Þóra Arnórsdóttir

Torino er höfuðborg Piemonte-héraðs. Piemonte liggur upp að Lombardíuhéraði þar sem langflest smitin hafa greinst. Lengi töldu stjórnvöld að veiran myndi fjara út hérna, vandinn væri bundinn við rauðu svæðin í Lombardíu og þau voru hvort eð er í einangrun.

Það var bara eitt staðfest tilfelli hérna, svo þrjú, og svo sex, svo þrjú aftur, af því að þessi þrjú voru rangt greind. En síðan urðu þau 11, 30, 50, 100, 200, 300, 400. Nú eru þau um 1.500 talsins.

Náðu ekki stjórn á aðstæðum

„Ástandið nú er grafalvarlegt. Sérstaklega ef litið er til þess hvort við höfum burði til að veita öllum gjörgæslu sem munu þurfa hana,“ segir Giovanni Di Perri sem er veirufræðingur við Amedeo di Savoia-sjúkrahúsið í Torino.

„Tilfellum á Norður-Ítalíu fjölgar nú með veldisvexti. Við erum núna stödd í brattanum á kúrfunni. Þetta á sérstaklega við í Lombardíu, en einnig víðar. Fyrir stuttu varð sprenging í tilfellum hér í Tórínó.“

Giovanni Di Perri, veirufræðingur við Amedeo di Savoia-sjúkrahúsið í Torino.

Ríkisstjórnin hefur gripið til mjög íþyngjandi ráðstafana til að reyna að hefta útbreiðsluna. Enginn á að ferðast, nema hann þurfi nauðsynlega að komast til vinnu eða af heilbrigðisástæðum. Allir skólar eru lokaðir, söfn, kvikmyndahús, leikhús, bókasöfn, sundlaugar, íþróttaleikvangar, skíðasvæði, hótel, veitingahús – allt er tómt.

Óttinn við að eldri ástvinir sem eru veikir fyrir, smitist og lendi inni á sjúkrahúsi, á deild þar sem þarf að velja á milli þess hverjir fá almennilega aðstoð og hverjir ekki, hann er áþreifanlegur. Sá sem ekki hefur upplifað þessar aðstæður, getur vart gert sér í hugarlund hvernig andrúmsloftið er.

Kveikur fór um Norður-Ítalíu í síðustu viku til að fá innsýn í ástandið.

Göturnar auðar

Torino var fyrsta höfuðborg sameinaðrar Ítalíu, en þótt Flórens og svo Róm hafi tekið þá stöðu, þá er hún ennþá höfuðborg Piemonte og stútfull af lífi.

Á Filibertotorgi í miðborginni er fólk alla jafna eins og síld í tunnu í hverju einasta hádegi. Nú er varla köttur á kreiki, enda allir veitingastaðir lokaðir. Nema þessi hér, veganstaðurinn Mezzaluna, sem hún Daniela rekur.

„Það eru engir ferðamenn.  Þetta er erfiður tími en við reynum að halda áfram. Annars lifum við þetta ekki af,“ segir hún. „Efnahagsástandið á Ítalíu var bágborið fyrir og þetta er náðarhöggið. Ef við reynum ekki að vinna aðeins lengur getum við ekki greitt útgjöld og borgað starfsfólki laun.“

Og það er einmitt það sem þetta snýst um: líf eða dauða.

„Ekki opna dyrnar fyrir neinum“

Giovanni er einn fremsti veirufræðingur landsins og hefur fylgst með hverju skrefi veirunnar hér. Það getur verið erfitt fyrir venjulega borgara að átta sig á hver staðan er í raun – hann er hins vegar mjög meðvitaður um hana og dregur ekkert undan.

„Á þessu tímabili nú, sjáum við lógaritmískan veldisvöxt. Ef við miðum við þróunina í Hubei-héraði og Wuhan, megum við búast við að ná hápunktinum eftir kannski 20 daga, fyrir miðjan apríl, kannski fyrr, ef aðgerðir skila árangri. Eftir það vona ég að smitum fari fækkandi með hverjum deginum,“ útskýrir hann.

