Ingólfur Bjarni Sigfússon, Sigríður Hagalín Björnsdóttir

Kórónaveirur eru stór ætt veira sem valda oft venjulegu kvefi.

„En hún hefur verið þekkt að því í gegnum áratugina að breyta sér aðeins og valda skæðari sýkingum en hún gerir ella. Það er skemmst að minnast, þessi SARS sem gekk 2002-3, og svo MERS sem var á Arabíuskaganum núna frá 2012, og svo kemur hún núna allt í einu í nýrri mynd,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.

Einkenni COVID-19 líkjast einkennum inflúensu, en sjúkdómurinn getur leitt til alvarlegrar lungnasýkingar.

Alvarlegra eftir því sem fólk er eldra

Við vitum að COVID-19 leggst þyngra á fólk eftir aldri. Börn fá yfirleitt mjög væg einkenni, svo hækkar dánartíðnin eftir því sem fólk verður eldra. Hún er hæst meðal þeirra sem eru komnir yfir áttrætt.

En hversu margir deyja af þeim sem smitast af Covid-19? Það er erfitt að svara því vegna þess að enginn veit hversu margir eru smitaðir.

Nýjasta mat Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar eru að 3,4 prósent þeirra sem greinast með sjúkdóminn deyja.  Það er talsvert hærri tala en dánartíðni vegna venjulegrar árstíðabundinnar flensu, en miklu lægri en vegna annarra kórónuveira, eins og SARS  eða MERS.  Hvað þá Ebólu veirunnar.

Þar sem enginn veit hversu margir eru smitaðir af Covid-19 án þess að hafa verið greindir gæti dánartíðnin verið miklu lægri en 3,4 prósent.

„Það sem að skiptir máli hér er það hversu útbreidd er veiran. Ef að dánartalan er 2 prósent af öllum sem að smitast, þá getur dánartalan sjálf verið mjög há ef hún nær mikilli útbreiðslu. En, en ég er ekki viss um að það sé í raun og veru þannig. Ég held að það séu miklu fleiri sem fá þessa veiru einkennalítið og einkennalaust og greinast þess vegna aldrei,“ segir Þórólfur.

Meira smitandi en venjuleg flensa

En það er samt fyllsta ástæða til að taka ástandið alvarlega. Það eru bara 26 öndunarvélar til á Landspítalanum og þrjár á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Verið er að reyna að kaupa fleiri, en enginn læknir vill lenda í þeirri aðstöðu að þurfa að velja á milli þeirra sjúklinga sem hægt er að bjarga.

Sjúklingur með venjulega flensu smitar að meðaltali einn og hálfan til viðbótar, en sá sem er með kórónavírusinn SARS smitar að meðaltali þrjá og hálfan. Enn er margt á huldu um smitnæmi COVID-19, en talið er að hver sjúklingur smiti að meðaltali tvo og hálfan. Veiran er því talsvert meira smitandi en venjuleg flensa. Sjúkdómurinn er samt ekki bráðsmitandi í samanburði við mislinga, þar sem hver sjúklingur smitar allt að 18.

„Við viljum fá hana eins lítið eins og hægt er, og ef hún kemst hérna inn þá viljum við hægja á henni eins og mögulegt er, því ef hún myndi dreifa sér hérna mjög hratt og við fengjum allt í einu marga viðkvæma hópa sýkta á sama tíma, þá myndi heilbrigðiskerfið ekki ráða við það almennilega. Og þá myndum við fá hátt dánarhlutfall, við myndum fá jafnvel, hérna, afleiðingar á aðra sjúklingahópa, og heilbrigðiskerfið myndi hreinlega geta lamast við þetta,“ útskýrir hann.

Þarf að vernda viðkvæmu hópana

Það er erfitt að áætla hversu margir eiga eftir að veikjast alvarlega og deyja úr sjúkdómnum hér á landi. Þórólfur lítur til Hubei-héraðs í Kína, þar sem faraldurinn er í rénun. Þar eru fleiri en 3.000 látnir.

