Afdrifaríkt afskiptaleysi

Ungur maður var nauðungarvistaður á geðdeild í ágúst 2017, metinn í sjálfsvígshættu af geðlækni. Líta átti til með honum á minnst fimmtán mínútna fresti. Hann var látinn afskiptalaus í allt að þrjár klukkustundir og svipti sig lífi á þeim tíma.

Í ágústmánuði í fyrra kom fjölskylda Hafliða Arnars Bjarnasonar saman í kirkjugarðinum á Akranesi. Systkini hans, sem búsett eru erlendis voru á landinu og fjölskyldan vildi nýta tækifærið, koma saman og setja legstein á gröf Hafliða. Ástæða þess að þessi dagur, 11. ágúst, varð fyrir valinu er sú að þá var ár liðið frá því að Hafliði svipti sig lífi inni á geðdeild Landspítalans. Eitthvað sem ætti ekki að gerast – en gerist samt.

Fjölskylda Hafliða við leiði hans (Mynd: Arnar Þórisson)

Það kann að vera að einhvern rámi í fréttir af atburðinum. Hafliða hafði verið leitað sólarhringinn áður.

Hér verður saga Hafliða rakin, en hún minnir því miður á sögu alltof margra íslenskra ungmenna sem ekki hafa séð aðra útleið en þá að stytta sér aldur. Hins vegar ætlum við að leita svara við því hvernig það gat gerst að ungur maður sem var nauðungarvistaður, metinn í sjálfsvígshættu og vistaður á geðdeild, gat stytt sér aldur, einmitt þar.

Hver var Hafliði?

Hafliði Arnar var fæddur árið 1993 og kemur úr stórri fjölskyldu, yngstur fimm systkina. Það var í sjálfu sér ekkert sem benti til þess að hann ætti eftir að feta aðra slóð en eldri systkinin, sem öll hafa plumað sig vel í lífinu.

Hafliði og fjölskylda hans á góðri stund (Mynd: Úr einkasafni)

„Hann kemur bara úr kærleiksríkri og góðri alþýðufjölskyldu. Við erum bara íslenskt alþýðufólk og erum mjög stolt af því.“ segir Ólöf Aðalsteinsdóttir, móðir Hafliða.

Fjölskyldan bjó á Patreksfirði þar til Hafliði var fimm ára, en þá fluttu þau suður í Kópavog og hann fór í Lindaskóla. Hann æfði sund og var í ágætu formi, en var samt svona aðeins búttaður eða mjúkur unglingur, eins og mamma hans segir. „Honum fannst gott að kruða“, segir Ólöf mamma hans.

Hafliði fór svo að æfa í Sporthúsinu hjá einkaþjálfara og fór í framhaldinu að æfa lyftingar. „Svo finn ég það út þarna rétt eftir að hann varð 18 ára, að hann er að nota stera“ segir Ólöf.

Ólöf vissi sem var að það stoðar lítt að predika, en reyndi þess í stað að höfða til ábyrgðar Hafliða á sjálfum sér. Hann sagði henni að hún þyrfti ekkert að vera hrædd, hann vissi alveg hvað hann væri að gera.

Hafliði Arnar Bjarnason (Mynd: Úr einkasafni)

Hafliði hafði ákveðið að fara í MK og læra til bakara eins og bróðir hans og átti unnustu sem hann hafði verið með frá sextán ára aldri. En svo breyttust hlutirnir hratt. Það slitnaði upp úr sambandinu og það fór að halla undan fæti 2013. Ólöf sá hann svo fyrir tilviljun í hópi ungmenna í grennd við heimili þeirra, sem voru að reykja gras. Hún bar þetta undir hann þegar hann kom heim og spurði einfaldlega hvað kæmi honum til að byrja á þessu núna, þegar hann væri að verða tvítugur.

„Ég bara kolféll fyrir þessu“, sagði Hafliði. „En ég passa mig, mamma, auðvitað passa ég mig. Ég veit alveg hvað ég er að gera.“

Það fór því miður svo að Hafliði gat ekki passað sig. Hann fór um haustið í útskriftarferð með vinahóp, en var þó ekki að útskrifast sjálfur.

