013, og er kölluð „Belti og braut.“ Áætlunin gengur út á aukna samvinnu, fjármögnun og uppbyggingu innviða víðs vegar um heim. Einkum þó að víkka samgönguæðarnar frá Kína til helstu markaðssvæða: Asíu, Afríku og Suður-Ameríku til þessa, en aukinn þungi hefur færst í að sannfæra Evrópuríki um þátttöku í Belti og braut.

Nafnið er vísun í meginverkefnið: Samgönguæðar frá Kína. Landleiðina eða „beltið,“ mestmegnis járnbraut, og svo „brautina“ sem er siglingaleiðin. Vegir, hafnir og flugvellir eru meðal verkefna á leiðinni. Nýjasta viðbótin, Heimskautasilkileiðin eins og Kínverjar nefna hana, verður að lokum þriðja leiðin, meðfram ströndum Rússlands í átt að Evrópu.  

Í það minnsta 68 þjóðríki eiga nú í samstarfi við Kínverja í gegnum Belti og braut, með samtals um 40 prósenta þjóðarframleiðslu á heimsvísu. Fjórir komma fjórir milljarðar búa í þessum löndum eða 65 prósent mannkyns. Þetta er sem sagt risaáætlun.

Ná hreðjataki með „mjúku valdi“

Í boði eru lán til uppbyggingar innviða úti um allan heim. Það sem hangir á spýtunni er að kínversk ríkisfyrirtæki hafa fengið mörg verkefnanna án útboðs og jafnvel án eftirlits. Með þessu eru þátttökulöndin bundin Kína bæði efnahagslegum og pólitískum böndum, sem er í mörgum tilvikum líka langstærsta viðskiptaríkið.

Því er oft haldið fram að ríkin sem taka þátt í Belti og braut séu því í raun ofurseld kínversku valdi og eigi að hlýða fyrirmælum frá Peking. Kínverjar hafi því með „mjúku valdi“ náð hreðjataki á þessum löndum. Dæmi eru um ríki sem fengið hafa lán frá Kína, sem morgunljóst er að þau geti ekki staðið undir. Í þeim tilvikum hefur lánveitandinn stundum nánast tekið verkefnið – eða heilu landsvæðin – í pant.  

„Mikið hefur verið rætt um tvíhliða samvinnu Kínverja og hvort þess háttar slagsíða þrengi að öðrum þjóðum. Við heyrum af slíkri umræðu í löndum við Indlandshaf eins og Díjbútí og Shri Lanka,“ segir Marc Lateigne, fræðimaður við Heimskautaháskólann í Tromsö og sérfræðingur í málefnum Kína.

Siglingarleiðin um Norðurheimskautið undir

Norðurslóðastefnan er samt sem áður rökrétt framhald stefnunnar um Belti og braut – því það er ekki síst siglingarleiðin um Norðurheimskautið sem Kínverjar vilja tryggja sér.

„Kínverjar hafa ekki farið í felur með áhuga sinn á siglingaleiðum um norðurhöfin og mögulega um aðra hluta Norðuríshafsins, fyrir hraðari siglingar. Það er alveg augljóst; möguleikinn á öflugri fragtflutningum milli Kína og Erópu, þar sem stytta má leiðina um hálfan mánuð, heillar mjög mörg kínversk fyrirtæki. Eins og samskiptin milli Kína og Bandaríkjanna eru nú þá má búast við langvinnu viðskiptastríði þjóðanna,“ segir Lateigne.  

Norðursiglingaleiðin liggur frá Barentshafi, nærri landamærum Noregs og Rússlands, austur að Bering-sundi milli Síberíu og Alaska. Kínverska ríkisskipafélagið hefur ítrekað sent skip í tilraunasiglingar á þessar slóðir – en ekki nógu oft, að mati Gao Feng, sendiherra Kína í málefnum Norðurheimskautsins.

„Frá árinu 2013 hafa skipafélögin silgt skipum sínum fram og til baka og farið norðurleiðina, Silkiveg norðurslóða allnokkrum sinnum. Ekki samt eins oft, eins og ég sagði í dag; á fimm árum hafa aðeins 22 skip farið Silkiveg norðurslóða. Ekki ýkja mörg og fjarri persónulegum væntingum mínum,“ segir sendiherrann.

Opnist leiðin fyrir almennar siglingar, einkum fraktflutninga, verður það á við þegar Súes-skurðurinn var opnaður. Kínversk skip þyrftu til dæmis ekki að fara um Malakka-sund á milli Malasíu-skaga og Súmötru í Indónesíu, meginflutningaleiðina á milli Kyrrahafs og Indlandshafs.