Það tók dálítið langan tíma að fá almenning til að taka málið nógu alvarlega, lengi framan af var vandamálið bundið við Lombardíuhérað og fólk áttaði sig hreinlega ekki á því hvað veiran er bráðsmitandi. Skilaboðin frá stjórnvöldum eru hins vegar orðin mjög skýr, núna þegar er búið að loka öllu. Di Perri hefði viljað gera það töluvert fyrr.

„Einfaldasta ráðið er þetta: Verið heima og ekki opna dyrnar fyrir neinum. Verið heima og ekki hitta neinn. Ekki safnast saman af nokkurri ástæðu. Við förum til vinnu með grímu og vinnum við verndaðar aðstæður. Einstaka hlutir eru undanþegnir, matardreifing og flutningar, en annars er landið lokað. Verið heima. Ekki hleypa krökkunum út,“ segir hann.

„Afar okkar og ömmur fóru í stríð. Ég held að við barnabörnin getum setið heima. Við ættum að þola það.“

Engir gestir á hótelinu

Atvinnurekendum fannst sumum til að byrja með of mikið gert úr áhrifum veirunnar, að efnahagslegu hamfarirnar sem fylgja til að mynda algeru hruni ferðaþjónustunnar í lengri tíma, væru töluvert alvarlegri. Eftir því sem allt hefur þróast á verri veg, hafa þessar raddir þagnað, en eftir stendur heil atvinnugrein í rúst.

Fabio Borio er fjórða kynslóð hótelrekenda, en langafi hans stofnaði Hótel Genova árið 1880.

„Núna er hótelið hreinlega tómt. Við höfum engar bókanir lengur. Eftir 24. febrúar fóru afbókanir að hrannast inn. Svo komst þetta neyðarástand á, og á endanum var allt afbókað. Með útgöngubanninu stöðvaðist reksturinn svo alveg,“ segir hann.

Þú ert fjórða kynslóð hótelrekenda og hótelið 140 ára. Hefur á öllum þessum tíma svipuð staða komið upp?

„Ég get ekki sagt það. Við komumst í gegnum tvær styrjaldir, og eftir innrás Þjóðverja var hótelið hertekið. Við höfum samt aldrei áður séð algera stöðvun.“

Samtökunum reiknast til að tapið vegna afpantana nemi núna um einni og hálfri milljón evra á dag, bara í þessari einu borg.

Atvinnustarfsemi lömuð

Við náðum tali af Veroniku Prasciolu, eiganda veitingastaðarins Arsenico e Vecchi Merletti, þar sem hún var að ganga frá öllu fyrir lokun í hver veit hversu langan tíma.

„Á einni viku umbreyttist allt. Fólk er eðlilega hrætt. Það breyttist allt í einni svipan. Við sjáum hvað gerist,“ segir hún.

„Ég er ekki hrædd um að smitast. Ég er hrædd um efnahagslífið. Ég verð kannski hrædd þegar einhver sem ég þekki veikist. Nú er enginn smitaður sem ég þekki.“

Það er dýrt að loka öllu og ljóst að landið verður lengi að ná sér upp úr kreppunni sem fylgir margra vikna einangrun þar sem nær öll atvinnustarfsemi er lömuð.

Nú er talað um einhvers konar Marshall-áætlun, því það er það sem menn velta fyrir sér núna: Hvað þarf að gera til að bjarga öllum þessum þúsundum fyrirtækja frá gjaldþroti?

Rétt að verja heilsu fólks

„Þrátt fyrir alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslífið tel ég ákvaraðanir ríkisstjórnarinnar vera réttar. Hér þurfti að velja milli lýðheilsu og efnahagslífs. Frammi fyrir þessu vali hefði ég líka sett heilsu fólks í öndvegi,“ segir Maria Laura Di Tommaso, hagfræðiprófessor við Háskólann í Torino.