„Þau fara til Spánar og þetta er bara fíkniefnaveisla, þessar ferðir“ segir Ólöf. „Það er bara verið á einhverju hóteli og úti á næturlífinu. Eftir að hann kemur úr þessari ferð, þá finnst mér bara stóru tærnar snúa aftur, sko. Hann er bara eins og hann sé ekki í þessum heimi.“

Hafliði á sólarströnd (Mynd: Úr einkasafni)

Hann fór samt aftur í skólann eftir áramótin, þótt hann væri þar stundum í vímu. Svo kom verkfall og hann ákvað að hætta, sagðist aldrei geta unnið þetta upp.

Neyslan eykst

„Þetta er 2014 og það er bara svona: neysla, neysla, neysla“ segir Ólöf. „Svo einhvern tímann um sumarið segi ég við hann: „Hafliði minn, ertu alveg búinn að týna sjálfum þér, elskan mín?“

Þetta fékk aðeins á hann og hann fór í meðferð, en hélst ekki edrú lengi í einu. Vorið 2017 virtist hann þó vera farið að langa heim, komast til sjálfs sín aftur. Hann sinnti systkinabörnunum og var í meiri samskiptum en áður. Hann var þó í mikilli neyslu um verslunarmannahelgina og kom þá heim til móður sinnar, í miklum niðurtúr og vanlíðan. „Hann hættir þarna bara“ segir Ólöf. „Hann var að nota kókaín og gras, kannabis. Hann segist bara vera hættur.“

Fráhvörfin voru mikil. Hann svaf lítið sem ekkert þessa daga, taugarnar voru þandar til hins ítrasta, hann þjáðist af miklu ofsóknaræði og Ólöf var undir miklu álagi.

„Hann er samt alltaf að reyna að finna ástæðu til að fara út“ segir Ólöf. „Meðal annars segir hann mér þarna að hann ætli að taka líf sitt. Hann geti ekki lifað lengur, þetta sé ekki hægt. Hann sé búinn að koma þannig fram við svo marga að hann geti ekki lifað lengur, þetta bara sé ekki hægt.“

Ólöf H. Aðalsteinsdóttir, móðir Hafliða (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Þá segi ég við hann: „Hafliði minn, það er alltaf til einhver leið. Ég trúi því ekki að þú sért búinn að varða þína leið þannig að þú eigir ekki afturkvæmt í lífinu. Það er alltaf til lausn, við hljótum að geta fundið aðstoð.““

Ólöf vissi hreinlega ekki alveg hvað hún átti að gera með son sinn í þessu ástandi, en spurði hvort hann vildi að þau færu niður á geðdeild, þar sem hann gæti mögulega fengið aðstoð til að bæta líðanina. „Ef ég fer þangað inn, þá kemst ég aldrei lifandi út“, sagði hann þá. „Hann sagði þetta við mig, ég er ekki að búa þetta til.“

Örlagaríkur dagur

Síðdegis, miðvikudaginn 10. ágúst, halda Hafliða engin bönd og þau fara út að hjóla, mæðginin. Hún vildi helst ekki sleppa honum úr augsýn í þessu ástandi. Það fór þó svo að þegar hún taldi þau vera á heimleið, þá sneri hann hjólinu við og hélt sína leið án þess að hún fengi nokkuð að gert. Þegar Ólöf var komin heim, sendi hann henni þessi einföldu skilaboð: „Ég elska þig, mamma mín.“

Á hjóli (Mynd: Freyr Arnarson)

Þetta var um sexleytið. Hafliði svaraði ekki í símann þegar hún reyndi að hringja, svo Ólöf fór til lögreglunnar í Kópavogi, og sagði frá honum. Þar var henni tekið vel og lögreglan gat sigtað út símann hans. „En þá hafði hann hent símanum frá sér þarna í fjöruna fyrir neðan líknardeildina og gekk í sjóinn þar. En hætti svo við, því hann sagði að það hefði verið kallað í sig og honum sagt að snúa við. Og hann tók hjólið og fór og hjólaði alveg upp á Kjalarnes.“

