Baráttan við offitu

Offita er heimsfaraldur, eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál okkar tíma. Íslendingar eru feitastir Norðurlandaþjóða, fimmti hver Íslendingur eldri en 15 ára glímir við offitu, sem er nokkuð yfir meðaltali OECD ríkjanna, þar sem hlutfallið er um 16%.

Þetta er rándýrt fyrir samfélagið, því heilbrigðiskostnaður offeitra er töluvert hærri en annarra. En þetta er ekki síður dýrt fyrir þá sem við vandann glíma, því offitu fylgir mikil skerðing á lífsgæðum.

Pétur H. Hansen, framkvæmdastjóri (Mynd: Arnar Þórisson)

Þetta er rándýrt fyrir samfélagið, því heilbrigðiskostnaður offeitra er töluvert hærri en annarra. En þetta er ekki síður dýrt fyrir þá sem við vandann glíma, því offitu fylgir mikil skerðing á lífsgæðum.

Við hefjum þessa umfjöllun í Hafnarfirði, þann 6. júní 2018, á heimili Péturs H. Hansen, framkvæmdastjóra þar í bæ. Pétur var einu sinni grannur og spengilegur ungur maður, æfði sund árum saman með góðum árangri en missti tökin á holdafarinu fyrir áratugum. Hann er búinn að missa heilsuna fyrir vikið.

„Þetta byrjaði með óþarfa áti utan venjulegs matartíma og óhollu fæði“, segir Pétur. „Smátt og smátt bættust við 100 grömm hér og 100 grömm þar og eftir því sem árin liðu, þá gildnaði ég.“ Upp úr aldamótum átti Pétur orðið erfitt með svefn og var greindur með kæfisvefn á hæsta stigi. Hann hefur sofið með svefngrímu á hverri nóttu síðan, en sefur samt aldrei fullan svefn, vaknar stöðugt. Ástæðan sé einföld: „Mig verkjar, mig er farið að verkja í líkamann.“

„Ég gæti ekki farið á Gay Pride eða í menningargönguna í Reykjavík, gleymdu því“ segir Pétur. „Það er ekkert skemmtilegt að vera svona. Hanga bara heima og láta alla hina fara. Maður bara einangrast. Þetta er ekki boðlegt, hvorki mér né fjölskyldunni.“

Pétur með svefngrímu (Mynd úr einkasafni)

Hann er líka með fullan kassa af lyfjum heima við, sem hann þarf að moka í sig til að halda sér gangandi. Hann hefur aldrei tekið það saman hvað þau kosta, hann leggur hreinlega ekki í það. En nú standa vonir til þess að Pétur geti hætt að taka þau öll. Hvernig má það vera? Jú, á morgun á Pétur að fara í magaermaraðgerð á Landspítalanum.

„Það er ekki auðvelt að léttast“

Pétur segist hafa verið við dauðans dyr. „Ég og Hjördís mín fórum út til Luxemborgar í fyrra til að passa barnabörnin okkar. Einn daginn gengum við út á rólóvöll sem ég hafði ekki komið á áður. Það var töluvert langur, mjór stígur niður á róló. Mér leist ekkert á þessa leið niður stíginn. Þegar niður kom þá gat ég engan veginn notið þess að vera með börnunum. Ég kveið svo fyrir að fara upp aftur. Enda reið það mér nánast að fullu. Ég man ekki hve oft ég þurfti að stoppa til að ná andanum. Barnabörnin mín voru svo hrædd um afa sinn og Hjördís mín var verulega áhyggjufull. Hún þurfti að styðja mig upp allan stíginn og svo götuna heim. Þetta var skelfing.“

Pétri var ekið í hjólastól um flugstöðvarnar á leiðinni heim og hann þurfti að vera tengdur við súrefni í fluginu. Þegar heim var komið batnaði ástandið ekkert. Hann stóð á öndinni bara af því að ganga upp tröppurnar heima hjá sér. Hjördís, kona hans, fór með hann á heilsugæslustöðina og skipti þá engum togum að hann var sendur beina leið á Landspítalann með sjúkrabíl.

„Það var ekkert súrefni af viti í blóðinu, lungun full af vatni, reyndar héldu þau að ég væri kominn með hjartaáfall, sem er að vissu leyti rétt, en ekki þannig, hjartað skemmdist ekki.“

Pétur lá á spítala í ellefu daga og var svo boðin meðferð á Reykjalundi. Eftirspurn eftir meðferð þar er mjög mikil og margra mánaða biðlisti. En Pétur var bara í svo slæmu ástandi að hann var settur í forgang og komst bráðlega að í offitumeðferðina. Það var stutt gaman.

