*

Aðstæður í heimilisofbeldi skelfilegar

Heimilisofbeldi hefur aukist um 10% í kórónuveirufaraldrinum samkvæmt nýjum tölum ríkislögreglustjóra. Þá hefur tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgað og fleiri börn er áður hringja sjálf í barnavernd til að greina frá slæmum aðbúnaði sínum.

Aðstæður í heimilisofbeldi skelfilegar

Tímasetning ofbeldisins hefur líka breyst að sögn Hafþórs Gauta Kristjánssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Ofbeldið er farið að eiga sér stað bara á virkum degi í hádeginu og eitthvað sem við vorum meira að eiga við á nóttunni  eða á kvöldin þegar fólk var komið heim úr vinnu svoleiðis.“

Hann segir alltaf erfitt að fara á vettvang heimilisofbeldis.

„Aðstæður í heimilisofbeldi eru oft bara mjög skelfilegar. Þarna er fólk sem að er að kalla eftir aðstoð vegna nákominna ættingja eða maka eða systkina og það hefur engin önnur úrræði. Fólk er mjög oft bara grátandi með tárin í augunum og því líður bara mjög illa“.

Ágústa Ágústsdóttir var í ofbeldissambandi í 14 ár.

Ágústa Ágústsdóttir var í ofbelidissambandi í 14 ár. Hún segir að meðvirknin hafi haldið henni í sambandinu.

„Þetta var náttúrulega búin að vera gríðarleg vanlíðan, það voru náttúrulega gríðarlegt andlegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi. Maður er svo brotinn og þegar maður sýndi einhvern styrk fór að sýna sjálfstæði, þá finnur hann einhverja leið til þess að brjóta það niður. Þannig að maður var alltaf einhvern veginn dreginn inn aftur á samviskubiti og niðurbroti.“

Ágústa segir að hún hafi haldið í þá von að einn daginn myndi allt lagast og eftir því sem hún var lengur í sambandinu hafi verið enn erfiðara að sleppa takinu.

„Sérstaklega þegar það eru komin börn. Svo er einhvern vegin með tímanum bara einfaldara að halda friðinn. Maður verður svo tómur og orkulaus og svo ofboðslega þreyttur.“

Fjallað er um heimilisofbeldi í skugga kórónuveirufaraldurs í Kveik. Hér er hægt að sjá umfjöllunina í heild.