Foreldrar þurfi að stíga inn í heim barnanna

Foreldrar þurfa að sýna tölvuleikjum barna sinna áhuga. Ef þeir ætla að ná til barnanna og vinna með þeim þá verða þeir að skilja um hvað þau eru að tala, segir sérfræðingur.

Mats Steen fæddist í Noregi árið 1989. Vegna meðfædds vöðvarýrnunarsjúkdóms var hann kominn í hjólastól um átta ára aldur og þá lá þegar ljóst fyrir að hann yrði ekki langlífur.  

Í tölvuleiknum World of Warcraft skapaði Mats sér annan veruleika – og annan persónuleika.  

„Ibelin var stór maður. Hann var vöðvastæltur. Hann var kallaður Refurinn og hafði gaman af að hlaupa. Kannski var þetta hans aðferð til þess að bæta sér upp það sem hann gat ekki gert í eigin líkama. Hann gerði það í stafræna heiminum,“ segir Robert Steen, faðir Mats.

Eftir að skólagöngu Mats lauk fór sólarhringurinn fljótlega á hvolf. Þótt foreldrunum fyndist tímanum svo sem ekki sérlega vel varið, reyndu þau samt að sjá í gegnum fingur sér með það.  

„Við erum hrædd um að börnin okkar verði einmana. Þegar við sjáum að þau sitja bara og spila tölvuleiki þá óttumst við að þau verði einmana og að þau geri þetta af einmanaleika,“ sagði Robert Steen, faðir Mats, í viðtali við spjallþáttastjórnandann Fredrik Skavlan í byrjun þessa árs.

Saga Mats var fyrst sögð í langri og hjartnæmri færslu á vef norska ríkisútvarpsins NRK í janúar á þessu ári. Fljótlega varð færslan að mest lesna efni vefsins frá upphafi.

„Þegar við samþykktum að segja NRK sögu hans var hugmyndin sú að þetta yrði áhugavert fyrir afmarkaðan hóp fólks. Þar höfðum við rangt fyrir okkur,“ segir Robert Steen.  

En af hverju ýtti saga Mats svona við fólki? Getur verið að þarna hafi verið sleginn annar tónn en alla jafna í umfjöllun um tölvuleikjaspilun?

Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, segir að ákveðin dómsdagssýn hafi verið máluð upp sem valdi því að margir foreldrar séu yfir sig áhyggjufullir, jafnvel þegar ekkert vandamál sé til staðar.

Spila jafnvel í meira en hundrað tíma á viku

Ekki svo að skilja að vandamálin séu ekki stundum til staðar - það geta þau svo sannarlega verið.

„Mínir kannski öfgafyllstu skjólstæðingar geta verið vel rúmlega hundrað klukkutíma fyrir framan skjáinn á viku. Við erum með einstaklinga sem að gera jafnvel ekkert annað. Það er hrikalegt. Þeir þrífa sig ekki, þeir fara ekki á klósettið, þeir tala ekki við neinn nema það sé í gegnum skjáinn. Þeir hunsa foreldra sína og fjölskyldu. Það getur verið mjög, mjög slæmt,“ segir Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur.

Hann segir að þetta séu mjög gjarnan strákar. „Þetta er minnihlutahópur einstaklinga sem á við vandamál að stríða, sem líður illa og tínist einhvern veginn í tengslum við tölvuna,“ segir Eyjólfur Örn.

Vilja gera tölvuleikjaspilun að skipulögðu íþróttastarfi

Hjá ársgömlum Rafíþróttasamtökum Íslands er markmiðið að færa tölvurnar út úr myrkvuðum unglingaherbergjum og gera tölvuleikjaspilun að skipulögðu starfi innan íþróttafélaga.

„Við erum núna komin með eitthvað áhugamál í samfélaginu sem að níutíu prósent af krökkum eiga vikulegan snertiflöt við og þetta er eitt af fáum áhugamálum sem við bjóðum ekki, eða höfum ekki í gegnum tíðina, boðið upp á skipulegar æfingar og skipulagt starf í kringum,“ segir Ólafur Hrafn.

Nú hefur orðið breyting á. Ármann, Fylkir, KR og FH hafa nú þegar stofnað sérstakar rafíþróttadeildir. Hjá Ármanni æfa á bilinu þrjátíu til fjörutíu börn rafíþróttir tvisvar í viku.

Getur komið foreldrum spánskt fyrir sjónir

„Þetta kemur mörgum foreldrum svolítið spánskt fyrir sjónir fyrst. Á ég að borga fyrir það að barnið mitt spili meiri tölvuleiki?“ segir Ólafur Hrafn. En fyrir suma, getur starf sem þetta verið einmitt það sem vantaði.

