Á slóðum Hauks í Sýrlandi

Kveikur hélt til Sýrlands á slóðir Hauks Hilmarssonar, íslenska aðgerðasinnans sem fór til Rojava að berjast með frelsissveitum Kúrda.

Fyrstu mótmælin gegn stjórnvöldum í Sýrlandi brutust út fyrir átta árum, í mars 2011. Þau stigmögnuðust og enduðu í borgarastyrjöld sem enn stendur. Árið 2016 gáfu Sameinuðu þjóðirnar út það mat að um 400.000 manns hefðu látið lífið, en hafa síðan gefist upp á að reyna að telja, svo það veit enginn hversu mörg fórnarlömbin eru. Milljónir eru á flótta.

Í Sýrlandi. (Mynd: Arnar Þórisson)

Arnar Þórisson, dagskrárgerðarmaður Kveiks, fór til Sýrlands í haust, á slóðir einnar fylkingarinnar sem berst þar í landi, kúrdískrar hreyfingar sem kallast YPG. Og það er góð ástæða fyrir því að íslenskur fréttaskýringaþáttur hefur áhuga á einmitt þessari hreyfingu.  

Ferðalag okkar hefst nálægt Mósúl, borg sem allir hafa heyrt um, enda fréttir þaðan daglegt brauð eftir að Íraksstríðið hófst, flestar vondar.

Við sláumst í för með kvikmyndagerðarkonunni Katrínu Ólafsdóttur sem er að undirbúa heimildarmynd í Rojava - og um leið er ætlunin að fá að vita meira um Hauk Hilmarsson, Íslendinginn sem ákvað að ganga til liðs við kúrdísku frelsissveitirnar YPG, en til hans hefur ekkert spurst frá því snemma á síðasta ári.

Um Kúrda

Kort af landsvæði Kúrda. (Mynd: RUV)

Kúrdar eru af írönsku eða persnesku bergi brotnir en dreifast um stórt svæði, aðallega í Tyrklandi, Íran, Írak og Sýrlandi, á svæði sem þeir kalla sjálfir stundum Stór-Kúrdistan. Fræðimenn eru ekki sammála um hvort rétt sé að tala um Kúrda sem landlausa þjóð eða hvort nær lagi sé að tala um Tyrki, Írana, Íraka og Sýrlendinga með rætur í kúrdískri menningu. En á tuttugustu öldinni varð krafan um sjálfstætt ríki Kúrda háværari og ringulreiðin í Miðausturlöndum undanfarin ár hefur á vissan hátt skapað aðstæður fyrir Kúrda til að koma sjálfstjórnarsvæðum á laggirnar, eins og í Írak. Það er Tyrkjum mjög á móti skapi, enda óttast þeir að það sama gerist í Tyrklandi. Í Sýrlandi er hið sama uppi á teningnum.

Við erum á leiðinni þangað, til Sýrlands, til kúrdíska svæðisins Rojava.

Við landamærastöðina við ána Tígris. (Mynd: Arnar Þórisson)

Það er dálítið undarlegt á stríðshrjáðum svæðum, hversu hversdagslegt lífið getur verið þegar sprengjuregn og byssugelt eru úr heyrnarfæri. Á litlu landamærastöðinni, þar sem prammi selflytur fólk yfir ána Tígris, frá Írak til Sýrlands, eru vopnaðir verðir, en yfirbragðið er samt friðsamlegt. Við tökum okkur far með prammanum með hópi ólíks fólks, ömmum og öfum með pinkla og poka, hvítvoðungi sem kúrir í móðurfangi og öllu þar á milli. Ferðin er stutt, rétt um tíu mínútur.

Þegar við komum yfir til Sýrlands, taka fulltrúar YPG á móti okkur. Hingað er ekki hægt að koma, hvað þá ferðast um, nema með samþykki ráðandi afla á svæðinu.

Strax á landamærunum sést hvert við erum komin. Hér hefur YPG-hreyfingin reist minnisvarða um þá sem hafa fallið á vígvellinum; píslarvotta. Ungt fólk, sem ekki er allt Kúrdar. Ljós kollur stingur í stúf: Sahin Huseyni.

Veggurinn með píslarvottunum. (Mynd: Arnar Þórisson)

Á Íslandi þekktu vinir Sahins hann betur sem Hauk Hilmarsson, enda íslenskur í húð og hár, fæddur 1986. Sahin þýðir fálki, svo það er bein þýðing á nafninu hans, Haukur. Hann var strax bráðungur aðgerðasinni, lét til sín taka við Kárahnjúka og vakti þjóðarathygli þegar hann dró Bónusfánann að húni á Alþingishúsinu í Búsáhaldabyltingunni.