Þar hefur spennan magnast undanfarið, ekki síst vegna harðari stefnu Xi, sem þolir enga andspyrnu, eins og sést til dæmis í Hong Kong.

Kínverjar hafa þá hrifsað til sín yfirráðin yfir Suður-Kínahafi, meðal annars tekið sandrif og byggt upp gervieyjar með herstöðvum. Nýlegar, sameiginlegar heræfingar Kína og Rússlands ollu usla í Suður-Kóreu og eru meðal annars taldar ætlaðar til að storka vesturveldunum með Bandaríkin fremst í flokki – og ekki þarf að fjölyrða um viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína sem tekur í vaxandi mæli á sig mynd kalds stríðs.  

Bandalag Rússlands og Kína

Það má kalla þetta nýtilkomna bandalag Rússa og Kínverja óhefðbundið hjónaband. Rússum hefur um langt árabil staðið stuggur af Kínverjum. En í kjölfar innrásar Rússa á Krímskaga lokuðust dyr til vesturs – og þar með möguleikar Rússa til að nálgast þar fjármagn.

„Rússar hafa sóst eftir að þróa Austur-Síberíu í áraraðir og væntingar voru um það að Rússar gætu komið á alþjóðlegri samvinnu við að byggja upp grunnstoðir eins og hafnir og samgöngur. Frá árinu 2014 hefur það ekki gengið vegna viðskiptaþvingana Vesturveldanna. Nú eru Kínverjarnir atkvæðamestir í fjárfestingum í Síberíu,“ segir Marc Lateigne, fræðimaður við háskólann í Tromsö.

Og þeir Xi Jinping og Vladímír Pútín hittast orðið reglulega á afar vinsamlegum fundum. Í vor færði Xi Rússum tvær pöndur fyrir dýragarðinn í Moskvu. Forsetarnir sigldu svo saman niður ána Nevu í Pétursborg. Viku síðar færði Pútín Xi rússneskan rjómaís á fundi í Tadsíkistan, og í millitíðinni horfðu þeir saman á íshokkíleik í Tianjin í Kína.

„Á undanförnum sex árum höfum við hist næstum þrjátíu sinnum. Rússar eru sú þjóð sem ég heimsæki mest og Pútín forseti einn minn nánasti vinur og kollegi“ segir Xi Jinping, forseti Kína.

Góðir vinir, en ekki jafningjar. Því er ekki að neita að í Moskvu hafa ófáir áhyggjur af því að Rússland verði háð kínverskri velvild til frambúðar. Sameiginlegur óvinur, Bandaríkin, og tímabundnir sameiginlegir hagsmunir, eru breiddir yfir allt slíkt.

Taugatitringur Bandaríkjamanna

En þýðir þetta bandalag möguleika eða jafnvel líkur á stórveldaspennu á norðurslóðum? Af orðræðu í Washington má í það minnsta ráða að þar hafi menn áhyggjur af þessu.

Ein þeirra er Heather Conley, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í stjórnartíð Baracks Obama og núverandi sérfræðingur í málefnum Norðurheimskautsins hjá hugveitunni Center for Strategic and International Studies í Washington.

„Við tökum nú á nýjan hátt til skoðunar stefnu Bandaríkjanna á norðurskautinu; það hófst í raun með nýrri stefnumótun á þessu ári í öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar þar sem kveðið er á um að Rússar og Kínverjar séu helstu hernaðarlegu keppinautar Bandaríkjanna. Að nú aftur bítist stórveldin um ítök og auðvitað eiga Rússar og Kínverjar hagsmuna að gæta á norðurskautinu; Kínverjar sem og Rússar efnahagslegra hagsmuna og Rússar hernaðarlegra,“ segir Heather Conley.

Í sumar skilaði varnarmálaráðuneytið vestra skýrslu til þingsins um varnir á norðurslóðum. Þar var lögð áhersla á uppbyggingu herafla og varna við heimskautið. Hersveitirnar yrðu að vera liprar, reiðubúnar og banvænar. Einkum væru það Rússar og Kínverjar sem væru ógnin og vildu sölsa undir sig auðlindir og siglingaleiðir. Á meðal þess sem tiltekið er í skýrslunni, er aukin viðvera í Keflavík, kafbátaleit og loftrýmiseftirlit.

Þessi afstaða fór ekki framhjá neinum í örheimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands í haust. Á átta klukkustundum kom hann aftur og aftur og aftur að Rússlandi og Kína. Skilaboðin voru afgerandi, svo ekki sé meira sagt.

