*

Bjargar flóttamönnum í neyð

Hekla María Friðriksdóttir var á ferðalagi um Evrópu 2015 þegar hún kynntist fólki sem var á leið til Grikklands. Ferðalagið endaði á eyjunni Lesbos, þar sem flóttamenn nánast rekur á land eftir svaðilför sjóleiðina frá Tyrklandi.

Hún hefur nú komið nokkrum sinnum til Lesbos sem sjálfboðaliði, öðlast reynslu og hefur að auki verið í björgunarsveitum á Íslandi. Fyrir vikið er hún nú hálfgerður skipstjóri á björgunarbát samtakanna Refugee Rescue.

„Jú, tæknilega séð er ég nokkurs konar umsjónarmaður. Af því að ég hef þónokkra reynslu af því að vera hérna. Ég er búin að vera hérna sem áhafnarmeðlimur á bátnum nokkuð oft. Og hef verið á eyjunni með öðrum samtökum áður. Þá fékk ég það hlutverk að sjá um bátinn og bera að miklu leyti ábyrgðina og vera tengiliður við landhelgisgæsluna og svona þegar við förum út í einhver verkefni,“ segir hún.

Verkefnið er ekki einfalt: Flóttamenn frá Afganistan, Írak og Sýrlandi reyna með öllum ráðum að komast til Evrópu og borga mansalsgengjum fyrir að sigla á gúmmítuðrum frá Tyrklandi til Lesbos. Oftast er reynt að troða mun fleiri um borð en bátarnir bera. Og ástand fólksins ber þess vitni hvað það hefur gengið í gegnum.

„Fólk, þegar það kemur, það er oft mjög skelkað og oft búið að vera í mjög erfiðum aðstæðum á Tyrklandi áður en þau koma hingað. Bíða lengi á ströndinni eftir að geta farið á bátinn. Bara eftir réttum veðuraðstæðum eða eftir því að tyrkneska landhelgisgæslan sé ekki í nágrenninu. Og alls konar þannig. Svo er allskonar… Það er mjög margt sem að hefur áhrif á það hvenær fólk getur farið,“ segir Hekla.