„Sem foreldri þá vill maður náttúrulega að börnin séu í einhverjum hóp, samsami sig með einhverjum og rækti áhugamálin sín. Svo eru þau bara jafn ólík og þau eru mörg. Við erum búin að prófa ýmislegt með þessum yngsta og hann hefur bara ekki fundið sig,“ segir Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, móðir iðkanda.

„Í staðinn fyrir að vera einn inni í tölvunni, að spila við einhvern úti í heimi, þá er hann hér í hóp með krökkum sem hafa sömu áhugamál. Þannig að af hverju ekki að æfa þá þetta og styðja þá barnið í því sem það hefur áhuga á?“ spyr Hulda Sólveig.

Vel kryddað af íþróttabrag

„Við viljum að allir labbi héðan út sem betri manneskjur en þeir voru fyrir æfinguna. Sama hvort það sé að ég kynntist einhverjum aðeins betur eða að ég lærði eitthvað nýtt trikk í tölvuleiknum,“ segir Arnar Hólm Einarsson, einn af eigendum Rafíþróttaskólans og yfirþjálfari rafíþróttadeildar Ármanns.

„Við erum líka að láta þau temja sér heilbrigða spilahætti. Að vera vel út sofin, að vera í góðu formi, það skiptir máli þegar kemur að frammistöðunni í leiknum,“ segir Ólafur Hrafn.

„Venjuleg æfing hjá okkur er kannski svona 65 til 70 prósent fyrir framan skjáinn. Restin eru líkamlegar æfingar, leikir eða heilaleikfimi. Þetta er vel kryddað af íþróttabrag,“ segir Arnar Hólm.

Gott að hafa fagfólk á bak við sig

Það þekkja líklega margir foreldrar togstreituna sem getur fylgt tölvunotkun barna. Sérstaklega þegar kemur að því að setja tímamörk.  

„Ef hann mætti ráða þá væri hann í tölvunni bara alltaf og ég er viss um að við erum ekkert ein um þetta vandamál. En þá er svo gott að vera með einhvern á bak við sig eins og í þessum hóp, þar sem þeir eru bara fagaðilar og börnin hlusta miklu frekar á þá heldur en okkur foreldrana,“ segir Hulda Sólveig.  

„Hann er á æfingum og hann er með heimalærdóm sem hann þarf að klára, en svo er það bara ekkert meira.“

Sérfræðingar mæla reyndar með því að foreldrar setji sig inn í þennan heim barnanna, því það geti hjálpað þeim að treysta böndin. „Það er auðveldara að ná til þeirra. Það er auðveldara að vinna með þeim ef þú ert á sama blaði. Ef þú skilur hvað þau eru að tala um,“ segir Eyjólfur sálfræðingur.

Vildi sýna áhugamáli sonar síns virðingu

Það var kannski eitthvað í þá áttina sem Hulda Sólveig vildi ná fram. Hana langaði til þess að sýna áhugamáli sonar síns virðingu.  

„Þetta er eitthvað sem maður þekkir ekki. Ég er ekki þarna í þessum tölvuleikjum þannig að maður veit ekkert út á hvað þetta gengur.“ Þau hafi upplifað tölvuleikina sem tímaþjóf á heimilinu fram til þessa. „Við vorum einhvern vegninn að hugsa um að reyna að gera þetta jákvætt; jákvæða upplifun bæði fyrir okkur og fyrir hann.“  

„Ef þú tekur dæmi; þú átt þrjá krakka. Einn er á skíðum, einn er í fótbolta og einn er í tölvuleikjum. Þú ferð á völlinn og þú ferð og rennir þér en þú spilar enga tölvuleiki og þú sinnir aldrei þessu áhugamáli eða spjallar um það við krakkann þinn - hvað er líklegast að verði vandamál? Nú auðvitað tölvuleikirnir,“ segir Arnar Hólm.

Hann segir að ábyrgðin liggi hjá foreldrum. Þeir þurfi að sýna áhugamálinu virðingu. „Vegna þess að þetta er aðalvandamálið í dag, tel ég, að foreldrar eru ekki að sýna þessu áhuga.“  

„Hefði þurft á þessu að halda“

Bæði Arnar og Ólafur eru á þrítugsaldri í dag og hafa spilað tölvuleiki frá því að þeir voru pjakkar.  

„Ég gekk í gegnum tímabil í mínu lífið þar sem að ég hefði rosalega mikið þurft á þessu að halda. Um þrettán til fimmtán ára aldur þá flosnaði ég upp úr öllum skipulögðu íþróttunum sem ég var í og ég var í öllu; fótbolta, körfubolta, handbolta og karate, og alltaf að prófa eitthvað nýtt,“ segir Ólafur Hrafn.  