Þá var búið að lýsa eftir honum. Einhver góðviljaður tók hann upp í í Hvalfjarðargöngunum, þar sem hann var á gangi, sjóblautur á sokkaleistunum. Hann var á leið upp á Akranes, þar sem bróðir hans býr með fjölskyldu sinni. Starfsfólk í gjaldskýlinu hringir svo í lögregluna þar, og lætur vita af því að það sé ungur maður við gangamunnann að veifa eftir aðstoð. Lögreglan kemur og tekur hann upp í, en áttar sig ekki á því að þetta er maðurinn sem er leitað, þrátt fyrir útganginn á honum. „Ég er búin að spyrja mig oft að því hvað felst í starfi lögreglunnar“ segir Ólöf. „Þarna er hann bara illa til reika og eitthvað og þeir hleypa honum bara út eins og ekkert sé, þótt það sé búið að lýsa eftir honum…“

Hún hefði viljað að þeir hefðu farið með hann á sjúkrahúsið á Akranesi og beðið lækni um að tala við hann. Að honum hefði að minnsta kosti verið boðið það. „Ef hann hefði sagt nei, þá náði það ekki lengra“ segir Ólöf. „Þeir geta svo sem sagt mér í dag að hann hafi sagt nei, en honum var ekkert boðið þetta.“

Hvalfjarðargöng (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Hafliði fór að heimili Hilmis, elsta bróður síns og reyndi að komast inn. Hilmir var þá á leið heim frá Færeyjum. Nágrannar hringdu í lögreglu þegar þeir sáu hann fara inn um glugga í þvottahúsinu. Þegar hún kom var hann háttaður ofan í rúm og sofnaður, loksins, eftir að hafa vakað sólarhringum saman á niðurtúrnum. Hafliði bað lögregluna um að fá að hringja í bróður sinn til að fá staðfestingu þess að hann mætti vera þarna og bíða heimkomu hans. Það var auðsótt af hálfu Hilmis, sem var glaður að heyra í litla bróður sínum heilum á húfi.

„Lögreglan fer út í bíl, kemur aftur eftir smástund því þá eru þeir loksins búnir að gera sér grein fyrir að þetta er sá sem verið er að lýsa eftir“ segir Ólöf. „Þá var offorsið svo mikið að ná honum að hann mátti ekki einu sinni fara í sturtu. Mátti ekki klára að skola af sér sjóinn.“

Andað léttar

Lögreglan flutti Hafliða á bráðamóttökuna í Fossvogi og þaðan var hann sendur á geðdeild. Hann var nauðungarvistaður í þrjá sólarhringa og geðlæknir mat hann í sjálfsvígshættu. Hafliði var þó ósáttur og leið illa á deildinni. Þegar foreldrar hans fóru að hitta hann, sagðist hann vilja komast út, það væri ekki rétt að halda honum þarna, það væri hvort eð er ekkert verið að gera fyrir hann. „Ég bara vinglast hérna um.“

Þegar móðir hans spurði hvort honum hefðu ekki verið gefin einhver lyf neitaði hann því.  „Samt vissu þeir að hann var í fráhvörfum. Þeir vissu hvenær hann notaði síðast og allt þetta“ segir Ólöf.

Eftir að þau eru farin hringir Hafliði aftur og biður Ólöfu að koma aftur. Þær mæðgur, Ólöf og systir Hafliða, fara til þess fundar og hann lætur þær fá handskrifað bréf. Að því búnu fara þær aftur heim.

Hafliði hringir svo enn í móður sína klukkan rúmlega átta um kvöldið. Hann segist bara hafa viljað spjalla aðeins, vita hvað hún væri að gera og svona. Ólöf var þá einmitt að þvo fötin hans og gera klárt fyrir heimkomu sonarins. Hún býðst til að líta til hans aftur. „Nei, nei. Þetta er bara allt í góðu“ svarar Hafliði, „mig langaði bara aðeins að heyra í þér, mamma mín. Ég ætla að kveðja núna.“

Þegar hún er spurð að því hvort hún hafi verið búin að lesa bréfið frá honum þegar hann hringdi svarar hún því neitandi: „Ég var samt sko…kannski hélt ég bara að hann myndi ekki gera svona. Að hann væri kannski kominn þar að hann væri búinn að finna það út að fjölskyldan væri það dýrmætasta sem hann ætti í lífinu.“

Fjölskyldan andaði öll léttar og var fegin að Hafliði væri kominn í öruggt skjól. Það var sem sagt frekar létt yfir þeim að kvöldi þessa langa, erfiða dags.

