Berst við faraldurinn í miðju öldurótinu í New York

Erna Milunka Kojic smitsjúkdómalæknir, sem stýrir aðgerðum á tveimur sjúkrahúsum New York-borgar, segist hræðast mest að heilbrigðisstarfsfólk veikist.

Berst við faraldurinn í miðju öldurótinu í New York

Farsóttin virðist ætla að leggjast þungt á Bandaríkin, þriðja fjölmennasta ríki heims. Spá vísindamanna er uggvænleg: á bilinu 100 til 240 þúsund dauðsföll, og það jafnvel þótt hörðum aðgerðum verði haldið til streitu.

Donald Trump forseti hefur endurtekið verið gagnrýndur fyrir að gera lítið úr veikinni, en það var þungt hljóð í honum þegar spáin svarta var kynnt fyrir sléttri viku.

„Þjóð okkar gengur nú í gegnum mikla eldraun og ekki líka neinni sem við áður höfum reynt,“ sagði Trump þá.

Mannmergð á miðri Manhattan-eyju, áður en farsóttin skall á borginni.

Í New York-borg, heimsmiðstöð viðskipta, menntunar og lista —  borginni sem aldrei sefur — getur mannmergðin verið yfirþyrmandi, en nú er borgin sem í dvala.

Á meðan er öngþveiti á sjúkrahúsum. Tilfellum hefur fjölgar hratt. Fjölmargir eru á gjörgæslu, og yfirvöld óttast skort á öndunarvélum.

Ein þeirra sem standa í framlínunni í New York-borg er Erna Milunka Kojic, yfirlæknir smitsjúkdóma á tveimur sjúkrahúsum undir merkjum Mount Sinai.

Hún líkir upplifuninni síðustu daga og vikur við að hafa lent í holskeflu: „Þetta gerðist allt svo hratt.“

„Ég hef eiginlega aldrei upplifað annað eins,“ segir hún, það sé svo margt sérstakt við þennan faraldur og þennan sjúkdóm.

Erna Milunka Kojic stýrir smitsjúkdómadeildum á tveimur Mount Sinai-sjúkrahúsum á Manhattan.

Eitt sé að enginn fái að sjá veikustu sjúklingana sem deyja á gjörgæsludeild eða liggja þar svo dögum skiptir.

„Það eru allir einir,“ segir hún. Aðstandendurnir aleinir heima í íbúð og sjúklingarnir aleinir á sjúkrahúsinu.

Erna Milunka segir að allt taki þetta á og það sé ekki hægt að loka á tilfinningarnar.

Hún segist hræðast mest að heilbrigðisstarfsfólk veikist. Það sé það sem sé erfiðast að búa sig undir. „Við erum að reyna að fá inn fólk til að hjálpa eða vera tilbúið,“ segir hún.

Kolbrún Ýrr Rolandsdóttir er nú mestmegnis heima hjá sér í Brooklyn, atvinnulaus.

Kolbrún Ýrr Rolandsdóttir hefur búið í New York í sjö ár. Hún vann hjá tískufyrirtæki en situr nú heima í hálfgerðu útgöngubanni, atvinnulaus.

Hún segir að það sé mikil óvissa, og henni finnst sem það sé ákveðin sorg yfir borginni.

„Eins og við séum að syrgja borgina eins og hún var, eins og við einhvern veginn finnum á okkur, hún verður ekki sú sama.“

Kolbrún Ýrr segir þó að New York verði alltaf New York, og eitthvað annað eigi eftir að koma í stað þess sem nú hverfur. Það verði uppbygging á ný, á endanum.

Hún segir mjög skrítið að hugsa til þess að verða jafnvel föst inni í íbúð sinni í Brooklyn atvinnulaus þangað til í haust. „Maður hugsar bara svo lengi sem að maður er með þak yfir höfuðið, er á meðan er.“

Það vantar ekki peningana í New York, borgin er sögð heimili margra tuga milljarðamæringa — í dollurum talið — og hundraða þúsunda milljónamæringa.

En auðnum er misskipt, og þeir sem minnst hafa virðast margir hafa orðið verr úti, samkvæmt úttekt New York Times.

Í fátækari hverfum býr fólk oft þröngt og hefur síður getað einangrað sig, enda útilokað að vinna mörg láglaunastörf að heiman.

En hvers vegna er ástandið orðið svona slæmt í New York af öllum stöðum? Erna Milunka segir að til að byrja með sé þar saman komið mjög margt fólk á mjög litlu svæði.

Ys og þys og allt sem borgin hefur upp á að bjóða hafi verið aðdráttarafl borgarinnar. „En það er alveg rétt,“ segir hún, að sama skapi sé þetta núna hluti af vandamálinu.

U.S.N.S. Comfort, fljótandi hersjúkrahús, kemur í höfn í New York.

Undanfarið hafa birst myndir frá New York sem mætti halda að væru úr klisjumynd frá Hollywood: fljótandi hersjúkrahús að leggjast að bryggju á Manhattan, helstu ráðstefnuhöll borgarinnar breytt í spítala, og annar risinn í tjaldbúðum í Central Park.

Sjúkrahús í tjaldbúðum í Central Park.

Myndirnar minna óneitanlega á stríðssvæði.

Og úti á götu, fyrir allra augum, blasir við nöturleg sjón: lík flutt í kældan   flutningabíl.

Andrew Cuomo ríkistjóri hefur vakið athygli síðustu vikur, enda hefur hann talað tæpitungulaust.

„Þetta varir í vikur, margar, margar vikur,“ sagði hann í lok mars. „Þetta verður langur dagur, og þessi dagur verður erfiður, og hann verður ófagur, og þetta verður sorgardagur.“

„Sama hve mikið við erfiðum þá getum við ekki bjargað öllum,“ sagði Cuomo.

„Það eru náttúrulega ekki endalausar birgðir til,“ segir Erna Milunka. „En við erum í lagi enn sem komið er.“ Hún segir að verið sé að vinna í að fá birgðir hvaðanæva að.

Hlífðarbúnaður sé líka sparaður og fólk sé látið nota sömu grímuna kannski í heilan dag. „Þetta er eitthvað sem við gerðum aldrei áður,“ segir hún.

„Hvaða afleiðingar það hefur, við vitum það heldur ekki.“