„Ég mæti og allt í fína, fyrirlestrar og ýmislegt fróðlegt og gott“ segir hann. „Svo var ganga, út að ganga og hreyfa sig aðeins. Ég kveið alveg rosalega fyrir því, því ég vissi hvað ég átti erfitt með gang. Fljótlega fann ég það að mjaðmirnar byrja að gefa sig, og bakið. Ég er móður. Ég leitaði uppi alla bekki og settist alltaf niður annað slagið og hélt svo áfram. Þar til ég var orðinn skakkur og skældur og átti bara virkilega erfitt með að komast úr sporunum. Þá kom einn starfsmaður og spurði: „Pétur minn, er ekki allt í lagi?“ Ég sagði: „Neeeeei, ég held ekki …“. Þá var hringt á sjúkrabíl fyrir hann og Pétur var lagður inn, aftur. „Ég var orðinn akút, ég var bara kominn fram á brún.“

Magaermaraðgerðir eru fyrir þá sem eru með líkamsþyngdarstuðul yfir 40, þjást sem sagt af skilgreindri offitu, ekki bara því sem kallað er ofþyngd. En má segja að fólk sé að stytta sér leið með því að fara bara í skurðaðgerð? Hvað með gömlu, sígildu ráðin um að borða minna og hreyfa sig meira?

Hildur Thors, læknir á Reykjalundi (Mynd: Arnar Þórisson)

„Það er ekki auðvelt að léttast“ segir Hildur Thors, læknir á Reykjalundi. „Það að vera of þungur er ekki bara það að maður sé latur og borði mikið. Þetta er fjölþættur sjúkdómur og eins og við höfum séð síðustu 30 til 40 ár, þá hefur þessi sjúkdómur sprungið út og tíðnin alls staðar í heiminum hefur aukist mjög mikið. Það segir okkur að það er eitthvað um að vera.“

Farinn að velja lögin í jarðarförina

Pétur er búinn að lýsa því fyrir okkur hvaða afleiðingar það hefur haft að vera svona þungur svona lengi, en hver er ástæðan fyrir því að hann er á annað borð kominn í þessa stöðu? Gerir hann sér grein fyrir því?

Hann svarar því til að það séu ýmsar ástæður fyrir því. Honum finnst gott að borða og fá sér bjór. Hreyfingarleysi og andlegt álag. „Ætli maður éti ekki frá sér særindin og sálarkvalir.“

Pétur segist vera einn af þeim mörgu þúsundum sem hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi. „Það hefur setið í mér lengi og ég gekk með þetta eins og mannsmorð í áratugi“, segir hann. „Það eru ekki mörg ár síðan konan mín vissi af þessu.“

Pétur hefur samt reynt ýmislegt í gegnum tíðina, farið í líkamsræktarátak og reynt að breyta mataræðinu, en svo fatast honum alltaf flugið.

„Þessi járnbrautarteinn er svo mjór að ég var alltaf að detta út af honum“ segir hann. „Þá kom þetta vonleysi. Ég gefst upp, þetta verður bara að vera svona, þá bara fer ég ungur.“

Hildur Thors segir að margir erfðaþættir séu þekktir og að þeir hafi sjálfsagt verið til staðar lengi, „en það sem hefur breyst er umhverfið okkar. Það eru svo margir þættir; mataræði, vinnufyrirkomulag, hreyfing, streita, andleg líðan, þá er eins og kvikni á þessum genum. Þau fara að geta stjórnað svo miklu um okkur.“

Fjölskylda Péturs (Mynd úr einkasafni)

„Maður var svona eins og í...var það ekki Platoon?“ segir Pétur. „Myndinni, þar sem hann er kominn niður á hnén í restina. Nú er ég að deyja bara, það kemur bara að því núna fljótlega. Ég var meira að segja farinn að velja lögin í jarðarförinni minni.“

Eftir að hafa lent inni á spítala aftur, á öðrum degi í offitumeðferðinni, þá var Pétri gerð grein fyrir alvöru málsins, því hann vildi ekki fara í aðgerð. Var hræddur.

