„Hann ætlaði að hætta þessum lífsstíl“

Þegar Jón Páll Sigmarsson lést, þrjátíu og tveggja ára að aldri, hafði hann tekið ákvörðun um að hætta keppni í líkamsrækt og á styrkleikamótum. Þetta segir Ragnheiður Jonna Sverrisdóttir, sem bjó með Jóni Páli um árabil.

„Hann ætlaði nefnilega að hætta þessum lífsstíl. Hann langaði að fara að hætta að keppa og æfa og komast út úr þessu. Þess vegna hafði hann stofnað Gym 80 og ætlaði að fara að vinna við það og að sinna syni sínum. Það var hans draumur. Að fara að geta sinnt barninu sínu betur, hitt hann meira, og hætta þessu líferni. Hann langaði að fara að lifa eðlilegu fjölskyldulífi. Þá er hann bara 32 eða á þrítugasta og þriðja ári. Og það er ekki hár aldur.“

„Þetta var mjög sérstakur dagur“ segir Jonna. „Þetta var laugardagur. Mamma hans hringir í mig um morguninn. Hún er eitthvað illa fyrir kölluð. Ofsalega ónóg sjálfri sér. Hún hringdi svo oft í mig, við vorum svo nánar. Hringdi í mig og sagði: „Mér leið eitthvað svo illa og pirruð. Ég ætla bara að skella mér niður í Gym 80 á æfingu“. Og gerir það. Svo bara stuttu síðar hringir Ásta, sem var þá kona Magnúsar Vers, hringir og segir mér þetta. Og þá er mamma hans í salnum. Hún er í salnum þegar þetta gerist og hún sem hafði ekki farið þangað í langan tíma. Og hann er í réttstöðulyftu þegar þetta gerist. Og hann deyr og þegar þau koma, þá er ég búin að frétta þetta. Þegar þau koma að tilkynna okkur þetta.“

Jonna hringdi beint þangað sem Sigmar Freyr, sonur þeirra Jóns Páls, var með vini sínum og kallaði hann heim til að segja honum ótíðindin.

„Og þetta var rosalegt áfall en það var búinn að vera smá fyrirboði. Hann var búinn að vera veikur og ég sá það á síðustu myndinni sem var tekin af honum að hann var ekki hraustlegur. Hann fann að það var eitthvað að. Og myndin sem er tekin á Vatnajökli, ber í snjónum þarna. Hann var ekki alveg frískur þá heldur,“ segir Jonna.

Jón Páll var með of háan blóðþrýsting og of mikla blóðfitu, en vildi ekki fara til læknis á Íslandi vegna kjaftagangs sem hann upplifði. Áður en að læknisferð til útlanda kom hné hann niður, örendur.

Sigmar Freyr segir að saga föður síns hafi verið ástæða þess að hann dró sjálfur að byrja steranotkun. Um margra ára skeið misnotaði hann stera þar til lífsgæðin voru orðin svo lítil að hann loksins hætti. Móðir hans sá allt sem fram fór og hafði miklar áhyggjur af Sigmari.

„Ég var ofsalega fegin þegar hann var orðinn 32 ára, svo varð hann 33 og þá varð ég enn þá fegnari. Og svo varð hann 34 ára. Sérstaklega í kringum þennan tíma, þá var ég rosalega stressuð. Ég viðurkenni það alveg. Ég held bara að Sigmar sé skynsamur og að hann sé hættur þessu. Hættur að nota þetta.“

Þegar hún heyrir ekki frá Sigmari í nokkrar klukkustundir eða sér lífsmark á samfélagsmiðlum, verður hún enn þann dag í dag hrædd.

„Ég tel klukkutímana, ég viðurkenni það. Hversu marga. Og þegar það er komið yfir ákveðið marga klukkutíma frá því að hann hefur sést inn á einhverjum ákveðnum samfélagsmiðli, ég held að hann kíki stundum inn á miðlana, ég held að hann fari inn í augnablik fyrir mömmu sína stundum. Já það eru komnir svona tímar. Og þá byrja ég stundum að hringja í vini hans, hvort þeir hafi heyrt í honum. Þannig að ég hugsa… þetta er, þetta er áfall sem maður gerir sér ekki almennilega grein fyrir. Bæði með hann, plús alla vinina og þetta fólk sem maður þekkir, sem hefur farið svona ungt.“