Upplýsingagjöf hið klassíska hlutverk frétta

„Við erum náttúrulega bara fréttamenn, við erum ekki aktívistar, þannig að við erum ekki með eitthvað markmið um að ná einhverju fram, öðru en að koma upplýsingum áleiðis,“ segir Ingólfur Bjarni Sigfússon, umsjónarmaður Kveiksþáttar þriðjudagsins.

Upplýsingagjöf hið klassíska hlutverk frétta

„Hið klassíska hlutverk frétta er að gefa almenningi þær upplýsingar sem hann þarf til þess að taka upplýstar ákvarðanir. Svo er það annarra að taka við og segja: Já það þarf að bregðast við, það þarf að gera eitthvað.“  

Ingólfur Bjarni ræddi um þriðjudagsþáttinn, ásamt Frey Arnarssyni pródúsent og Tryggva Aðalbjörnssyni umsjónarmanni, í hlaðvarpi Kveiks. Tryggvi og Ingvar Haukur Guðmundsson pródúsent fóru yfir jarðakaup og umsvif breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe hér á landi í Kveiksþætti vikunnar.

Ingólfur Bjarni og Freyr fjölluðu svo um endurmenntun lækna. „Við megum ekki forðast mál út af því að það geti haft slæm áhrif,“ svarar Freyr, spurður um hvort hann óttist einhvern tímann að rugga bátnum í störfum sínum.„Ég held að ef að við ætluðum að fara í einhverri meðvirkni að segja, þetta getur truflað einhvern, stuggað við einhverjum, þá bara værum við algjörlega að bregðast í starfi,“ bætir Ingólfur Bjarni við.

Í næstu viku verður Kveiksþáttur þess þriðjudags til umfjöllunar í hlaðvarpinu og rætt við þáttagerðarmenn um hann. Hlaðvarpið er að finna í öllum helstu hlaðvarpsöppum og í appi og á vef RÚV. #Kveikur er fyrir alla þá sem vilja taka virkan þátt í umræðunni og [email protected] fyrir ábendingar.