„En ég hætti í öllum þessum skipulögðu íþróttum og fór bara að spila Counter Strike allan daginn alltaf. Það var í rauninni voða lítið annað sem að komst að. Foreldrar mínir brugðust við með því að taka tölvuna alveg í burtu.“  

„Það var í rauninni ekki fyrr en að við settumst niður og ræddum þetta í þaula að þau föttuðu að ég var lagður í einelti í rauninni í öllu hinu skipulagða íþróttastarfinu og mér leið mjög illa þar. Það var ástæðan fyrir því að ég var búinn að hætta. Það var ekki tölvan eða eitthvað annað,“ segir Ólafur Hrafn.

Vill gera allt til að efla krakkana

Arnar Hólm var bæði á kafi í tölvuleikjum og íþróttum þegar hann var yngri og kunni vel við báða heima.  

„Svo sem sagt missi ég besta vin minn sautján ára sem var rosa mikið í tölvuleikjum og var þunglyndur og svipti sig lífi. Ég er ekki að segja að tölvuleikir séu ástæðan fyrir því, en mig langar rosalega mikið að reyna að gera allt sem ég get til að efla þessa krakka; líkamlega, félagslega, þannig að enginn þurfi að fara þessa leið sem Varði fór. Þannig að það er einhver svona innri kraftur í mér sem er að reyna að berjast við að það gerist aftur.“  

„Við sjáum líka alveg krakka hérna sem standa mjög vel félagslega og eiga fullt af vinum og um leið og þau koma á æfingu þá eru fimm vinir heima hjá sér sem vilja allir fá að spila með og svona. En við sjáum líka hitt sko, vissulega,“ segir Ólafur Hrafn.  

Gæti hjálpað mörgum að hittast

„Ég sé fyrir mér fullt af skjólstæðingum sem hafa komið til mín í gegnum árin sem hafa fundið sína lausn í því að spila og eignast vini í gegnum tölvuna og hafa ekki fundið neinn farveg fyrir það neins staðar annars staðar í lífinu, segir Eyjólfur sálfræðingur.

„Það að einhver þessara einstaklinga hefði haft tækifæri til þess að, í raunveruleikanum að fara og hitta þá aðra aðila sem hafa áhuga því sama og spila með þeim og eiga við þá samskipti, það hefði örugglega getað komið í veg fyrir fullt af vandamálum. Það hefði getað í raun og veru hjálpað ótrúlega mörgum,“ segir hann.

Kom á óvart hvað sonurinn var vinamargur

Aftur að Mats Steen, unga Norðmanninum sem hafði varla farið út fyrir hússins dyr í nokkur ár, heldur varið mestum tíma sínum í hliðarheimi tölvuleikjanna. „Fimmtán til tuttugu þúsund klukkutímar. Það er um það bil tíu ár af vinnu. Það er mjög langur tími sem hann átti með netvinum sínum, og þau höfðu náð að tengjast,“ segir Robert Steen, faðir Mats.

Þegar Mats lést, 25 ára gamall, settu foreldrar hans nokkur orð inn á bloggið hans, sögðu frá andláti hans og skildu eftir netfang, án þess að vita hvort nokkur ætti eftir að lesa þau. Viðbrögðin komu þeim gjörsamlega í opna skjöldu.  

„Eftir nokkra klukkutíma komu fyrstu sögurnar. Þá fórum við að fá tölvupóst frá fólki sem við vissum ekki að væri til. Þá komu sögurnar um samveru þessa fólks með syni okkar síðustu árin sem hann lifði. Þá kom þetta fólk fram sem við vissum ekki af,“ segir Robert.  

Vinir úr allri álfunni sóttu jarðarförina

Svo fór að hópur fólks frá hinum og þessum Evrópulöndum kom í jarðarför Mats. Fólk á þrítugs-, og upp í sjötugsaldur, sem hafði spilað við hann árum saman og leit á hann sem náin vin.  

„Það kom okkur verulega á óvart að hann hefði átt svona marga nána vini, sem hann hafði gengt mikilvægu hlutverki fyrir, og sem höfðu verið honum svona mikilvægir. Vinir sem ég hafði aldrei séð þó að ég hefði séð son minn á hverjum degi,“ segir Robert, faðir Mats.

Það var fyrst þarna sem foreldrarnir skildu hvaða þýðingu tölvuleikirnir höfðu haft fyrir Mats. „Við sáum ekki hvers virði þetta var fyrir hann félagslega. Þetta voru ánægjuleg tengsl, hann hafði áhrif á líf annarra. Þetta hjálpaði öðrum. Þarna öðlaðist hann virði,“ segir hann.

