„Ekkert af þessu sést í skimun“

Sílikonpúðar draga úr áreiðanleika brjóstaskimana og geta valdið miklum veikindum hjá sumum konum. Í Kveik í kvöld er rætt við konu sem greindist með brjóstakrabbamein aðeins fjórum vikum eftir skimun.

„Ekkert af þessu sést í skimun“

Bryndís Guðmundsdóttir lét setja sílikonpúða í brjóstin árið 2006: „Ég vissi ekkert um brjóstapúða, fékk enga fræðslu um brjóstapúða, hvorki hvað væri í þeim né hvaða afleiðingar þeir gætu haft fyrir heilsuna mína eða ef eitthvað kæmi fyrir þá, hvað það myndi kosta mig. Maður spáði bara ekkert í þetta þá. Ég er bara svolítið í núinu þarna að taka hvatvísa ákvörðun“, segir Bryndís.

Sex árum síðar kom í ljós í krabbameinsskimun að púðarnir voru báðir sprungnir. Það var svo staðfest með ómskoðun nokkru síðar. Það er mjög dýrt að láta fjarlægja púðana og Bryndís pantaði því ekki tíma hjá brjóstaskurðlækni fyrr en síðasta vor. Læknirinn spurði hvenær hún hefði síðast farið í skimun fyrir brjóstakrabbameini og hvatti hana til að gera það fyrir aðgerðina. Hún fór í skimun 5. maí í fyrra og fékk bréf með niðurstöðunni fimm dögum síðar. Engin merki fundust um brjóstakrabbamein.

Annað kom í ljós þegar Bryndís fór í aðgerðina. Læknirinn kallaði hana á sinn fund skömmu síðar og tilkynnti henni að hún væri með illkynja krabbamein í brjósti. Níu sentimetra forstigsbreytingar og fjögur æxli fundust í brjósti og eitlum. Þetta var eðlilega mikið áfall fyrir Bryndísi: „Ekkert af þessu sést í skimun fjórum vikum fyrir þessa aðgerð.“

Bryndís var heppin því krabbameinið óx hægt. Hún fór í lyfjagjöf í forvarnarskyni og telst nú laus við krabbameinið.

Bryndís var heppin og telst laus við krabbameinið núna eftir brjóstnám og lyfja- og geislameðferð. Hún er þó mjög hugsi eftir þessa reynslu: „Mér finnst þetta grafalvarlegt að konur séu ekki upplýstar um áhættuna sem fylgir því að fá sér brjóstapúða. Það geta fylgt þeim aukaverkanir sem hafa áhrif á heilsuna okkar, það geta fylgt þeim áhættur eins og það að krabbamein greinist ekki þegar farið er í skimun. Og ég ætla aldrei að vera á móti brjóstapúðum eða því að konur taki ákvörðun fyrir sig með eitthvað í sambandi við útlit sitt eða það sem þær velja að gera – en mér finnst það bara samfélagsleg skylda mín gagnvart kynsystrum mínum að upplýsa þær um hvað þetta er mikilvægt að þær taki upplýstar ákvarðanir þegar þær velja að fá sér brjóstapúða.“

Nánar verður fjallað um þetta mál og fleira sem tengist sílikonbrjóstapúðum í Kveik í kvöld klukkan 20:05 á RÚV.