„Þetta er spurning um að hafa heilbrigðiskerfi þar sem hægt er að segja við þann sem kemur inn í andnauð og gæti dáið á hverri stundu, að við höfum rúm fyrir hann. Til þess þurfti ríkisstjórnin að velja þessar hörðu aðgerðir, og færa stóra fórn efnahagslega. Hinn kosturinn væri að láta fólk deyja, vegna skorts á sjúkrarýmum með viðeigandi búnaði.“

Skólabörn á öllum aldri, frá leikskóla og upp í háskóla gengu glöð í bragði út í þriggja daga kjötkveðjuhátíðar-frí þann 21. febrúar. Síðan var ákveðið að lengja það um tvo daga, klára vikuna. Síðan þrjá til viðbótar, hinu megin við helgina, til að sótthreinsa skólana áður en börnin kæmu aftur.

Núna gerir tilskipinun ráð fyrir því að skólarnir opni aftur í fyrsta lagi 3. apríl – en það reiknar enginn með því að það verði fyrr en eftir páska. Þá eru liðnir tveir mánuðir frá því að þetta stutta frí hófst. Það er drjúgur hluti skólaársins. Hvað gera menn þá?

Háskólarnir bjarga sér með fjarkennslu, en það er erfiðara með yngri skólastigin.

Þurfum samskipti við aðra

„Þetta er erfitt fyrir grunnskólabörn, en ekki síður unglinga, því krakkar hafa þörf fyrir að umgangast. Vandamálið er stærst hjá börnum sem eru viðkvæm fyrir, börn með fötlun og þau sem búa við erfiðar heimilisaðstæður. Þetta verður enn erfiðara fyrir þessi börn. Til dæmis hafa ekki allir nettengingu heima hjá sér. Sérstaklega ekki innflytjendur sem eru nýlega komnir til ítalíu og búa við fátækt,“ segir Maria.

Sjálf er ég, Þóra Arnórsdóttir fréttamaður Kveiks, í þeirri stöðu að nota hinar ýmsu aðferðir til að taka við og senda verkefni fyrir þrjú börn á þremur mismunandi skólastigum. Við sendum kennurum til dæmis myndir á WhatsApp af heimaverkefnum sem er búið að klára og upptökur af lestri. Þeir senda svo endurgjöf til baka. Það er eitthvað. Nú er það bara heimakennslan sem blívur á þessum undarlegu tímum. Þetta er áskorun fyrir alla.

„Ég held að enginn af minni kynslóð eða kynslóð mömmu minnar, mamma mín er fædd 1931 og ég 1962, ekkert okkar hefur upplifað neitt í líkingu við þetta. Ekki einu sinni í stríðstímum. Á stríðstímum var hér útgöngubann á nóttunni en á daginn gátu börnin leikið úti og fóru í skóla. Aðgerðirnar nú hafa enn meiri áhrif á einkalíf okkar. Þessar breytingar á lífsháttum eru þjóðinni erfiðar. Ég tel þær samt nauðsynlegar, þótt ég sé meðvituð um efnahagslega skaðann,“ segir Maria.

Stjórnvöld hafa ítrekað vísað í sterka þjóðarsál Ítala. Þegar á bjáti, þá kunni þeir að standa saman. Það held ég að sé alveg rétt. Hér ríkir sterk föðurlandsást og almennt er fólk stolt af því að vera hluti af ítölsku þjóðinni, sögu hennar, sigrum, ósigrum og kannski ekki síst matarhefð. Nú gildir að kunna að fara að reglum og standa saman.

„Í apríl hlæjum við kannski en Frakkarnir gráta. Það getur allt breyst. Við tökum þetta föstum tökum. Í daglegu lífi eru Ítalir kannski ekki bestir, en á neyðartímum hafa þeir alltaf staðið sig. Nú hljóta þeir að gera það,“ segir Giovanni .

Fyrri hluti:
← Hvað er COVID-19?

Næsti hluti:
Hvað gerum við? →