Katrín Ólafsdóttir, kvikmyndagerðarmaður og vinkona Hauks segir að þegar henni hafi borist fréttir af því að Haukur hefði fallið í Rojava, hefði hún gert sér grein fyrir því að hún vissi ekkert hvað væri að gerast þar. En þar sem hún þekkti Hauk þá hugsaði hún með sér: „Ja, fyrst að hann ákvað að leggja þessum málstað lið, þá hlýtur hann að vera þess virði.“

Hvers vegna fór Haukur til Rojava?

Leið okkar liggur í búðirnar þar sem Haukur fékk þjálfun fyrst eftir að hann kom til Rojava. Hvað leiddi hann hingað? Haukur var við sjálfboðastörf í Grikklandi árin 2015 og 16, þar sem hann aðstoðaði við að taka á móti skelfingu lostnu fólki sem flýði stríð í heimalandinu. Að sögn grísks vinar hans sem þar starfaði einnig, veltu þeir því þá fyrir sér, hvort þeir gætu ekki lagt meira af mörkum en þetta.

„Við hittum hann 2015, nokkrir félagar. Við ræddum um Kúrdistan og Tyrkland og baráttu YPG-hreyfingarinnar þar“, segir grískur vinur Hauks.

Niðurstaða þeirra var að grípa til vopna, berjast fyrir málstað sem þeir trúðu á, og þeir héldu saman til Sýrlands.

Haukur Hilmarsson. (Mynd: YPG)

„Ég heiti Sahin og er frá Íslandi. Ég er hér til að sýna samstöðu með byltingunni í Rojava og til að berjast við hlið félaga minna til að verja það sem aðrir hafa afrekað. Og til að auka veg hugsjóna þjóðasamstöðu.“ - Haukur Hilmarsson

Katrín segir: „Mig langaði eiginlega að kynnast betur þessu samfélagi, þessu fólki sem að Haukur var með. Og skoða, fyrst og fremst, hvað hann var að gera þarna. Og hvað aðrir eru að gera þarna. Hvað er eiginlega að gerast þarna niður frá?“

Framtíðarsýn valdamanna

Opinbert markmið YPG – samtakanna er að Kúrdar fái að búa í friði á sjálfstjórnarsvæði innan Sýrlands. Salih Muslim hefur verið áhrifamaður í kúrdískum stjórnmálum í Sýrlandi áratugum saman. Hann dró sig reyndar í hlé sem leiðtogi stjórnmálaflokks Kúrda eftir að ungur sonur hans féll í bardaga við stjórnarher Assads, þegar ráðist var inn í heimaborg þeirra, Kobane. Hann hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig samfélag hann vill byggja í Sýrlandi þegar styrjöldinni lýkur og telur sjálfsstjórnarsvæði Kúrda vel rúmast innan þess.

„Við erum að reyna að koma á fyrirkomulagi sem hentar Sýrlandi framtíðarinnar. Það er ekki andstætt framtíð Sýrlands, þegar lýðræði hefur komist á í Sýrlandi… Það sem við gerum á yfirráðasvæðum okkar er ekki í mótsögn við þá skipan sem komið verður á í framtíðinni.“

Þegar maður lítur í kringum sig á ferðalagi um stríðshrjáð svæðin í kring er erfitt að sjá fyrir sér friðsæla lýðræðissamfélagið sem Salih Muslim segist dreyma um.

Götumynd frá Sýrlandi. (Mynd: Arnar Þórisson)

Og svo er ekki alltaf auðvelt að átta sig á því hver berst, fyrir eða gegn hverju. Margir berjast gegn stjórnarher Bashars al Assad, sem hefur neitað að afsala sér völdum og verið sakaður um grófa stríðsglæpi. Rússar styðja hins vegar Assad. Tyrkir berjast gegn sveitum Assads, með einhvers konar stuðningi Vesturlanda, og hið sama gera Kúrdarnir, sem njóta stuðnings Bandaríkjanna í Sýrlandi. En Tyrkir og Kúrdar berjast svo hverjir við aðra. Og ekki má gleyma hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki, Daesh. Við bætast fjölmargar aðrar vopnaðar hreyfingar. Borgarastyrjöld, blóðug valdabarátta, átök stórvelda og svo margra ólíkra hópa og hreyfinga blandast saman í einum graut í Sýrlandi.

Fórnarlömbin eru, eins og jafnan, almennir borgarar.

Hingað kom Haukur Hilmarsson og gekk til liðs við YPG-sveitirnar.

Eftir herþjálfunina hélt hann til Raqqa, sem þá var eitt höfuðvígi Daesh. Borgin er sláandi dæmi um hryllinginn sem hryðjuverkamennirnir ollu. Hér voru leyniskyttur á þökunum, hryðjuverkaárásir og sprengingar daglegt brauð á götum úti. Íbúðablokkum var breytt í aftökuhallir þar sem lík héngu niður úr loftinu, öðrum til varnaðar.