„Eins og einn vinur hans sagði í jarðarförinni: Þegar maður ver svona miklum tíma saman á netinu hættir aldur að skipta máli. Aldur er ósýnilegur á netinu. Maður sér ekki húðlit á netinu. Menningarlegur bakgrunnur hættir að skipta máli. Fötlun breytir engu. Það hverfur allt sem mengar sambönd þegar við hittumst í líkamlegum skilningi.“  

Fyrsti kossinn

Mats fékk sinn fyrsta koss í heimi tölvuleikja. „Hann sat við varðeld í leiknum. Þá birtist önnur persóna, sem hét Rumour, tók af honum hattinn og hljóp svo burt. Hann varð pirraður, hljóp á eftir henni þar til hún gómaði hann og kyssti hann. Þá var hann sautján ára. Þetta var fyrsti kossinn,“ segir faðir Mats.  

Rumour er hollensk kona að nafni Lisette. Hún var ein af þeim sem komu í jarðarför Mats.

„Þessi saga er svo víðtæk og tekur á svo mörgu. Hvað þýðir það að vera vinur? Hvað þýðir það að lifa lífi sem hefur virði? Hvaða þýðingu hefur ástin? Hvers konar kynslóðabil sjáum við í þessu, sem útskýrir aðeins hvers vegna foreldrar eru svo frústreraðir  í tengslum við tölvuleikjaheiminn, og það að unga fólkið verji svo miklum tíma þar, en sem skiptir það svo miklu, og svo framvegis. Þessi saga opnar svo margar víddir,“ segir Robert.

Þurfum að eiga vini í raunheimum líka

Mats bjó við þær aðstæður að tölvan gat bætt upp fyrir eitthvað sem hann átti ekki annars kost á. Þannig er það auðvitað ekki alltaf.  

„Þegar við erum með einstakling sem að við vitum að á eftir að þurfa að eiga líf og samskipti utan tölvunnar, hann á eftir að þurfa í framtíðinni að flytja að heiman eða vinna úti í bæ, eða á eftir að þurfa að eiga einhvers konar svoleiðis líf, eitthvað sem að tilheyrir samfélaginu - þá allt í einu snýr þetta öfugt við,“ segir Eyjólfur sálfræðingur.  

„Við getum ekki bara átt samskiptin í gegnum heyrnartólin. Samskiptin þar eru samskipti, en það vantar upp á gæðin og það vantar upp á tengingu við raunveruleikann,“ segir hann. „Við þurfum líka að eiga vinina sem geta komið og hjálpað okkur að flytja. Sem geta staðið við hliðina á okkur þegar við erum að ganga í gegnum sambandsslit.“  

„Hvernig vitum við hvenær þetta er orðið vandamál? Í kjarnann er það náttúrulega bara þegar við sjáum að einstaklingur er farinn að útiloka hluti til þess að vera fyrir framan tölvuna. Þegar tölvan fer í raun og veru að taka fram úr öllu öðru,“ segir Eyjólfur.

„Við megum ekki horfa fram hjá neikvæðu hliðunum. Við þurfum að vera í rauninni algjörlega hreinskilin, bæði við okkur sjálf, við börnin og bara allt samfélagið. Ég vil reyna að snúa þessu upp í eitthvað jákvætt. Sumir vilja banna þetta, sumir vilja kannski takmarka þetta rosalega mikið. Það er bara umræða sem við þurfum að eiga og á alveg rétt á sér,“ segir Ólafur Hrafn, formaður Rafíþróttasamtakanna.

Hefði viljað taka þátt

Þegar Robert, pabbi Mats, var spurður að því hvort hann hefði, eftir á að hyggja, viljað hafa gert eitthvað öðruvísi, þá sagði hann þetta:

„Ég á dóttur sem heitir Mia. Hún spilar handbolta. Ég hef setið í handboltasölum í Östland í mörg, mörg ár. Þá sit ég í köldum sal klukkan sjö um morgun, í steyptu stúkusæti og skelf af kulda, en ég er á staðnum. Ég tek þátt í lífi barnsins. Það er áþreifanlegt. Það höfum við ekki gert í tengslum við þennan stafræna tölvuleikjaheim.“  

„Ég vildi óska að ég hefði gert það. Ég vildi að ég hefði búið mér til hliðarsjálf og verið með Mats, eða Ibelin, í Azeroth og hitt vinina. Þá hefði ég getað tengst þeim og vitað af þeim áður en þeir birtust í jarðarförinni.“