„Þá var bara sagt við mig: „Það er best að ég segi þér það bara hreint út að ef þú ekki vilt þiggja hjálpina, ef þú heldur að þú getir gert þetta sjálfur, sem þú veist að þú getur ekki gert, að þá er mjög líklegt að þú sjáir ekki næstu jól.“ Og þetta var bara eins og maður segir, Mike Tyson kjaftshögg og tennurnar með úr. Þá fór ég bara að hugsa um börnin mín, konuna mín, barnabörnin og allt. Vó, bíddu við. Á að fara að éta snittur út á mig fyrir jól?“

„Pétur var náttúrulega orðinn mjög veikur af sinni offitu“ segir Hildur. „Hann var hættur að geta andað almennilega, hann gat eiginlega ekkert hreyft sig og kominn með alls kyns hjartasjúkdóma. Þannig að það var náttúrulega bara einsýnt að hann átti ekki langt eftir. Sem betur fer eru ekki margir svona mikið veikir þannig að yfirleitt þarf maður nú kannski ekki að vera alveg svona hreinskilinn.“

Þegar hann er spurður að því hvaða væntingar hann hafi eftir morgundaginn svarar hann: „Nýtt líf. Það er ekki spurning. Ég er kvíðinn, ég skal alveg viðurkenna það. Svo púkinn hérna aftur í, matarpúkinn, eins og ég kalla hann. Ætlar hann að vera með einhver leiðindi eftir þetta, ætlar hann að heimta hitt og þetta og pína mig? Ég fæ vonandi heilsuna aftur, get farið að lifa eðlilegu lífi með fjölskyldunni.“

„Það er nú sjaldan sem ég segi við fólk: „Mér finnst að þú eigir að fara í aðgerð.“ Af því að þetta þarf að vera ákvörðun hvers og eins. Þetta er svo mikið inngrip“ segir Hildur. „Af því að fólk er að gera breytingu á sínu lífi fyrir lífstíð, það sem eftir er. Það er ekki mitt að ákveða hvort fólk geri það eða ekki.“

Þótt þúsund svona aðgerðir hafi verið gerðar á Landspítalanum frá aldamótum, eru þau hjónin hálfstressuð að morgni aðgerðardagsins. Það er búið að taka myndir sem marka núllpunktinn.

Aðgerðardagur (Samsett mynd: Úr einkasafni og Arnar Þórisson)

200 til 300 grömm á dag

Við lítum næst inn til Péturs hálfum mánuði eftir aðgerðina, 21. júní. Hann er ótrúlega brattur þótt hann hafi bara getað borðað í teskeiðavís undanfarið.

„Matarpúkinn hérna uppi, hann þurfti að gjöra svo vel að bíða“ segir Pétur. Hann segir aðspurður að púkinn hafi ekki verið fúll, frekar að honum hafi verið brugðið. „Svo fór ég núna í skoðun í fyrradag. Allt í orden og það eru komin 11 kíló á hálfum mánuði frá því að ég fór í aðgerðina.“

Hann segist heldur betur finna strax fyrir því að þessi kíló séu farin. Helst þá í mjöðmunum og ökklunum, bakinu. „Ég bý í botnlangagötu, tvær litlar götur sem mynda hring. Áður fyrr gat ég ekki gengið út götuna hálfa án þess að þurfa að stoppa og hvíla mig.“ Nú hefur hann gengið hringinn og orðið bara aðeins móður en það sé ekkert miðað við það sem var og engir verkir í baki, ökklum eða mjöðmum. Allt þetta á aðeins hálfum mánuði. „Ég finn alveg svakalegan mun. Mér finnst bara vera að koma nýtt líf til mín, upp í hendurnar“, segir Pétur.

Lífið hefur tekið stakkaskiptum á nokkrum vikum. Pétur fór fljótlega að geta tekið þátt í daglegu lífi - eins og að fylgja barnabarni á fótboltamót. Svo rætist líka draumurinn um að komast í gleðigönguna. Daníel, sonur Péturs og Hjördísar, er samkynhneigður og Pétur hefur lengi langað til að taka þátt í hátíðinni í Reykjavík, en ekki haft heilsu til þess.

Nú er þetta tekið alla leið, regnbogastrigaskór pantaðir að utan á alla fjölskylduna og frænkur standa í kökubakstri fram á nætur.

Barnabörn Péturs Karen Sveindís Sveinsdóttir og Ísabella Ýr Pétursdóttir (Mynd: Arnar Þórisson)

Þær Karen Sveindís Sveinsdóttir og Ísabella Ýr Pétursdóttir, barnabörn Péturs, svara því til þegar þær eru spurðar að því hvers vegna þær hafi verið að baka: „Út af því að frændinn okkar er gay. Og við erum að baka hana af því að hann er frændinn okkar og við elskum hann!“

Þegar þarna er komið, í ágúst 2018, er Pétur að losa sig við 200 til 300 grömm á dag. „Ég stóð í stað í smástund. Þá áttaði ég mig á því að ég borðaði aðeins of mikið“ segir hann. „Tengdasonur minn, hann tók mig í gegn þegar hann kom til Íslands. Þá hafði ég bara dottið út af lestarteininum. Svo ég vigta ofaní mig allt sem ég borða, bara allt.“

Það hafa heldur ekki verið neinar grillsteikur og bjór í sumar, þeir tímar eru liðnir. Áfengi er út úr myndinni og til að byrja með má hann aðeins borða mjúkan mat og ekki of mikið af honum. Ef allt gengur mjög vel er honum óhætt að fá sér hálft rauðvínsglas með jólamatnum, segja sérfræðingarnir honum.

