Hvað er bitcoin?

Bitcoin er til umræðu nær alla daga. Bæði er rætt um þetta fyrirbæri sem framtíð fjármálakerfisins og sem pýramídasvindl. En áður en hægt er að komast að því er rétt að spyrja fyrst: Hvað er bitcoin?

Bitcoin er rafmynt, peningur sem hægt er að senda um internetið. Stundum er talað um „cryptocurrency“, dulkóðaða mynt.

Ímyndaðu þér að þú kaupir þér til dæmis kaffibolla á kaffihúsi. Þegar þú réttir greiðslukortið yfir borðið ertu ekki að afhenda peninga, heldur gerir bankinn það. En með stafrænan gjaldmiðil er ekki þörf á neinu banka eða greiðslukortafyrirtæki – eða seðlabanka og aðkomu ríkisins.

Til þess að búa til bitcoin þarf tölvu sem vinnur úr ákveðnum færslum í gegnum flókið reiknidæmi. Í staðinn fyrir þessa reikniþjónustu fær tölvan bitcoin. Þetta er kallað námugröftur. Enginn einn stýrir þessu öllu heldur eru þúsundir tölva um allan heim tengdar saman í netverki og í samvinnu staðfesta þær hvaða viðskipti eru gild og traust.

En magn bitcoin sem hægt er að vinna í námum er takmarkað við 1800 á dag. Eftir því sem þeim fjölgar sem stunda námugröft og fleiri tölvur eru notaðar til að staðfesta hver viðskipti, fær hver minna í sinn hlut.

Þetta er partur af umfjöllun Kveiks um bitcoin og rafmyntir. Fjallað verður ítarlegar um málið annað kvöld klukkan 20.00 á RÚV og hér á ruv.is.