„Ef við miðum við það að þá ættum við að geta ráðið við það ef að allt færi á versta veg,“ segir Þórólfur.

„Ef við tökum bara hversu margir dóu í Kína af völdum þessarar veiru og miðum við íbúafjöldann sem þar er sem er 58 milljónir, þá gætum við búist við því að sjá hér á Íslandi kannski í kringum 15 dauðsföll, og kannski helmingi fleiri sem að væru alvarlega veikir og þyrftu að fara inn á gjörgæslu. Þetta er í mínum huga svona svartasta spáin sem að, sem að er, gæti séð ef við gerðum ekki neitt.

En hvernig fær það staðist að 15 manns geti látist ef hundruð, jafnvel þúsund manns smitast hér á landi? Þetta eru flóknir útreikningur, en mestu máli skiptir hvaða þjóðfélagshópar það eru sem smitast. Ef okkur tekst að vernda viðkvæmustu hópana, þá elstu og veikustu, og þeir sem smitast eru þeir yngri og hraustari, þá ætti faraldurinn að geta gengið yfir án þess að margir tugir falli í valinn.

Lærum af sögunni

Þórólfur segir að sóttvarnaraðgerðirnar nú séu þær víðtækustusíðan spænska veikin geisaði 1918. Heimurinn var annar þá, alþýða fólks bjó við lélega næringu og húsnæði, hreinlæti og heilbrigðisþjónusta voru af skornum skammti og það jafngilti næstum dauðadómi að fá lungnabólgu. Hátt í 500 manns dóu úr veikinni á Íslandi, samkvæmt opinberum tölum.

Alls er talið að spænska veikin hafi valdið dauða 50-100 milljóna manna um allan heim. Til samanburðar áætla margir að 40 milljónir hafi fallið í heimsstyrjöldinni fyrri.

„Það er voða erfitt að bera saman svona tvær sýkingar, en af því að inflúensan, eða heimsfaraldur inflúensu 1918, náði svona mikilli útbreiðslu þá var dánartalan þar um 2 prósent svo, svona gríðarlega há, það voru svo margir einstaklingar á bak við þau tvö prósent,“ segir Þórólfur.

Þetta er lærdómurinn sem heilbrigðisyfirvöld víða um heim byggja á í dag þegar þau bregðast við faröldrum eins og COVID-19.

„En það sem við erum í raun og veru að gera, við erum að nota ráð og grípa til ráða sem að við teljum að muni duga en valda hvað minnstum samfélagslegum skaða. Við megum ekki gjörsamlega skemma allt og eyðileggja hér innanlands til að forða kannski svona meðalvægum upp í svona verri sýkingum,“ segir hann.

„Þannig að við verðum að hugsa til þess hvað þurfum við að gera raunverulega til að, til að koma í veg fyrir þessar afleiðingar, og ég held að við séum akkúrat að gera það núna

Birtist fyrst í Kína

Veikin sem lagði Ítalíu á hliðina, á sér upptök í borg sem færstir Íslendingar höfðu heyrt minnst á fyrr en í janúarbyrjun: Wuhan. Wuhan á sér langa sögu sem miðstöð stjórnmála, fjármála, viðskipta, menningar og menntunar í Mið-Kína – stundum er hún kölluð höfuðborg þess svæðis.

Það var þar sem fyrstu tilfellin komu upp. Rétt fyrir jól, þann 12. Desember, greindu heilbrigðisyfirvöld í borginni frá 27 tilfellum bráðsmitandi lungnabólgu af völdum veiru sem áður var óþekkt. Í fyrstu var talið að fólkið hefði allt smitast dagana á undan, en nú telja kínversk yfirvöld raunar að fyrsta tilfellið gæti hafi verið um miðjan nóvember, nærri mánuði áður en fyrst var talið.