Verðlaunin fyrir þessa miklu breytingu á lífsstíl, eru þau að geta farið með allri fjölskyldunni til Reykjavíkur að fagna fjölbreytileikanum. Að þurfa ekki að hanga einn heima því líkaminn er að gefa sig.

Of gott til að vera satt?

Þannig líður tíminn og þegar nálgast jól förum við og hittum Pétur á vinnustaðnum, fjölskyldufyrirtækinu Marko merkjum. Þar vinna þau hjónin saman, og elsti sonur þeirra, Pétur. Það er strax greinilegt að áfram hefur gengið vel, því bæði er Pétur greinilega í miklu betra formi og svo skilar þetta aukna þrek sér greinilega víða.

Soffía Hjördís Guðjónsdóttir, eiginkona Péturs (Mynd: Arnar Þórisson)

„Þetta er farið að vera svolítið pirrandi, sko“ segir Hjördís. „Hann er kominn inn í alla skápa í eldhúsinu og raðar öllu í box og við finnum ekki neitt. Það er allt orðið svona skipulagt, við erum alveg að verða kreisí“, segir hún og hlær.

Við ætlum að fara með Pétri í smá bíltúr upp á Reykjalund og heimsækja bæði bekk og konu, sem hann á mikla þökk að gjalda. En er ekki erfitt að halda aftur af sér á þessum árstíma? Freistingarnar alls staðar og hefðirnar sem fela í sér mikla neyslu á óhollustu?

„Nei,“, segir Pétur. „Það hafa verið konfektmolar á borðum hjá mér og bjór og svona. Krakkarnir hafa verið að fá sér franskar frá Kentucky eða eitthvað“ segir Pétur. „Ég lít ekki við þessu.“ Steikin sem hann hefur alltaf borðað frá því hann var krakki verður ekki á hans diski. „Í staðinn ætla ég að fá mér hnetusteik.“ Hann segir enda að matarpúkarnir séu í fýlu á sitt hvorri öxlinni, en hann sé bara hættur að hlusta á þá.

Við keyrum upp að Reykjalundi og finnum bekkinn þar sem Pétur sat, nær dauða en lífi eftir 200 metra göngu, í mars í fyrra. „Þarna er hann. Spurning hvort ég fái ekki að kaupa þennan bekk? Setja hann út í garð, til minja“ segir Pétur. Níu mánuðum seinna myndi hann treysta sér til að ganga upp í Hvalfjörð án þess að stoppa. Hann var 186 kíló þegar hann byrjaði þessa vegferð. Fyrst datt honum í hug að setja sér það markmið að komast niður í tveggja stafa tölu, 99 kíló. Það var hins vegar of stór, andlegur hjallur, svo hann skipti um aðferðafræði og tók fimm kíló í einu. Hverjum áfanga fagnað.

Þetta hefur mjatlast með því að borða 1100 – 1300 hitaeiningar á dag. Það er töluvert undir því sem mælt er með fyrir fullvaxinn mann, en eins og Pétur segir, þá átti hann svo mikið á lager sem hann hefur verið að selja út af. Hann fullyrðir að hann sé ekki sísvangur, heldur líði honum ótrúlega vel.

Pétur gengur í átt að bekknum (Mynd: Arnar Þórisson)

Pétur er núna búinn að losa sig við þriðjung líkamsþyngdarinnar og vegur rétt um 124 kíló. 62 kíló af 186. Sem samsvarar heilum fréttamanni Kveiks. Hann gengi tæpast upp í Hvalfjörð með hana á bakinu.

Þetta er næstum of gott til að vera satt. Allt gengur eins og best verður á kosið. Er þetta þá bara svona töfralausn? „Nei“, segir Hildur Thors. Í fyrsta lagi þarf fólk að vera undirbúið andlega fyrir aðgerðina og búið að stilla höfuðið rétt, tilbúið í meiriháttar breytingar á sínum lífsstíl og hins vegar þarf að muna að þetta er langhlaup. Pétur tók til í eigin höfði í tvo mánuði fyrir aðgerð og mátti ekki minna vera að hans sögn.