Í Raqqa vann YPG með Bandaríkjamönnum. Þeir öfluðu upplýsinga á jörðu niðri um bækistöðvar Daesh-liða, sendu hnitin til bandaríska hersins og svo var sprengt úr lofti.

Borgin er enda í rúst - um 80% hennar eru talin hafa eyðilagst í stríðinu

Í Raqqa-borg

Með okkur í för í Raqqa er vinur Hauks og vopnabróðir, sem kallar sig Kamerun. Hann vill ekki koma fram undir nafni, frekar en flestir aðrir YPG-liðar sem við hittum. Sveitirnar eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum og það gæti því haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þá að þekkjast, hvar sem þeir búa núna í heiminum. Hann fer með okkur að húsinu þar sem þeir Haukur höfðust við lengst af, beinlínis á víglínunni.

Daesh réð Raqqa um árabil en eftir langvinna, blóðuga bardaga 2017, frá sumri og fram á haust, hrökkluðust samtökin loks þaðan. Þarna barðist Haukur mánuðum saman.

Haukur Hilmarsson í Raqqa. (Mynd: YPG)

Þeir Kamerun og Haukur dvöldu langdvölum á þaki hússins: „Þetta hefur nánast ekkert breyst. Súlurnar hérna og svo ber himinninn yfir og þú getur séð hvar við gerðum raufar til að skjóta út um. Að horfa út um þessar raufar var stærstur hluti tilveru okkar. Myndin af Sahin með mjög skrýtinn svip hálfliggjandi útaf í upphækkuðum stól, hún var tekin þarna“, segir Kamerun.

Ógnin er ávallt yfirvofandi

Eftir langan og strangan dag í Raqqa komum við aftur til búða YPG herdeildarinnar. Þegar kvöldar freistast Arnar til að sofa úti undir berum, sýrlenskum himni, uppi í varðturni. Nóttin er stjörnubjört og falleg, en rétt þegar hann er að festa svefn, er eins og megi sjá flökt á himni og gott ef það fylgir ekki suð, sem minnir helst á sláttuvél í fjarska.

Skýringin kemur að morgni, í upplýsingum sem berast frá Bandaríkjaher. Þeir telja að þetta hafi verið könnunardrónar á vegum Tyrkja og segjast hafa heimildir fyrir líklegri loftárás á búðirnar. Næstu nótt eru því allir fluttir úr búðunum, yfir í bæi í nágrenninu.

Okkar fólk endar í bæ sem heitir Sere Kaniyé og þar verða spænsku mæðginin Alberto og Clara Ballesteros á vegi þeirra.

Haukur er nefnilega alls ekki eini útlendingurinn sem gengið hefur til liðs við frelsissveitir Kúrda undanfarin ár.

Erlendir bardagamenn og píslarvottar

Clara Ballesteros stóð þó lengi í þeirri trú að sonur hennar væri að ferðast um heiminn að vinna fyrir ýmsar kvikmyndahátíðir. Það kom henni því í opna skjöldu þegar henni var bent á að horfa á heimildarmynd um stríðið í Sýrlandi í spænska sjónvarpinu.

Myndin hét: „Bjargað í hjarta Daesh." Og á skjánum birtist sonur minn með fréttamanninum Jordi Évole, klæddur einkennisbúningi og talaði með sprengjuregnið bak við sig í borginni Raqqa. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Ég trúði því ekki, ég hélt ég myndi deyja. Mér dauðbrá því ég vissi ekki neitt um þetta. Rétt eins og þegar stríð braust út við uppgang fasismans komu mörg ungmenni til Spánar að berjast gegn fasismanum og á sama hátt nú þegar Daesh gerir árásir á þjóðir sem eru svo til varnarlausar þurfti að koma þeim til hjálpar.“ segir Clara.

Ástæða þess að Clara er þarna stödd núna er sú að alþjóðlegum hópi mæðra var boðið til Rojava til að sjá aðstæður barna sinna af eigin raun - lifandi sem látinna. Clara er nefnilega ein af þeim heppnu, henni auðnaðist að hitta son sinn, Alberto, aftur á lífi. Það er sannarlega ekki hlutskipti allra foreldra þeirra sem þarna hafa barist.

Mæðginin Clara og Alberto Ballesteros. (Mynd: Arnar Þórisson)

Clara heldur áfram: „Við komum hingað saman sjö evrópskar mæður, tvær þýskar, tvær franskar, tvær spænskar og ein ítölsk. Við komum sem sendinefnd sem við köllum „Mæður fyrir frið.“ Við eigum allar syni og dætur hér sem vinna að ýmsum verkefnum.“

Alberto er ekki á vígvellinum sem stendur, heldur rekur hann kvikmyndahátið og skóla með vinkonu sinni í Rojava.