Það gæti stutt kenningar um að margir hafi sýkst en verið einkennalitlir og því ekki greindir. Flestir þeirra sem veiktust reyndust hafa sótt Huanan-fiskmarkaðinn skömmu áður, en þar er líka selt fiðurfé, snákar, leðurblökur og hefðbundin húsdýr.

Fer úr dýrum í menn

Magnús Gottfreðsson prófessor í læknisfræði við HÍ, sérfræðingur í smitsjúkdómum, segir ástæðuna fyrir því að veiran hafi fyrst komið fram í Kína vera margþætta.

„Í fyrsta lagi er landið mjög þéttbýlt. Og í öðru lagi að þá er býsna rík saga fyrir ýmiskonar matarmörkuðum í Kína og annars konar matarhefðum heldur en að við eigum að venjast. Og þar leggja menn sér til munns dýr sem að almennt eru ekki á borðum á Vesturlöndum,“ segir hann.

„Þessi dýr eru sum hver, eins og til dæmis leðurblökur, þeirrar náttúru að, að þau geta innihaldið gríðarlegt magn af smitefni. Og til dæmis eru leðurblökur alveg sérstaklega vel þolnar gagnvart ýmiskonar veirusýkingum. Þannig að ef þessu ægir öllu saman: ýmiskonar dýrategundum, þar sem að möguleikinn er á að veirur geti stokkið á milli tegunda, og síðan jafnvel myndað nýja stofna í gegnum endurröðun á erfðaefni, að þá skapast jafnframt sú hætta að, að viðkomandi sýkill stökkvi þá á milli tegunda, úr dýrum og í menn.“

Hann segir að það sé líklega það sem hafi gerst.

„Nú síðan er kannski þriðja skrefið sem hefur verið að bætast við á síðustu tíu árum og það er vaxandi mikilvægi kínverska hagkerfisins í heimshagkerfinu. Og þá flutningur fólks frá Kína og út um allan heim. Bæði verkamenn sem eru á förum fram og til baka og síðan auðvitað þessi velmegandi millistétt í Kína sem er farin að ferðast mjög til Vesturlanda,“ segir Magnús.

„Þannig að þessir atburðir hafa þá miklu meiri afleiðingar fyrir heimsbyggðina og afleiðingarnar koma miklu fyrr fram heldur en áður var.“

Magnús Gottfreðsson prófessor í læknisfræði við HÍ.

Brugðust hægt við

Í fyrstu reyndu yfirvöld í borginni að þagga málið niður. Lögreglu var sigað á lækni sem reyndi að vekja athygli á þessari nýju veiki. En á gamlársdag fékk Alþjóðaheilbrigðisstofnunin opinberlega orðsendingu um faraldur lungnabólgu af óþekktum uppruna.

Tilfellum í Wuhan fjölgaði jafnt og þétt, og gripið var til sífellt víðtækari ráðstafana, meðal annars víðtæks og fordæmalauss útgöngubanns. Nærri 60 milljónir manna búa í borgum í sóttkví. Nokkur sérstök sjúkrahús voru byggð á methraða. Sextán bráðabirgðasjúkrahús voru í notkun í Wuhan með verst var.

Kínverjar hafa viðurkennt að hafa brugðist rangt við í fyrstu, en telja sig hafa bætt fyrir það með hörðum viðbrögðum í kjölfarið.

11. febrúar fékk svo þessi nýja kórónaveira nafn: COVID-19. Tveimur dögum síðar endurskoðuðu kínversk yfirvöld mat sitt á fjölda smitaðra, og á augabragði fjölgaði þeim stórlega, í 13.332. Daginn eftir voru þau orðin 63.851.

Hefur dreift sér um allan heim

Undanfarið hefur svo nýgreindum í Kína snarfækkað svo þar gæti veikin nú verið í rénun, og talsmenn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar bera lof á viðbrögð Kínverja. En veikin dreifðist samt hratt um heimsbyggðina, fyrst til svæða þar sem eru mikil samskipti við Kína.