Af geðdeild LSH (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Kvöldið áður hafði rannsóknarlögreglumaður komið heim til Ólafar til að fá upplýsingar um Hafliða og mynd af honum, vegna leitarinnar. Hún átti ekki von á því að sjá hann aftur í bráð, en svo var hún vakin upp af værum blundi.

„Ég er ekki alveg viss um hvað klukkan var, milli hálftvö og tvö, þá hringir dyrabjallan hjá mér“ segir Ólöf. „Þetta var þessi rannsóknarlögreglumaður. Og ég segi: „Bíddu, hvað ert þú að gera hingað, núna?““ Hann svarar því til að hann þurfi að tala við hana. „Hann var svo skrítinn maðurinn, mér datt fyrst í hug hvort hann væri drukkinn“, segir Ólöf, „af því að hann var svo allt öðruvísi heldur en kvöldið áður.“ Rannsóknarlögreglumaðurinn sest inn í eldhús og tilkynnir henni andlát Hafliða. „Og ég bara, bíddu, er hann ekki inni á geðdeildinni?“ segir Ólöf. „Hvernig gat hann gert þetta þar? Það kom enginn prestur með honum. Hann var bara einn á ferð, rannsóknarlögreglumaðurinn, enginn frá spítalanum eða neitt“ segir Ólöf og heldur áfram: „Enda er þetta áfall fyrir spítalann, en ekki fjölskylduna. Okkar upplifun er sú.“

„Mér finnst þetta næstum mannvonska“

Foreldrar Hafliða fóru á spítalann að morgni og vildu sjá stofuna þar sem hann hafði dvalið. Það reyndist ekki mögulegt, en þau voru hins vegar boðuð á fjölskyldufund með stjórnendum geðdeildarinnar.

Af geðdeild LSH (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Fjölskyldunni var sagt að hverjum steini yrði velt við til að komast að því hvernig þetta gat gerst og hvaða úrbætur þyrfti að gera til að koma í veg fyrir að atburður sem þessi gæti gerst aftur. Þau yrðu upplýst um ferlið og fengju að fylgjast með úrbótunum.

Fjölskylda Hafliða er bæði reið og sár yfir því hvernig samskiptum við spítalann hefur verið háttað síðan, eða samskiptaleysi, öllu heldur. Prestur geðdeildarinnar hefur verið í reglulegu sambandi við þau, en enginn stjórnenda.

„Ég hef ekki haft geð í mér til að fara á einhverjum hnjánum þarna niðreftir“ segir Ólöf. „Skilaboðin sem við höfum fengið, að mér finnst, er að þetta var áfall fyrir spítalann, það var áfallateymi fyrir starfsfólkið og bara alls konar. En við gátum bara étið úr nefinu á okkur og bara reddað okkur sjálf.“ Þetta sé óásættanleg framkoma. „Ég get ekki sætt mig við það að akkúrat á þessarideild sé þetta svona“ segir hún. „Þetta er fólk sem stærir sig af því að þetta er fagfólk og er búið að mennta sig og talar með óvirðingu um „ófaglærða fólkið“ - það er sko skör neðar en faglærða fólkið. Kannski svíður mér þetta svona því ég er ófaglærð, en ég er bara mjög stolt af því að vera íslensk alþýðukona. Þær þurfa líka að vera til.“

Spítalinn réðst í að gera innri rannsókn, svokallaða rótargreiningu, til að komast að því hvað hefði misfarist. Sú skýrsla var kynnt aðstandendum í desember 2017.

Túlkun Ólafar á þessari skýrslu er sú að þarna hafi ekki átt sér stað nein mistök. „Það var þarna bara í gangi vítavert kæruleysi.“ Geðlæknir hafði sett Hafliða á kortérsgát, sem þýðir að starfsmaður átti að gæta að honum á fimmtán mínútna fresti, hið minnsta.

