Helgi Seljan

Helgi Seljan

Helgi Seljan var fréttamaður í Kveik til 2022 og þar á undan í Kastljósi. Hann hóf ferilinn á héraðsfréttablaðinu Austurglugganum en fór þaðan á DV, Talstöðina og svo fréttastofu Stöðvar 2 áður en hann gekk til liðs við Kastljós RÚV árið 2006, þar sem hann starfaði allt þar til fréttaskýringaþátturinn Kveikur varð til árið 2017. Helgi hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín; þrenn blaðamannaverðlaun og fjölda tilnefninga, meðal annars fyrir umfjöllun um Samherjaskjölin, samkeppnislagabrot Mjólkursamsölunnar, áratugalanga brotasögu kynferðisbrotamanns og þöggun trúfélaga og stofnana um þau, umfjöllun um bókhaldsbrellur og skattasniðgöngu stóriðjufyrirtækja á Íslandi, lögbrot og aðgerðarleysi eftirlitsstofnana í sjávarútvegi, mannréttindabrot gegn geðsjúkum í íslenskum fangelsum og brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Helgi hefur fjórum sinnum verið valinn sjónvarpsmaður ársins á Edduverðlaunahátíðinni.

Áður en Helgi hóf störf við blaðamennsku starfaði hann við sjómennsku og netagerð.