Verk­efnum út­vi­stað til lög­manns­stofu í eigu for­stöðu­manns hjá Inn­heimtu­stofnun sveitar­fé­laga

Forstjóri Innheimtustofnunar sveitarfélaga samdi við lögmannsstofu í eigu forstöðumanns skrifstofu stofnunarinnar á Ísafirði um að taka að sér innheimtuverkefni fyrir stofnunina. Þeir voru báðir sendir í leyfi í gær.

Verk­efnum út­vi­stað til lög­manns­stofu í eigu for­stöðu­manns hjá Inn­heimtu­stofnun sveitar­fé­laga

Innheimtustofnun sveitarfélaga sér um að innheimta meðlag í landinu og er með skrifstofur í Reykjavík og á Ísafirði. Samkvæmt nýjasta ársreikningi stofnunarinnar voru á árinu 2020 innheimtar meðlagskröfur á einstaklinga upp á tæplega 3,4 milljarða króna.

Kveikur hefur undanfarnar vikur skoðað málefni stofnunarinnar og hafði upplýsingar um að fyrirtæki í eigu Braga Axelssonar, forstöðumannsins á Ísafirði, hefði séð um afmörkuð innheimtuverkefni fyrir Innheimtustofnunina.

Ákveðið var að óska eftir afriti af öllum verktakasamningum sem stofnunin hefði gert. Forstjórinn, Jón Ingvar Pálsson, staðfesti við Kveik fyrir helgi að gerður hefði verið samningur við ísfirska lögmannsstofu Braga, Officio ehf., um afmarkaða löginnheimtu.

Forstjórinn vildi hins vegar ekki afhenda samninginn og vísaði til trúnaðar og viðskiptasjónarmiða. Kveikur óskaði eftir að sú ákvörðun yrði endurskoðuð og fékk þau svör á mánudaginn að stofnunin myndi hafa samráð við ráðgjafa um upplýsingarétt almennings í forsætisráðuneytinu um hvort skylt væri að afhenda samninginn.

Á sama tíma hefur ríkisendurskoðun síðustu mánuði unnið að almennri úttekt á verkefnum Innheimtustofnunar. Sú úttekt er tilkomin vegna fyrirhugaðrar tilfærslu verkefna Innheimtustofnunar til ríkisins.

Síðdegis í gær barst fréttatilkynning frá Innheimtustofnun um að stjórninni hefði verið skipt út og tveir starfsmenn sendir í leyfi. Þar kom fram að ríkisendurskoðun hefði upplýst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið nú í byrjun desember meðal annars að svör Innheimtustofnunar við úttektarspurningum hefðu verið óviðunandi. Ekkert er minnst á viðskiptasamband Innheimtustofnunar við Officio ehf. í fréttatilkynningunni.

Starfsmennirnir tveir sem voru sendir í leyfi eru forstjórinn, Jón Ingvar, og Bragi, forstöðumaður á Ísafirði.

Nýr formaður stjórnar Innheimtustofnunar er Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Ljós voru slökkt og enga hreyfingu að sjá þegar myndatökumaður RÚV var á ferð við skrifstofu Innheimtustofnunar við Hafnarstræti á Ísafirði í morgun.