Bera meiri upplýsingar en allir gervihnettir

Húsnæði á höfuðborgarsvæðinu er nú nærri allt tengt við ljósleiðara. Og sums staðar ekki bara einn, heldur tvo.

Ljósleiðaravæðingin hefur vakið fjölmargar spurningar – hvers vegna þarf tvo þræði, af hverju sprettur rígurinn milli fyrirtækjanna tveggja - Mílu og Gagnaveitu Reykjavíkur, hvers vegna geta ekki allir keypt efni hjá Sjónvarpi Símans, hvað þýðir þetta fyrir neytendur, og hvað er ljósleiðari?

„Þetta er glerþráður úr ofboðslega hreinu gleri. Og ef ég sendi ljós hérna inn í endann á ljósleiðaranum, þá kemur það út um hinn endann, alveg sama þótt hann sé hundrað kílómetrar á lengd,“ útskýrir Kristján Leósson eðlisfræðingur.

„Í gamla daga, 1980 og eitthvað þegar við töluðum í síma við útlönd, þá fór það í gegnum gervihnött. Við tókum upp símann og símtalið fór upp í gervihnött sem var búið að senda á braut um jörðu með eldflaug. Núna getur einn svona ljósleiðari, örþunnur þráður, einn getur borið meira heldur en allt þetta gervihnattanet samanlagt, af upplýsingum.“

En fyrst einn ljósleiðaraþráður, sem er töluvert grennri en mannshár, getur flutt meiri upplýsingar en allt gervihnattakerfi fortíðarinnar, hvers vegna er þá verið að leggja tvo í hvert hús?

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir að þar á bæ hafi menn einmitt klórað sér í kollinum yfir því. „Við erum búin að reyna nú í nokkur ár að ná samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélag þess að samnýta ljósleiðara þar sem þeir eru komnir og sérstaklega þar sem er verið að grafa fyrir nýjum, en ekki náð samkomulagi enn sem komið er,“ segir hann.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, segir það verulega mikilvægt að við séum í samkeppni í innviðum. „Það má nefna það að í ríkisstyrkjaverkefnum úti á landi, grundvöllur fyrir því að fá styrki er að leggja tvo þræði. Og við skulum kannski muna hvað er búið að breytast. Á tíu ára tíma er fullt af flottum fyrirtækjum búið að koma, eins og Nova, Vodafone, Hringdu, Tal, Hringiðan, Símafélagið, 365, út af virkri samkeppni,“ segir hann.

Nánar er fjallað um ljósleiðaravæðinguna og deilur um aðgang að ljósleiðarakerfinu í spilaranum hér að ofan.