Fyrirmyndirnar allar á sterum

Notkun stera fer vaxandi hér á landi, ekki síst meðal ungra karla. Þetta staðfesta lögregla, saksóknarar og upplýsingar sem SÁÁ hafa gefið frá sér.

Ávísunum á stera fjölgar líka og þær eru nú um helmingi algengari hérlendis en annars staðar á Norðurlöndum. Mest er ávísað á karla yfir miðjum aldri, sem kunna að glíma við testósterónskort, en ungir menn fá líka steraávísanir þótt testósterónskortur í þeim aldurshópi sé mjög sjaldgæfur.

Fyrirmyndirnar útblásnar

Rannsóknir hérlendis sýna tengsl steranotkunar við áhættuhegðun og notkun ólöglegra vímuefna annars vegar og svo hins vegar við mikla sókn í líkamsrækt.

Í Kveik í kvöld verður fjallað um þessa þróun og rætt við þá sem skoðað hana hér á landi. Þar kemur meðal annars fram að fyrirmyndir ungra drengja og karla eru oft einkennilega vaxnar, frá leikfangabrúðum að kókómjólkurfernum yfir til hetja á samfélagsmiðlum.

„Þú ert fimm ára gamall strákur og hetjur þínar í lífinu eru Superman, Batman og Hulk, og einhverjir svona karlar, og þeir eru allir á sterum. Ef maður horfir á þá. Þeir eru með mikinn sixpakk og þeir eru útblásnir. Og það er ekki óalgengt að sjá litla stráka á leikskólaaldri spenna vöðvana og þegar þeir teikna sjálfa sig, þá eru þeir að teikna sixpakk,“ segir Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og lektor við HR.

Sonur Jóns Páls á sterum

Í þættinum verður meðal annars rætt við Sigmar Frey Jónsson, son Jóns Páls Sigmarssonar heitins. Sigmar Freyr misnotaði stera árum saman og lýsir upplifun sinni í viðtali við Kveik. Hann segir meðal annars frá áhrifunum á einkalífið.

„Það var náttúrulega rosalega skemmtilegt fyrst,“ segir hann. „Þegar þetta var að byrja að virka fyrst: „Já, svo það er svona sem það er að vera karlmaður.“ Þannig að það var rosalega skemmtilegt, fannst mér, maður var fullur af sjálfstrausti og kynorku.“

Sigmar segist hafa notað mismunandi tegundir stera sem hafi haft mismunandi áhrif.

„Kannski eitthvað sem gerði mann alveg getulausan á milli, maður skildi ekkert hvað var í gangi. Ég man að ég hætti að nota stera í heilt ár og hafði smá áhyggjur. Ég var ekki orðinn þrítugur og ég fann að kynhvöt og kyngeta kom ekkert til baka á heilu ári. Og ég hugsaði bara með mér: „Er þetta bara orðið svona? Verð ég bara svona það sem eftir er? Af því að ég var að fikta í þessu?““

Nánar um málið í Kveik í kvöld klukkan 20.00.