*

Ákváðu að greiða ellilífeyris­þegum tæplega helmingi lægri vexti

Tryggingastofnun þurfti að endurgreiða ellilífeyrisþegum skerðingar á ellilífeyrisgreiðslumsem stofnun mátti ekki halda eftir, vegna mistaka Alþingis. Ákveðið var að greiða ekki dráttarvexti vegna þessa líkt og dómur í málinu kveður á um.

Um er að ræða rúmlega sex milljarða endurgreiðslu í heildina sem deilist á milli tugþúsunda ellilífeyrisþega. Um 800 milljónir af þessum milljörðum eru vextir, sem ákveðið var á fundi Tryggingastofnunar með fulltrúum félagsmálaráðuneytisins, að ættu að vera 5,5 prósent en ekki dráttarvextir líkt og í dómnum.

Peningarnir sem Tryggingastofnun hélt eftir án þess að hafa til þess lagaheimild voru vegna ellilífeyris fyrstu tveggja mánaða ársins 2017. Landsréttur dæmdi í málinu í maí á síðasta ári og Hæstiréttur hafnaði að taka málið fyrir, eins og Tryggingastofnun fór fram á.

Ein af þeim sem fyrst áttuðu sig á því að lagaheimildina hafði vantað var Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Það var að hennar frumkvæði sem höfðað var mál fyrir dómstólum til að fá skerðingunum hnekkt.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var forsprakki málshöfðunar vegna skerðinganna. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„ Þegar verið var að afnema krónu á móti krónu skerðingu og breyta lögunum, almannatryggingalögunum sem snýr að eldri borgurum, þá fellur út heimildin sem heimilar skerðingu vegna réttinda úr lífeyrissjóðum. Þannig sú heimild er ekki til staðar í janúar og febrúar 2017,“ segir hún.

Flokkur fólksins, þar sem Inga gegnir formennsku, ákvað að reyna að láta á þetta reyna fyrir dómstólum„Ég hef gjarnan sagt að mér ofbýður þessi valdnýðsla sem mér finnst svo gjarnan vera frá valdhöfunum gagnvart borgurunum,“ segir hún um ástæður þess.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttadómari, rak málið fyrir dómstólum.

„Tryggingastofnun borgaði ekki eftir lögunum heldur eftir því sem stofnunin taldi lögin hefðu átt að vera,“ segir Jón Steinar.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður rak málið fyrir dómstólum. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Við völdum úr einn einstakling til að reka hans mál sem prófmál. Það var nú móðir Ingu, Sigríður, sem varð málsaðili og dómkröfurnar í málinu voru ekki upp á nema 40 þúsund eða eitthvað svoleiðis þó að hagsmunirnir hafi verið upp á 5 eða 6 milljarða.“

Það var mamma Ingu, Sigríður, sem var valin til að gerast málsaðili og gerði kröfu á hendur Tryggingastofnunar fyrir um það bil 40 þúsund krónur. Dómur í hennar máli átti svo að hafa fordæmi fyrir alla aðra í sömu stöðu.

Dómurinn kvað á um dráttarvexti

Enn er verið að leysa úr síðustu endurútreikningunum og greiðslunum vegna þessa máls. Enda voru margir undir, rétt um það bil 32 þúsund manns.

Málið kostaði ríkið líka háar fjárhæðir. Samkvæmt minnisblaði sem Tryggingastofnun gerði fyrir félagsmálaráðherra þurfti að endurgreiða 4,8 milljarða vegna ellilífeyrisins. Ákveðið var að endurgreiða 300 milljónir til viðbótar vegna heimilisuppbótar ellilífeyrisþega líka, þar sem sömu skerðingar höfðu verið gerðar þar.

Vaxtagreiðslurnar voru svo 800 milljónir.

Vextirnir sem dæmdir voru í prófmálinu voru dráttarvextir, upp á rúm 10 prósent. Það voru þó ekki vextirnir sem greiddir voru til allra hinna 32 þúsund lífeyrisþeganna. Þeir fengu aðeins 5,5 prósenta vexti, sem talað er um í almannatryggingalögum.