Að sögn Ólafar er hins vegar hægt að lesa úr deildarskýrslunum að allt að þrír klukkutímar hafi liðið frá því að hann fer inn á stofu og þar til einhver reynir að komast þar inn aftur. „Það sem er enn alvarlegra í þessu finnst mér, er að það eru vaktaskipti á þessum þremur klukkutímum. Þetta er bara mannaskuld að hann deyr þarna“ og hún spyr: „Til hvers var þá verið að nauðungarvista hann og til hvers var verið að setja hann á þessa vakt?“

Af geðdeild LSH (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Nú er liðið rúmt ár frá því að fjölskyldunni var kynnt skýrslan og þó nokkur listi yfir umbætur sem þyrfti að fara í. Rétt fyrir síðustu jól ritaði Ólöf yfirlækninum svo bréf og lýsti sinni upplifun og líðan. Í kjölfarið var fjölskyldan boðuð á fund með stjórnendum deildarinnar til að kynna þeim þær úrbætur sem gerðar hafa verið. Það eru, að sögn Ólafar, fyrstu samskiptin frá fjölskyldufundinum í ágúst 2017.

„Ég er náttúrulega rosalega reið“ segir Ólöf. „Þótt ég hafi fengið hellings útrás þarna með því að senda þetta bréf, þá er ég ennþá mjög reið, það kraumar alveg í mér. Mér finnst þetta svo mikill heigulsháttur að geta ekki talað við okkur. Alveg sama þó við fengjum sálfræðing eða þetta eða hitt. Af hverju getur þetta fólk ekki talað við okkur aftur, þegar við erum aðeins búin að jafna okkur? Þau taka okkur þarna, samdægurs, til hvers? Mér finnst þetta næstum mannvonska.“

Miklar brotalamir

Markmið rótargreiningarinnar var skýrt:

„Að leita svara við [því] hvað gerðist, hvernig það gerðist og af hverju, í þeim tilgangi einum að draga af atvikinu lærdóm og leita leiða til þess að koma í veg fyrir að sambærilegt atvik eigi sér aftur stað.“

Sem sagt: Hvernig gat þetta farið svona?

Förum aðeins yfir atburðarásina: Á bráðamóttöku hafði verið gert sjálfsvígsmat á Hafliða sem var skráð í ráðgjafasvar geðlæknis. Þegar hann var nauðungarvistaður á geðdeild, fylgdu fyrirmæli um að Hafliði skyldi vera á „rauðri gát“, sem þýðir að líta á til með sjúklingi á 15 mínútna fresti.

Það liðu þó allt að þrjár klukkustundir án þess að nokkur gætti að honum. Það brást eiginlega allt:

„Húsnæðið þarf að vera öruggt og tryggt,“, segir María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs LSH. „Þjálfun starfsfólks þarf að vera góð og verkferlar þurfa að vera í lagi. Það má segja að þarna hafi alls staðar mátt gera betur, bæði varðandi húsnæðið, varðandi verkferlana og varðandi þjálfun starfsfólks.“

Í rótargreiningunni segir meðal annars:

„Ekkert í umhverfinu minnti starfsmenn á að framkvæma gátina hjá [Hafliða].“

„Enginn hafði yfirsýn yfir framkvæmd gátarinnar. Gert var ráð fyrir að þau sem heild [starfsfólk á vakt] hefðu gott eftirlit með [Hafliða].“

Það var sem sagt enginn sem fylgdist með því að Hafliða væri sinnt og af greiningunni má ráða að starfsfólkið hafi sjálft metið hann það hressan að hann væri ekki í sjálfsvígshættu, þrátt fyrir að skýrt hafi komið fram í mati læknis að svo væri.

Af geðdeild LSH (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

„Það virðist sem að þjálfun hafi verið ábótavant og skilningur fólks á mikilvægi gátanna ekki nógu skýr“ segir María.

Í rótargreiningunni kemur einnig fram að tilgreint sé í verklaginu að notast eigi við gátlista, en þeir hafi ekki verið útbúnir og því ekki í notkun. Það var sem sagt ekki einu sinni pappírslisti þar sem merkt var við hvort litið hefði verið inn til sjúklings, sem var á fimmtán mínútna gát, hvað þá eitthvert rafrænt áminningarkerfi. Ber einhver ábyrgð á afleiðingunum?