„Fyrsta eina og hálfa til tvö árin þá gengur þetta svolítið svona átakalaust, þetta bara gerist“ segir Hildur. „Líkaminn er að finna sér nýtt jafnvægi og fólk þarf kannski ekkert mjög mikið að hugsa. Svo eftir tvö ár þá breytist eitthvað. Þá þyngjast flestir aðeins aftur. Við vitum til þess að fólk hafi þyngst upp í fyrri þyngd. Það er þarna sem skiptir öllu máli að hugsa um sjálfan sig. Ég er ekki bara að tala um að borða og hreyfa sig, ég er líka að tala um að sofa á réttum tíma, vinna með streitu og allt atferli. Ná þannig nýju jafnvægi í lífinu, til þess að aðgerðin geti haldið áfram að vinna með manni.“

Þetta hljómar allt mjög skynsamlega. En eins og allir vita sem hafa strengt áramótaheit, fullir eldmóðs í byrjun nýs árs, þá getur verið mjög erfitt að halda út, að mæta áfram í ræktina fimm sinnum í viku þegar er komið fram í maí. Ekki síst ef maður er einn.

Hvernig er eftirfylgnin?

Hildur segir þá sem fara í aðgerð á Landspítalanum halda áfram í eftirliti þar fyrstu tvö árin. „Þeir hitta þar hjúkrunarfræðing, næringarráðgjafa og lækni. Svo þegar þau telja að það sé óhætt að sleppa af þeim hendinni, þá er ætlast til þess að heilsugæslan taki við. Það þýðir árlegt eftirlit það sem eftir er ævinnar. En svo allir þeir sem fara eitthvert annað í aðgerðir, það er kannski ekki nógu góður strúktúr utan um þá. Og það er það sem við óttumst svolítið til framtíðar.“

Pétur tekur undir þetta. Hann hefur ríghaldið í ráðleggingar teymisins á spítalanum, borðað nákvæmlega eins og honum er sagt og mætt í allar skoðanir. Hann er sannfærður um að hann hefði dottið út af þessum mjóu lestarteinum ef ekki hefði verið fyrir stuðninginn og eftirfylgdina. Hann tók sig loks til og athugaði hvað lyfjaskammturinn sem hann var að taka fyrir aðgerð kostaði, og komst að því að Sjúkratryggingar Íslands borguðu um hálfa milljón króna á ári, bara í lyfjunum hans. Aðgerðin verður því fljót að borga sig upp, bara með því.

Það hefur hægst á þyngdartapinu hjá Pétri síðustu mánuði, enda er hann að reyna að byggja upp vöðva í stað fitunnar sem fer. Hann er nýfarinn að æfa hjá einkaþjálfara í Sporthúsinu, eitthvað sem var víðsfjarri honum fyrir svo sem eins og einni meðgöngu síðan.

„Annað sem hefur tekið miklum stakkaskiptum í mínu lífi er að nú get ég farið í göngutúra, hjólatúra um bæinn minn, hugur minn er skýrari, þessi svarta hula sem var byrjuð að leggjast yfir hugsun mína, henni hefur verið svipt af og sólin skín ofan í kollinn minn. Ég segi það oft í gríni við vini mína að það er allt orðið nýtt í karlinum nema kennitalan. Hún er ekki til sölu!“, segir Pétur glaður.

„Mitt helsta stuðningsfólk, sem hefur hvatt mig áfram og gefið mér góð ráð eru yngri dóttir mín, hún María Gróa og eldri tengdasonur minn hann Svenni. Að sjálfsögðu fæ ég orð í eyra frá öðrum fjölskyldumeðlimum á heimilinu ef ég er við það að fara út af sporinu. Það er bara fínt að ég fái skammir ef ég er að verða óþekkur. Þessi matarfíkn er nefnilega sjúkdómur sem fólk verður að viðurkenna fyrir sjálfu sér þegar það ætlar að taka sig á í lífinu. Það er eitt af lykilatriðunum í þessu ferli.“

Þótt breytingin á Pétri snúist fyrst og fremst um heilsu og heilbrigði, þá væri hann alveg dofinn ef hann hefði ekki gaman af hefðbundinni buxnamynd, 10 mánuðum eftir að við hittum hann fyrst!

Pétur með buxurnar sem hann notaði áður en hann fór í aðgerðina og buxur sem hann notar í dag (Mynd: Arnar Þórisson)