*

Afar litlar líkur á biti - hvað þá smiti

Það er komið vor. Farfuglarnir flykkjast til landsins og boða bjartar nætur og örlítið hærra hitastig. Í Einarslundi á Höfn í Hornafirði hafa fuglaáhugamenn strengt net í von um að fanga nokkra nýlenta farfugla.

Ætlunin er ekki bara að merkja skógarþrestina, heldur líka að leita að laumufarþegum með miður skemmtilegt háttalag.

Skógarmítlar hafa stungið upp kollinum á Íslandi í gegnum tíðina. Í íslensku skóglendi, en kannski ekki síður, og jafnvel oftar, í hugarfylgsnum þeirra sem óttast þá.

Leitað að mítli á skógarþresti (Mynd: Freyr Arnarson)

Það hefur komið í ljós að skógarþrestir eru ábyrgir fyrir innflutningi flestra skógarmítla til Íslands, þótt aðrir farfuglar beri þar einhverja ábyrgð líka.

„Flestir endurveiddir skógarþrestir eru að koma frá Skotlandi, Spáni og Portúgal,“ segir Matthías S. Alfreðsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. „Við erum mest búnir að finna tíu mítla á einum fugli núna en í fyrra voru allt að 60 mítlar á einum fugli. Það voru mestmegnis lirfur.“ Hann segir að það geti háð fuglunum séu þeir með svo marga mítla á sér. „Þeir geta átt erfitt með að sjá, mítlarnir festast oft í kringum augun.“

„Útbreiðslusvæði mítla hefur breyst með meiri hlýnun,” segir Ólafur Guðlaugsson, smitsjúkdómalæknir. „Mítlar hafa færst norðar og hærra upp í fjöll og á torbyggilegri svæði og þess vegna vaknaði sú spurning: Hvað með Ísland? Hvað er að gerast hér?”

Matthías S. Alfreðsson, skordýrafræðingurhjáNáttúrufræðistofnun Íslands (Mynd: Freyr Arnarson)

Ástæða þess að skógarmítlar vekja ugg í brjóstum margra er líklega sú að þeir sem verða fyrir mítlabiti eiga á hættu að smitast af bakteríum sem mítlarnir geta borið. Til dæmis bakteríu sem veldur svokölluðum lyme-sjúkdómi.

Af hverju þessi ótti?

Á Íslandi greinast á bilinu sex til sjö með lyme-sjúkdóminn á ári. Hins vegar er ekki vitað til þess að neinn hafi smitast af honum hér. Þvert á móti hafi allir verið bitnir erlendis og síðan greinst með sjúkdóminn eftir heimkomu.

Það er enda ekki búið að staðfesta að skógarmítill hafi numið land á Íslandi þótt hann berist hingað.

Matthías segir að það teljist ekki landnám fyrr en mítillinn hafi fjölgað sér hér. „Við þurfum að vita að hann geti klárað lífsferilinn á Íslandi.”

„Lífsferill mítlanna kallar á að þeir drekki blóð úr helst sístækkandi dýrum og við bara höfum ekki mjög mikið af smádýrum hér á Íslandi,“ segir Ólafur.

Lífsferill mítils (Mynd: Ragnar Visage)

„Lífsferillinn tekur eitt til sex ár,“ segir Matthías. „Úr eggjum koma lirfur, þær þurfa að finna sér hýsil og þiggja blóðmáltíð frá honum og detta svo af og hafa hamskipti yfir í gyðlu. Og gyðlan þarf síðan að finna sér annan hýsil og hefur hamskipti og verður svo að fullorðnu karl- eða kvendýri. Þannig að skógarmítlar eru kallaðir þriggja hýsla mítlar.“

Þannig að líklega er skortur á hýslum og gisinn skógur vinnur með okkur í þessu tilfelli – og um leið gegn skógarmítlunum.

Sífellt fleiri mítlar eru samt sendir til Náttúrufræðistofnunar. En það þarf þó ekki að þýða að þeim hafi fjölgað.

Fjöldi innsendra mítla til Náttúrufræðistofnunar (Mynd: Ragnar Visage)

Getur verið að fólk sé bara meira vakandi fyrir þessu og sendi frekar inn ef það finnur mítla? „Algjörlega. Árið 2017 sendum við út póst á alla dýralækna og lækna og létum bara almenning vita að við vildum fá alla mítla senda til okkar.“

Margir mítlanna sem sendir eru inn finnast á köttum og mönnum en langsamlega flestir á hundum.

„Þeir eru líka að hlaupa um í skógarjaðrinum þar sem að mítlarnir eru helst,“ segir Matthías.

Fundið mítla á þremur stöðum af 130

Innsendir skógarmítlar hafa fundist vítt og breitt um landið. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Matthías hefur undanfarin sumur lagt sig í líma við að finna skógarmítla. Öfugt við flesta þá fer hann um skóglendi og vonast til þess að rekast á þá. En hann hefur satt best að segja ekki fundið neitt óskaplega marga.