„Við þessa skoðun kom þetta í ljós, að það voru miklar brotalamir. En það er ekki hægt að benda á einhvern einn eða tvo, það er fullt af fólki sem kemur að þessu“ segir María. Markmið rótargreiningarinnar sé ekki sökudólgaleit, heldur að komast til botns í því hvað gerðist og hvers vegna, með það fyrir augum að gera úrbætur sem dragi úr líkum á að sambærilegt atvik gerist aftur.

María harmar þá upplifun fjölskyldunnar sem að framan er lýst. Fólki sé boðinn stuðningur og sálgæsla og það sé afar leitt að þeim þyki að talað hafi verið niður til þeirra og þau látin afskiptalaus. Þannig vilji spítalinn ekki vinna.  „Mér þykir mjög leitt að heyra það, mjög leitt.“

María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Krafa samfélagsins hlýtur samt að vera sú að aðstæður á geðdeild séu þannig að fárveikt fólk sem þangað leitar sé eins öruggt og hægt er. Tíu dögum eftir að Hafliði svipti sig lífi inni á geðdeild, gerði annar ungur maður slíkt hið sama, Sverrir Örn Sverrisson hét hann, þá 26 ára gamall. Tvö sjálfsvíg, inni á sömu geðdeildinni, framin með tíu daga millibili.

Hvað hefur breyst?

Eyrún Thorstensen hefur stýrt úrbótavinnunni undanfarið eitt og hálft ár. Hvers vegna er staða öryggismálanna ekki betri?

„Húsnæðið okkar er bara það lélegt, því miður“ segir hún og bætir við: „Þetta hús hér á Hringbrautinni er síðan um það bil 1980, Kleppur orðinn rúmlega 100 ára og þessi hús eru kannski ekki alveg hönnuð með nýjustu þekkingu í huga.“

Þegar Eyrún fór að vinna markvisst í þessum málum, kom í ljós að það eru ekki til neinir staðlar eða lágmarksviðmið, til að meta öryggi geðdeilda. Landspítalinn hannaði þá sjálfur og þróaði mælitæki til að hægt væri að meta stöðuna hlutlægt á öllum geðdeildunum. Útkoman var hræðileg. Aðeins þrjár deildir af átta fengu ekki falleinkunn.

Eyrún segir að það séu líka deildirnar sem er búið að laga og taka í gegn á síðustu 6 árum. Allar aðrar deildir fá falleinkunn. Það þýði einfaldlega að umhverfið sé hættulegt og þar séu hlutir sem geti verið mjög skaðlegir.

Eyrún Thorstensen, verkefnastjóri á geðsviði (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Það hefur lengi legið fyrir að aðstæður séu óviðunandi. Það vita allir af því, jafnt stjórnendur spítalans sem heilbrigðisyfirvöld.

Nú í marsmánuði var þó loks innleitt nýtt, rafrænt gátarkerfi, svo starfsfólk fær alltaf áminningu um að líta til þeirra sjúklinga sem eru á reglulegri gát. Starfsfólkið hefur að sama skapi einnig fengið aukna þjálfun og verkferlum verið breytt.

Það er þó alls ekki nóg. Í listanum yfir úrbætur sem þarf að fara í kemur fram að húsnæði þurfi að vera öruggt og tryggt, en þar hefur lítið breyst undanfarið.

„Við vitum hvað við þurfum að laga“ segir Eyrún. „En það á eftir að laga mest af því samt sem áður. Það sem stendur fyrst og fremst í vegi fyrir því eru peningar. Ég myndi halda, þótt ég viti kannski ekki alveg hvað það kostar að taka eina deild í gegn, að það hlaupi á svona 100-150 milljónum kannski, til að hlutirnir geti verið í lagi.“

Það er margt hægt að gera

Það er auðvelt að verða dapur yfir örlögum Hafliða. Það er auðvitað ómögulegt að vita hvernig lífshlaup hans hefði orðið, ef hann hefði ekki gripið til þessa óyndisúrræðis, aðeins 23 ára gamall.