Hefði hver og einn eldri borgari átt aðild að dómsmálinu mætti ætla að þeir hefðu fengið tæplega tvöfalt hærri vexti.

Hjónin Hjördís Björg Kristinsdóttir og Ólafur Kristófersson. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Upphæðin lág en skiptir máli

Hjördís Björg Kristinsdóttir og eiginmaður hennar Ólafur Kristófersson eru meðal þessara 32 þúsund Íslendinga sem fengu greidda 5,5 prósent vexti á kröfur sínar.

„Auðvitað munar mörgum um þetta og öllum sjálfsagt um þessar krónur en réttlæti finnst mér vera númer 1 2 og 3 og mér finnst svo oft brotið á okkur eldri borgurum. Og að við höfum ekki fengið dráttarvexti borgaða, nema bara einstaklingurinn sem að léði nafn sitt í þetta málaferli,“ segir Hjördís Björg.

„Það er misræmi,“ segir Ólafur.

Fyrir hvern og einn ellilífeyrisþega eru þetta ekki ýkja stórar fjárhæðir. Nokkrir tugir þúsunda fyrir tveggja mánaða tímabil. Vextirnir eru heldur ekki háir, fyrir hvern og einn, í krónum talið, hvort sem það eru 5,5 prósent eða dráttarvextir.

Það eru hins vegar rétt um 32 þúsund einstaklingar sem áttu rétt á óskertum greiðslum, og kostnaðurinn nam samtals um 6,1 milljarði króna. Þar af 800 milljónum í vexti. En, hefðu líklega verið um 700 milljónum hærri, hefðu dráttarvextir verið greiddir.

„Þó að þetta séu lágar upphæðir, þá skiptir þetta máli, réttlætislega séð. Og hjá okkur eldri borgurum, kannski hjá fólki sem er með meðalgreiðslur úr lífeyrissjóði, þá gengur þetta ágætlega á meðan ekkert kemur uppá. En það þarf ekki annað en þvottavél eða ískápur hrynji, komi óvænt útgjöld, þá getur fjárhagurinn hjá okkur farið úr jafnvægi,“ segir Ólafur um fjárhæðina.

Hjördís tekur í sama streng

„Þó að við séum ekki undir fátækramörkum, við hjónin. Það eru náttúrulega margir sem eru undir því, við vitum það. En það má ekkert út af bera, þá er bara, þá þarf að horfa í hverja krónu næstu mánuðina,“ segir hún.

Gæti skert aðrar greiðslur

Í hvert sinn sem greiðslur Tryggingastofnunar eru teknar upp getur það haft keðjuáhrif á aðra útreikninga; svo sem skattgreiðslur. Vaxtagreiðslur, jafnvel þótt þær komi frá Tryggingastofnun, geta svo líka haft áhrif á ellilífeyrisgreiðslurnar. Það gera til dæmis dráttarvextir en ekki vextir samkvæmt almannatryggingalögum. Þessir margnefndu 5,5 prósenta vextir.

Þetta hefur þó ekki áhrif á afstöðu Hjördísar og Ólafs.

„Ég sé ekki að það breyti nokkuð afstöðunni. Einstaklingurinn sem höfðaði málið, hann fékk greidda dráttarvexti, og hvers vegna þá ekki hinir?“ spyr Ólafur og Hjördís bætir við: „Auðvitað áttum við öll að fá borgaða dráttarvexti.“

Það er ekki óumdeilt hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að greiða bara 5,5 prósenta vexti almannatryggingalaga en ekki dráttarvexti. Það er hins vegar ekki hlaupið að því að fá að vita hver rök stofnunarinnar voru fyrir ákvörðuninni.

Það verður þó væntanlega skorið úr því fljótlega. Málið hefur verið kært til úrskurðarnefndar velferðarmála. Samkvæmt upplýsingum Kveiks vísaði nefndin þessu beint inn í ráðuneytið. En þar kemur enn ein flækjan.