Matthías leitar að skógarmítlum (Mynd: Freyr Arnarson)

Hann segir að hann hafi leitað á um 130 stöðum víða um land en bara fundið skógarmítla á þremur. „Á Skógum undir Eyjafjöllum, í Mýrdalnum og á Höfn.“

Tæplega fjórðungur fuglanna með mítla

Við hittum Matthías aftur á Náttúrufræðistofnun nokkrum dögum síðar, þegar hann var búinn að fara yfir gögnin úr ferðinni á Hornafjörð.

„Við skoðuðum um 600 skógarþresti á Höfn og um 24% af þeim voru með skógarmítla á sér.“ Í fyrra var hlutfallið 7,8% svo hlutfallið er mun hærra í ár. Að meðaltali voru rétt undir fjórir mítlar á hverjum sýktum fugli.

Þegar Matthías er spurður út í hverjar hugsanlegar skýringar geti verið á þessari aukningu, svarar hann: „Ég var að tala við kollega mína í Bretlandi. Og vorið hjá þeim er búið að vera mjög gott, það gæti verið hluti af ástæðunni. Síðan getur alveg verið að við séum bara orðnir færari í því að finna mítlana, safna þeim.“

Matthías S. Alfreðsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands (Mynd: Freyr Arnarson)

Matthías segir að skógarþrastastofninn á Íslandi sé um 100-200 þúsund pör. „Það myndi gefa okkur það að okkur hafi borist 185 til 370 þúsund mítlar núna í vor,“ segir hann og heldur áfram: „Ef við miðum við þetta. Síðan vitum við ekkert hvað er á hinum farfuglunum. En hvers vegna finnast þá ekki fleiri mítlar í náttúrunni? „Líklega drepst hluti af þessum mítlum eða lenda á stöðum þar sem eru engir hýslar að pikka þá upp.“

En Matthíasi tókst samt að finna þrjá mítla í ferðinni á Hornafjörð og eru þá mítlarnir sem hann hefur fundið í náttúru Íslands á síðustu fimm árum orðnir 42.

Hvar bíta mítlarnir? Hvað ber að varast?

Mítill skoðaður í smásjá (Mynd: Freyr Arnarson)

„Maður finnur þá oft á hnjánum, undir hnésbótinni, og mjög vinsælt að fara undir hringi,“ segir Matthías. „Þeir skríða oft upp í nára, það er ágætisstaður að leita að þar. Við hárlínuna, á höfðinu, bak við eyrun,“ bætir hann við.

„Það er oft talað um að það sé best að fjarlægja þá innan við 18 til 24 tíma. Þá eru mjög litlar líkur á sýkingu,“ bætir hann við. „Vandamálið er aðallega að þegar maður tekur þá af að passa að munnlimirnir verði ekki eftir í sárinu, bitsárinu, því það getur náttúrulega bara komið sýking út frá því. Þess vegna læt ég fólk alltaf vita þegar það kemur með mítil, ef það vantar munnlimina.“

Mítill á fingri (Mynd: Arnar Þórisson)

Búið að staðfesta borreliu á Íslandi

En hversu miklar líkur eru á því að smitast af lyme-sjúkdómnum við mítilbit?: „Við erum búin að leita að þessum bakteríum í um 130 mítlum og það eru nokkrir sýktir mítlar í þeim hópi.“ Þetta er í fyrsta sinn sem staðfest er að mítlar hér á landi beri með sér borreliu, bakteríuna sem veldur lyme-sjúkdómnum. Það þarf samt ekki að koma á óvart og er, miðað við fyrstu rannsóknir, sjaldgæft. „Það er að segja mítlarnir sem sitja á fuglunum koma úr því umhverfi sem fuglarnir voru í og þar er tíðni af borreliu í mítlunum svona einhvers staðar á bilinu 5-10-15 prósent,“ segir Ólafur Guðlaugsson, smitsjúkdómalæknir. Samkvæmt þessari fyrstu rannsókn er hlutfallið hér á landi svipað.

Hættan lítil – en allur er varinn góður

„Þannig að ef við drögum þetta saman þá eru mítlar mjög sjaldgæfir á Íslandi,“ segir Ólafur. „Tíðni borreliusmits í mítlum er mjög lág. Líkurnar á því að smitaður mítill sýki þig eru lágar, sérstaklega vegna þess að þeir þurfa að sjúga úr þér blóð mjög lengi til þess að geta smitað þig og þeir sem verða fyrir því að vera bitnir af sýktum mítli smitast ekki allir.“

En, allur er varinn góður. „Ég kíki alltaf á sjálfan mig og athuga hvort ég sé með mítil á mér eftir að hafa verið í skóglendi,“ segir Matthías. „Ég bara mæli með að fólk geri það.“

Mítill á handarbaki (Mynd: Arnar Þórisson)