„Það leikur enginn vafi á því að Kínverjar auka umsvif sín á norðurskautinu. Bæði efnahagslega sem og strategískt. Athafnir Rússa á norðurskautinu hafa staðið í áratugi en umsvif þeirra aukast nú. Svo að nú er tími til að efla og treysta samvinnu okkar í öryggismálum og hafna Belti og braut frumkvæðinu eins og Íslendingar hafa nýverið gert,“ sagði varaforsetinn.

Nokkru fyrr, á fundi Norðurheimskautsráðsins í Finnlandi sendi nafni hans, Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Kínverjum tóninn: „Víkjum aðeins talinu að Kína. Kínverjar eru með áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu en sú staða veltur á því að þeir virði sjálfræði þjóðanna á norðurhveli. Það eru aðeins þjóðir á norðurskauti og svo þjóðir utan norðurskautsins; enginn þriðji flokkur er til og að halda öðru fram færir færir Kínverjum ekki nokkurn skapaðan hlut.“

Rick Perry, ráðherra orkumála í Bandaríkjastjórn gaf til kynna, þegar hann ávarpaði þing Hringborðs norðurslóða fyrir skömmu, að náttúruauðlindir væru ráðamönnum vestra efst í huga.

„Hver svo sem mælikvarðinn er þá er á norðurhvelinu gnótt ótrúlegra efnahagslegra tækifæra sem og tækifæri til orkuvinnslu. Ég tel að okkur verði vel ágengt að standa gegn þeim þjóðum sem reyna að ná yfirráðum yfir norðurslóðum utan frá. Þjóðir sem deila ekki lýðræðislegum gildum okkar eða njóta sams orðspors og við í umhverfisvernd,“ sagði orkumálaráðherrann.

Þetta hljómar nánast eins og kalt stríð, stórveldaspenna af gamla skólanum. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, sem er með fróðari Íslendingum þegar málefni norðurheimskautsins eru rædd, segir þó að svo slæmt sé þetta ekki - eða ekki ennþá, í það minnsta.

„Þau eru meira að koma sér upp stöðu. Ef þú líkir því við manntafl, þá eru þeir kannski að raða upp mönnunum. En þeir eru ekki byrjaðir að tefla. Það var að sjálfsögðu fyrirsjáanlegt að það myndi gerast. Hitt er svo rétt, að það blása nýir vindar um norðurslóðir. Ég kýs að kalla það það,“ segir fyrrverandi forseti Íslands.

Litríkar yfirlýsingar bandarískra ráðamanna beri að skilja í þessu samhengi. „Það gerir það að verkum að ríki eins og Kínverjar, eins og reyndar fleiri ríki í Asíu, Evrópuríkin, spyrja sig þá „Hver verður þá okkar hlutdeild? Svo við sjáum þessa öflugu aðila: Bandaríkin, Rússland, Kína, Kóreu, Japan, Frakkland, Þýskaland, Evrópusambandið, vera að koma sér upp stöðu í okkar næsta nágrenni.“

„Það hefur aldrei gerst fyrr, hvorki í sögu Íslands eða í sögu Norðurlanda. Ég hef sagt við fulltrúa Norðurlanda: Þetta skapar ekki bara vandamál og viðfangsefni fyrir okkur Íslendinga. Þetta skapar líka vandamál fyrir Norðurlöndin vegna þess að saman myndum við meirihluta í Norðurskautsráðinu. Hvert þetta þróast, það veit enginn,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson.

Kínverjar veifa veskinu

Kínverjar hafa ekki tekið ávirðingum Bandaríkjamanna og áherslum sérlega vel og hafna ekki síst öllu tali um að hernaðarhagsmunir ráði för, jafnvel þótt skýrslur kínverskra stofnana og framferði Kínverja bendi til annars. Mörg verkefni vekja grunsemdir um tvíþættan tilgang – verkefni á gráa svæðinu, eins og viðmælendur Kveiks kölluðu það.

Á Sri Lanka er að finna dæmi um margt af því sem gagnrýnt er við framferði Kínverja. Í stuttu máli vildu stjórnmálamenn þar byggja risahöfn og flugvöll í heimakjördæmi sínu, þrátt fyrir að úttektir sýndu greinilega að engin efnahagsleg forsenda væri fyrir því. Samkvæmt því sem rannsókn New York Times leiddi í ljós, voru Kínverjar fúsir til að lána fyrir framkvæmdunum, gegn því að kínversk fyrirtæki sæju um það og stjórnvöld á Sri Lanka deildu viðkvæmum upplýsingum með ráðamönnum í Peking.