Arnar Þór Sævarsson, stjórnarformaður TR og aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. (Mynd Kveikur/Ragnar Visage)

Ákvörðun tekin í samráði við ráðuneytið

Í fundargerð af fundinum þar sem ákvörðunin var tekin kemur fram að þar hafi verið fjórir fulltrúar félagsmálaráðuneytisins. Þar á meðal Arnar Þór Sævarsson, aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra. Arnar er líka stjórnarformaður Tryggingastofnunar, skipaður af Ásmundi.s

Þetta er eina gagnið sem fæst afhent um þessa ákvörðun.

Forstjóri Tryggingastofnunar vill hvorki veita Kveik viðtal né svara spurningum um hver ákvað hvaða vexti skyldi greiða. Samkvæmt heimildum Kveiks telur starfsfólk þar að ákvörðunin hafi verið tekin í samráði við ráðuneytið. Hvorki Arnar Þór né Ásmundur Einar vilja veita Kveik viðtal og vildi Arnar ekki staðfesta hver tók ákvörðunina. Samkvæmt heimildum Kveiks vilja starfsmenn ráðuneytisins ekki kannast við þetta samráð.

Það eina sem liggur fyrir er að ákveðið var að borga 5,5 prósenta vexti en ekki dráttarvexti.

Dómurinn skýr

Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segist setja spurningamerki við hvernig hægt var að ákveða að greiða aðra vexti en dómurinn kvað á um.

„Af því að dómurinn er alveg skýr og dómurinn snýr ekki bara að þessari einu manneskju heldur er þetta prófmál. Það er líka búið að benda á það að stofnanir og stjórnvöld séu of oft svona að þreyta almenning. Að einhvernvegin segja „ef þú ætlar að reyna að fá þetta þá bara verður að fara í mál“. Það er búið að fara í mál þarna og dómurinn var skýr,“ segir hún.

Helga Vala Helgadóttir er formaður þeirrar þingnefndar sem fylgist með hvernig ríkið fer með dóma eins og þann sem varðar ellilífeyrisgreiðslurnar. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Ef að þau hefðu viljað byggja á þessu lagaákvæði þar sem bara er talað um vexti þá hefðu þau átt að mótmæla dráttarvaxtakröfunni. Hún stendur. Dómurinn segir að það eigi að borga dráttarvexti.“

Jón Steinar bendir á að þeirri kröfu hafi ekki verið mótmælt af Tryggingastofnun.

„Það er auðvitað spurning gagnvart öllum öðrum bótaþegum að Tryggingastofnun krafðist ekki sýknu af dráttarvaxtakröfunni,“ segir hann.

Nefndin sem Helga Vala stýrir hefur meðal annars það hlutverk að fylgjast með að stjórnvald bregðist rétt við dómum sem þessum. „Og þar hefur líka ríka eftirlitsskildu, umboðsmaður alþingis, sem hefur bent líka á þetta, að stjórnvöld séu of gjörn á að þreyta almenning einhvernvegin, að reyna að fá almenning til að leita réttar síns í stað þess að hafa þessa frumkvæðisskildu að  leiðrétta hjá almenningi og hjá öllum þeim sem að málið varðar að eigin frumkvæði,“ segir hún.

„Í þessu tilviki finnst mér það einhvernvegin augljóst að það er verið að ýta hópnum í að leita réttar síns með þessa dráttarvexti.“

En ætlar nefndin að taka málið upp?

„Já ég tel fulla ástæðu til þess.“

Hjónin telja koma til greina að höfða nýtt dómsmál. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Ólafur segir að það komi vel til greina að fara í mál. Hjördís tekur undir það.

„Það væri áhugavert að fara niður í tryggingastofnun og segja hvort maður eigi ekki að fá þetta greitt og athuga hvað kæmi út úr því. En ég hef ekki það mikla trú á tryggingastofnun að hún muni bara segja „gjöruð svo vel, hérna er þetta, fyrirgefðu“,“ segir hún.

„Þetta er réttlætismál, ekki brjóta svona á okkur. Hættið þessu.“