Hafliði var einn þrjátíu og tveggja íslenskra karlmanna sem svipti sig lífi þetta ár, 2017, á móti tveimur konum. Þetta er hrikaleg staðreynd. Þrjátíu og þrjár aðrar fjölskyldur voru í sömu sporum og Ólöf og fjölskyldan hennar, bara þetta eina ár. Og svona gengur þetta, ár eftir ár. Spurningin hlýtur að vera þessi: hvers vegna?

„Það er stór spurning og erfitt að vita það nákvæmlega hvers vegna nýgengi eða tíðni sjálfsvíga hér á landi hefur haldist nokkurn veginn sú sama allt frá því að tölfræðin var tekin saman fyrst árið 1911“ segir Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði við Háskóla Íslands. „Við horfum upp á heilsugæslu og heilsugæslulækna verða að sterkari stéttum og á 8. áratugnum opnar geðdeild á Borgarspítala og svo opnar geðdeild hér í lok 8. áratugarins. Við fáum geðlyf við þunglyndi upp úr 1950 og fleiri á næstu áratugum - og nálægt sama tíma geðlyf við geðrofssjúkdómum. Við lærum um áfengis- og fíknimeðferð og við fáum fleira fagfólk en lækna í þjónustuna - sálfræðinga, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa. Samt er talan bara eiginlega búin að vera sú sama.“

Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði við HÍ. (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Þetta virðast fremur vond tíðindi. Þurfum við þá bara að sætta okkur við að sjálfsvíg sé algengasta dánarorsök ungra karla á Íslandi? Eða er eitthvað hægt að gera til að breyta þessu?

„Það er hægt, það er ekki spurning. Og við vitum það, vegna þess að við höfum dæmi frá öðrum löndum“ segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. „Til dæmis fóru Norðmenn í átak hjá sér og þeim tókst að lækka tíðni sjálfsvíga umtalsvert með ákveðnum aðgerðum.“ Þar voru lög um byssueign endurskoðuð sem og reglugerðir um mannvirki, s.s. brúarhandrið, háar byggingar og fleira. Einnig segir hún vitað að þegar farið hefur verið í svona átök á Íslandi þá hafi þau raunverulega skilað árangri. „En núna er virkilega þörf á aðgerðum“, segir hún.

Neyðaraðgerðir strax

Mikil umræða hefur verið um geðheilbrigðismál undanfarinn áratug eða svo, ekki síst meðal ungs fólks.

„Ég hef sagt að ástandið sé þannig á Íslandi varðandi geðheilbrigði eða andlega líðan barna og unglinga frá svona 15,16 ára aldri upp í 25 að það þurfi í rauninni að grípa til neyðaraðgerða strax“ segir Anna Gunnhildur. „Mér fyndist til dæmis að það væri hægt að bjóða þessum hópi upp á 10 tíma fría í sálfræðiþjónustu. Þetta hljótum við að geta gert sem samfélag.“ Hún segir að það hafi sýnt sig,  til dæmis í Bretlandi að þetta skili gríðarlegum árangri. Fyrir viðkomandi, fyrir fjölskylduna og fyrir samfélagið, það hafi verið reiknað út.

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)

Anna Gunnhildur segir að nú ríki í raun neyðarástand. „Ungu fólki á Íslandi hefur aldrei liðið jafn illa eins og akkúrat núna.“

„Þegar er reynt að skoða eftir á hvernig líðan þeirra var sem tóku líf sitt og það hefur verið gert í ýmsum löndum í könnunum, þá virðist í nálægt 9 tilfellum af hverjum 10, einstaklingurinn hafa verið með geðsjúkdóm eða geðröskun“ segir Engilbert. „Ekki endilega eingöngu þá þunglyndi, oft er þetta blandað, vímuefnaneysla er náttúrulega eitt sem við sjáum mikið fléttast inn í þetta hér, sérstaklega hjá ungum körlum.“ Hann segir að þetta sé meira eins og ferli þar sem er hægt að sjá í mörgum tilfellum einhverjar vísbendingar þegar horft er til baka eitt til þrjú ár, hvernig einhver er að missa tökin á sinni tilveru. „Missa trúna á því að hann geti snúið gæfuhjólinu við og þegar einstaklingur er kannski kominn með alvarlegt vímuefnavandamál, er orðinn mjög þunglyndur, fullur vonleysis, trúir því ekki að hann geti breytt lífinu til betri vegar, upplifir ekki möguleika fyrir sig í samfélaginu og verður svo endurtekið fyrir áföllum sem hann hefur litla getu til að bregðast við - því hann er í þessu ástandi, ef hann er til dæmis að nota vímugjafa, þá er hann oft með mikla hvatvísi og takmarkaða dómgreind.“