„Fyrirtækið sem sér um framkvæmdirnar á höfninni í Hambantota er í eigu kínverskra stjórnvalda. Það þýðir að slæm stjórnsýsla þessa fyrirtækis verður ekki svo auðveldlega lögsótt eftir hefðbundnum leiðum,“ segir Nishan de Mel, yfirmaður Verite Research hugveitunnar í Colombo.

Áratug eftir að höfnin var opnuð er skipaumferð nánast engin og flughöfnin tóm, en uppbyggingin heldur áfram með frekari lánum á verri kjörum og nú er svo komið að Kínverjar eru með 99 ára einkaleigusamning. Kínverskir kafbátar hafa komið þar í höfn, þrátt fyrir skilyrði um annað. Gagnrýnendur segja þetta dæmi um fjárfestingaverkefni sem reynist eitthvað allt annað.

Segjast sjá fyrir sér samvinnu

Þetta er það sem Bandaríkjamenn og fleiri gagnrýnendur hafa áhyggjur af. Kínverjar segjast hins vegar sjá fyrir sér samvinnu um siglingaleiðina um Norðurheimskautið, en jafnframt verði unnið að olíu- og gasvinnslu, jarðmálmaleit, fiskveiðum og ferðamennsku.

„Kínversk stjórnvöld hafa hvatt til marglaga þátttöku frá öllum þáttum kínversks samfélags sem mögulega láta sig varða málefni norðurslóða og Suðurskautsins. Umræðan um norðurslóðir hefur því eflst, ferðamennska til norðurslóða, hvatning til fjárfestinga og svo framtak kínverska ríkisins við að leita uppi tækifæri á norðurslóðum,“ segir Anne-Marie Brady, sérfræðingur í málefnum Kína og norðurslóða.

Aukin umsvif Kína hér á landi?

Í erlendri umfjöllun er oft vísað til umfangsmikillar fjárfestingar Kínverja á Íslandi. Hér séu þeir bæði að kaupa sér aðgengi og áhrif. Á Íslandi séu meira að segja rannsóknarstöðvar sem mætti nota í hernaðartilgangi. Flestar þessara fullyrðinga virðist mega rekja til Washington. Við sendum stjórnvöldum þar spurningar um hvað þau ættu eiginlega við. Engin svör bárust.

Þarna virðist vísað til norðurljósarannsóknarstöðvar Kínverja við Kárhól í Reykjadal annars vegar, og hins vegar til hugmynda Huangs Nubo um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum fyrir nokkrum árum. Glöggir muna að þau áform urðu að engu og fyrir nokkrum mánuðum var fyrirtæki hans hér heima úrskurðað gjaldþrota.  

Rannsóknir fræðimanna við Háskóla Íslands á undanförnum árum hafa sýnt fram á að kínversk fjárfesting á Íslandi er frekar lítil og að hún sé fyrst og fremst á efnahagslegum forsendum.

Ísland fyrst til að gera fríverslunarsamning við Kína

Því má þó ekki gleyma að Ísland gerði fríverslunarsamning við Kína, fyrst Evrópuríkja, og á líklega í meiri samskiptum við Kína en flest önnur ríki sem við berum okkur saman við, hvort sem er á menningarsviðinu eða til að mynda í fjölmörgum verkefnum sem snúast um jarðvarma.

„Kínverjar hafa nú átt í fríverslun við Íslendinga í allnokkur ár. Kínverjar vilja að þeir séu álitnir ekki aðeins mikilvægur samstarfsfélagi heldur einnig ómissandi. Að eigi að leggja út í stór verkefni á norðurslóðum og þau kláruð þá skuli Kínverjar hafðir með í ráðum. Hingað til hefur það gengið vel. Mörg samstarfsverkefni, meðal annars, við Íslendinga eru býsna öflug núorðið,“ segir Marc Lateigne, fræðimaður við háskólann í Tromsö.

Það mætti halda að Ísland væri of lítið, fámennt og hefði of litla efnahagslega vigt til þess að skipta máli fyrir Kína. En viðmælendur Kveiks eru allir sammála um að svo sé ekki.

„Tímasetningin var hárrétt því þegar Kínverjar sýndu áhuga, eða fengu aukinn áhuga á norðurslóðum, var tímasetningin einnig rétt fyrir Íslendinga og Íslendingar hafa því verið vinaþjóð Kína,“ segir Anne-Marie Brady.

