Húsnæði geðdeildar fær falleinkunn

Í ágúst árið 2017 sviptu tveir ungir menn sig lífi inni á geðdeild Landspítala með tíu daga millibili. Í kjölfar innri rannsóknar spítalans, svokallaðrar rótargreiningar, var gerður langur listi yfir þær úrbætur sem þyrfti að gera til að draga úr líkum á að slíkt gerist aftur.

Húsnæði geðdeildar fær falleinkunn

Í ágúst árið 2017 sviptu tveir ungir menn sig lífi inni á geðdeild Landspítala með tíu daga millibili. Í kjölfar innri rannsóknar spítalans, svokallaðrar rótargreiningar, var gerður langur listi yfir þær úrbætur sem þyrfti að gera til að draga úr líkum á að slíkt gerist aftur.

„Húsnæðið þarf að vera öruggt og tryggt, þjálfun starfsfólks þarf að vera góð og verkferlar þurfa að vera í lagi. Það má segja að þarna hafi alls staðar mátt gera betur, bæði varðandi húsnæðið, varðandi verkferlana og varðandi þjálfun starfsfólks" segir María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs LSH.

Engin lágmarksviðmið eða staðlar voru til, til að meta öryggi geðdeilda. Landspítalinn ákvað þá sjálfur að hanna og þróa mælitæki til að leggja hlutlægt mat á öryggi geðdeildanna. Eyrún Thorstensen, verkefnastjóri á geðsviði, hefur stýrt því starfi og svokallaðri öryggisvegferð síðasta eina og hálfa árið. Niðurstaða matsins var hrikaleg. Aðeins þrjár af átta geðdeildum spítalans fengu ekki falleinkunn.

Geðdeild LSH (Mynd: RUV)

„Það eru líka deildirnar sem er búið að laga og taka í gegn á síðustu 6 árum,“ segir Eyrún. Hinar hafi hins vegar fengið falleinkunn, sem þýði einfaldlega að umhverfið sé hættulegt. Þar séu hlutir sem geti verið mjög skaðlegir. „Við vitum hvað við þurfum að laga. En það á eftir að laga mest af því samt sem áður.“

Þannig að þótt starfsfólk hafi nú fengið betri þjálfun og búið sé að innleiða rafrænt gátarkerfi, sem minnir starfsmenn á að líta til þeirra sjúklinga sem metnir eru í sjálfsvígshættu, þá hefur lítið sem ekkert verið gert til að gera húsnæðið öruggara. Deildin þar sem ungu mennirnir tveir styttu sér aldur, er til að mynda óbreytt. Eyrún segir fjárskort standa í vegi fyrir því.

„Það sem stendur fyrst og fremst í vegi fyrir því eru peningar" segir Eyrún. "Ég myndi halda, þótt ég viti kannski ekki alveg hvað það kostar að taka eina deild í gegn, að þá hugsa ég að það hlaupi á svona 100-150 milljónum kannski, til að hlutirnir geti verið í lagi.“  

Ef þú ert í sjálfsvígshugleiðingum: Hringdu í Hjálparsíma Rauða krossins, 1717 – þar er opið allan sólarhringinn. Talaðu við netspjall Rauða krossins á 1717.is - eða pantaðu tíma hjá Pieta samtökunum: pieta.is. Heimasíða Útmeð‘a er: utmeda.is