„Bara það að komast í gegnum lífið er afrek!“

Anna Gunnhildur telur að það þurfi að auka geðfræðslu í skólum og byrja sjálfsvígsforvarnir á unglingastigi. „Svo er eitt í viðbót sem mér finnst að við ættum að gera. Við ættum að stofna svona lágþröskuldaþjónustu, eins og til dæmis er gert í Ástralíu undir merkjum Head Space“ segir hún. „Þar sem fólk á aldrinum 12 til 25 ára getur komið inn og fengið ráðgjöf og aðstoð, bæði varðandi andlega líðan og varðandi líkamlega líðan. Ungar konur geta fengið pilluna og þar er ráðgjöf varðandi vímuefnaneyslu, skóla og vinnu. Ég vildi bara óska þess að þetta yrði sett á stofn, helst á þessu ári.“

Úr kynningarmyndbandi (Mynd: Headspace Ástralía)

„Það sem ég held að við getum helst gert sé að vinna í tvennu“ segir Engilbert. „Annars vegar er það að börnin okkar festist ekki í vímugjöfum á unga aldri, sérstaklega ekki fyrir tvítugt.“ Þá nái heilinn ekki að þroskast, þau börn sem lendi snemma í vímuefnum skorti oft dómgreind og tilfinningagreind þegar fram í sækir, til að geta fótað sig í lífinu. „Og hins vegar að við séum opin fyrir því að fólk leiti sér hjálpar þegar fólk glímir við depurð, alvarlegt þunglyndi eða aðrar alvarlegar lyndisraskanir.“

Hérlendis hefur ekki verið reiknað út hver kostnaður samfélagsins er af geðröskunum og sjálfsvígum. Það vantar reyndar almennt mikið upp á rannsóknir á þessu sviði.

„Við höfum þá reynslu sem hagsmunaaðili að það er helst hlustað á okkur þegar við getum talað um vandann í samhengi við peninga“ segir Anna Gunnhildur. „Við verðum líka að átta okkur á því að þessi vandi, hann bara eykst, það er talað um það að þunglyndi er strax á næsta ári annað stærsta heilsufarsvandamál í heimi, samkvæmt WHO.“

Geðhjálp hefur starfað með Rauða krossinum að átakinu Útmeð’a, þar sem ungt fólk, einkum ungir karlar, eru hvattir til að ræða það sem á þeim hvílir. Það hefur orðið alger sprenging hjá Hjálparsímanum 1717 síðan þessu var hleypt af stokkunum. Það er nefnilega margt hægt að gera til að huga að geðheilsunni og andlegri vellíðan.

„Að lifa einföldu lífi, ekki vera að gera alla hluti í einu“ segir Anna Gunnhildur. „Við þurfum líka svolítið að sleppa samfélagsmiðlunum og verja okkar svigrúm til þess að lifa því lifi sem við viljum lifa. Við þurfum að sofa vel, borða vel og hreyfa okkur. En svo þurfum við líka að muna að lífið er langhlaup, það þarf seiglu. Eins og Churchill sagði: „Jafnvel þótt þér finnist að þú sért að ganga í gegnum dimman dal, þá í öllum bænum haltu áfram að ganga.“ Bara það að komast í gegnum lífið er afrek.“

Ef þú ert í sjálfsvígshugleiðingum:Hringdu í Hjálparsíma Rauða krossins, 1717 – þar er opið allan sólarhringinn. Talaðu við netspjall Rauða krossins á 1717.is - eða pantaðu tíma hjá Pieta samtökunum: pieta.is. Heimasíða Útmeð‘a er: utmeda.is