Ein hugmyndin er um risahöfn, til að umraða varningi frá Kína á leiðinni áfram til Evrópu og Bandaríkjanna. Ísland kæmi greina sem hafnarstæði, til dæmis Finnafjörður, en líka Kirkenes í Noregi og Múrmansk í Rússlandi. „Ég tel að það gætu falist í þessu tækifæri fyrir Íslendinga en einnig gæti margt farið illa, einkum ef þið vitið ekki hvað þið eruð að fara út í,“ segir Brady.

Geo Feng segir að vissulega sé áhugi meðal kínverskra ráðamanna á að koma að og fjármagna verkefni á Íslandi. Frumkvæðið verði að koma frá Íslendingum, og allt komi til greina. „Allt er mögulegt. Fiskveiðar, orkuframleiðsla, hvað sem vera skal. Svo að í öllu felast tækifæri. Meðan tækifærin eru til staðar þá er það allt að jöfnu,“ segir sendiherrann.

Búa sig undir að vera forysturíki í viðskiptum heimsins

„Þeir eru að búa sig undir það, að á 21. öldinni verði Kína forysturíki í viðskiptum heimsins. Þá vilja þeir hafa trausta innviði. Járnbrautir, hafnir, vegi. En líka varðandi nýja tækni, nettækni, upplýsingatækni, og  hreina tækni. Belti og braut er bara hluti af þeirri umræðu og það er mikilvægt að nálgast það hleypudómalaust. Ég hef sagt upp á síðkastið við vini mína hér á Íslandi: eigum við ekki að skoða Lúxemborg. Því ekkert ríki er kannski jafnmikið tengt og háð því að vera í NATO og Evrópusambandinu en þetta litla ríki, Lúxemborg. Það er núna orðið formlegur aðili að Belti og braut,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.

Viðmælendur Kveiks segja Kínverja hafa ítrekað varpað margs konar hugmyndum fram við íslensk stjórnvöld og fyrirtæki. Hins vegar hafa íslensk stjórnvöld hingað til ekki viljað taka þátt í Belti og braut. Stórt land bankar upp á – hvað þarf til að bregðast við því?

Virðing veigamikill þáttur

„Ég tel að Íslendingar sem og aðrar þjóðir á norðurhvelinu þurfi að uppfæra þekkingu sína á Kína. Það besta sem íslensk stjórnvöld gætu gert væri á forsendum Íslendinga að efla kennslu í kínversku og kannski við háskólana, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri að verja fé í sérfræðiþekkingu á kínverskum stjórnmálum.“

Þetta segir Anne-Marie Brady, og bætir við: „Á þann hátt þurfa Íslendingar að koma sér upp krítískri þekkingu og getu til að greina hvað er um að vera, og meta fyrir sjálfa sig tækifærin, sem og áhættuna. Það ætti að vera í forgangi fyrir Íslendinga.“  

„Þekking okkar á Kína, og reyndar þekking þeirra á okkur líka, er ekki mjög burðug. Ég legg áherslu á það að þetta er ekki bara spurning um þekkingu á Kína, þekka er líka spurning um þekkingu á Japan, þekkingu á Kóreu. Vegna þess að verðandi norðurslóðir eru öll þessi þrjú ríki Asíu að gera sig gildandi. Meira að segja þau eru farin að vinna saman varðandi norðurslóðir. Utanríkisráðuneyti þessara þriggja Asíuríkja eru með reglulegt samráð sín á milli um norðurslóðir,“ segir Ólafur Ragnar.

„Þetta er ekki bara Kína. Þess vegna þurfum við að auka skilning okkar á Asíu. Við þurfum að efla þekkingu okkar á þessum þjóðum. Við þurfum að læra tungumál þeirra. En umfram allt að skilja, að virðing er veigamikill þáttur í menningu þessara þjóða. Við þurfum þess vegna að umgangast þá af skilningi og virðingu, en ekki af ótta eða tortryggni, þó að við að sjálfsögðu spyrjum okkur alltaf hver er tilgangurinn þegar öflug ríki vilja koma á okkar heimaslóðir.“

Á örskömmum tíma, rétt rúmu ári, hefur staðan breyst talsvert. Rússar og Kínverjar eru allt í einu vinir, bandamenn jafnvel, þótt bandalagið sé fremur hæpið. Kínverjar ætla að verða stórveldi á norðurslóðum. Hefðbundnum bandamönnum okkar Íslendinga, Bandaríkjamönnum, líkar það alls ekki. Þar að auki hefur töluvert breyst þar í landi á skömmum tíma. Á milli er Ísland sem þarf núna að afla sér skilnings og kunnáttu til að vinna úr þessari breyttu stöðu, með þeim ógnum og tækifærum sem fylgja.