Magnús segir að svo virðist sem smitkeðjur séu ástæðan.

„Eins og til dæmis í Suður-Kóreu. Það beindist náttúrulega fyrst og fremst að ákveðnum trúarsöfnuði eins og komið hefur fram. Þannig að þetta var ekki útbreytt smit í þjóðfélaginu og ekki útbreitt smit sem að síðan náði til allra kima landsins, heldur var þetta bundið við tiltekinn hóp sem var hægt að hafa upp á og síðan eftir atvikum bregðast við og einangra,“ segir hann.

„Í Íran að þá virðist smitið líka hafa magnast upp. Sennilega að hluta til vegna þess að fólk kom saman, jafnvel að áeggjan klerkastjórnarinnar til að biðjast fyrir. Og það eru auðvitað kjöraðstæður fyrir veiruna til þess að, að dreifa sér.“

Ástandið í Evrópu einna verst

28. febrúar greindist fyrsta tilfellið á Íslandi, í karlmanni á fimmtugsaldri. Flestir af þeim sem hafa greinst hérlendis komu frá Ítalíu og Austurríki, þótt tilfellum sem smitast milli manna innanlands fjölgi.

Nú er ástandið verra í Evrópu en Kína og veikin breiðist mjög hratt út. Í nágrannalöndum hefur verið gripið til sambærilegra aðgerða og á Íslandi – en hér virðist þó greining hafa verið víðtækari en víðast hvar annars staðar.

Sums staðar þykja tölur um smitaða undarlega lágar. Í þróunarlöndum og á stríðssvæðum óttast sérfræðingar hið versta. En vangreiningin er víðar.

„Maður spyr sig hvort að þarna hafi fjöldinn allur af sjúklingum farið algjörlega fram hjá heilbrigðisyfirvöldum. Og það kann að vera að, að svo sé. Kannski talað talsvert mikið um Bandaríkin í því samhengi því þeir voru í vandræðum með sitt greiningarpróf. Bæði var prófið ekki nægilega gott í byrjun. Og síðan var aðgengi að því mjög takmarkað og er það reyndar ennþá,“ segir Magnús.

„Þegar að menn líta um öxl og fara að skoða nánar veikindi hjá fólki sem ekki voru að fullu skýrð, þá kann að vera að það komi í ljós að þarna var veiran á ferðinni. En hún bara slapp fram hjá í raun og veru öllu vöktunarkerfi.“

Gæti reynst Bandaríkjunum erfitt

Fyrsta tilfellið í Bandaríkjunum var greint 20. janúar. Þrátt fyrir það höfðu einungis um 14 þúsund próf verið gerð fyrir helgi. Ótrúlega fáir hafa verið staðfestir með veiruna þar vestra. Viðvörunarljósin blikka alls staðar í Bandaríkjunum.

27 milljónir Bandaríkjamanna eru án heilsutrygginga og hafa því fram til þessa þurft að borga fyrir kostnað við próf sjálfir, þó að það kunni að breytast. Ólöglegir innflytjendur, sem eru mjög margir, hafa áhyggjur af því að vera gripnir og vera vísað úr landi gefi þeir sig fram við yfirvöld til þess að fara í próf.

Nærri fjórðungur allra á atvinnumarkaði fær ekki greidda sjúkrapeninga mæti þeir ekki í vinnu vegna veikinda. Það þýðir tekjutap og því er óttast að margir mæti með einkenni í vinnu.

Af 6.000 sjúkrahúsum í landinu eru bara 290 undir það búin að sinna gjörgæsluþjónustu við þá sem gætu orðið mest veikir. Fleira mætti telja til.

Fyrri hluti:
← Yfirlit

Næsti hluti:
Áhrif veirunnar →