Mörg þeirra ungmenna sem hafa komið til Rojava-héraðs að berjast hafa því miður endað við hlið kúrdískra félaga sinna í kirkjugarðinum. Sum þeirra ennþá börn, ekki orðin átján ára.

Innrásin í Afrín

En víkjum þá aftur að sögu Hauks Hilmarssonar. Það tókst að flæma Daesh frá Raqqa og var þá sjónum beint að Afrin-héraði. Frelsissveitir Kúrda voru með borgina á sínu valdi, þar til í mars í fyrra. Í ársbyrjun 2018 umkringdu sveitir hliðhollar Tyrkjum Afrín og náðu henni á sitt vald þremur mánuðum síðar eftir harða bardaga.

Hingað héldu Haukur Hilmarsson og félagar hans, til að reyna að verja Afrín falli.

„Við vorum saman í Afrin og ferðuðumst þangað saman,“ segir liðsforingi í YPG-sveitunum, sem barðist þar með Hauki.

„Allt þar til daginn áður en hann féll vorum við í aðgerðum á sömu slóðum, í sömu víglínu, í baráttu gegn tyrkneska fasistaríkinu. Þegar við fórum frá Raqqa, með nú föllnum félaga okkar Sahin, reyndist mjög erfitt að komast til Afrin því margir vinir og félagar á leið til Afrin voru stöðvaðir af sveitum Assads og Rússa. Félagi Sahin, ljóshærður eins og hann var, var stoppaður af Rússum og neyddist til að snúa við til Cizre-héraðs. Sahin var orðinn þreyttur vegna þessa alls og vildi komast sem fyrst til Afrin. Við ræddum þá saman í síma. Hann hafði dottið niður á sniðuga aðferð og lagði aftur af stað eftir að hafa litað hárið svart og andlitið dökkt. Og nú tókst honum ætlunarverkið. Hann komst til Afrin um þau svæði sem Rússar og Sýrlandsher Assads réðu yfir.“

Liðsforingi í YPG-sveitunum. (Mynd: Arnar Þórisson)

80% íbúa Afrin eru flúin eða fallin. Þótt Tyrkir og bandamenn þeirra hafi borgina formlega á sínu valdi, halda bardagar áfram og stefna YPG virðist vera að ná Afrin aftur, svo því fer fjarri að friður sé í augsýn.

19. desember birti Donald Trump Bandaríkjaforseti óvænt stutta yfirlýsingu á Twitter: Við höfum borið sigurorð af Íslamska ríkinu í Sýrlandi, einu ástæðunni fyrir veru okkar þar!

Brotthvarf Bandaríkjanna myndi bara þýða eitt: her Erdogans Tyrklandsforseta myndi gera út af við Kúrdana.  Nú, rúmum mánuði eftir yfirlýsingu Trumps hefur heldur verið dregið í land, talað um brotthvarf í skrefum eftir því sem við á í ljósi aðstæðna. Hvað það þýðir í raun, veit enginn.

Hver urðu örlög Hauks?

Frá bardaganum um Afrin hefur ekkert spurst til Hauks. Félagar hans telja víst að þarna hafi hann fallið.

„Daginn áður en félagi Sahin féll var svæðið þar sem við höfðumst við umkringt á þrjá vegu af Tyrkjum og vígasveitum Salafa,“ segir liðsforingi sem þar var með Hauki. „Þorpin Dimilia og Badina höfðu verið umkringd skriðdrekum og sprengjuvörpum. Þá hertu hermenn fasista- ríkisins og vígasveitanna árásirnar. Í þessari hrinu árása var Haukur í flokki sem fyrstur mætti vígasveitunum og liðsmönnum yfirvalda. Í þessum skærum þurftu Haukur og félagar að hörfa. Í átökunum særðist Haukur og tveir vopnabræðra hans. Vegna loftárásanna og sprengjuregnsins féll félagi okkar svo í átökunum.“

Hann bætir við: „Annað sem ég vil segja um félaga Sahin er að áður en hann féll, sagði hann: „Ég hreifst svo af Afrin að þar vil ég búa eftir stríðið, eftir sigurinn.““

Íslenskir vinir og ættingjar Hauks efast sumir hverjir um þessa útgáfu atburða, því lík hans hefur ekki fundist. Vopnabræður hans virðast þó vissir í sinni sök.

Gengið um stríðshrjáð svæði í Sýrlandi. (Mynd: Arnar Þórisson )

Sjúkraflutningamaðurinn Alan Afrin flúði Afrín eftir innrás Tyrkja. Alan hefur starfað sem sjúkraflutningamaður síðan. Það er ekki öfundsvert hlutskipti á stríðstímum.

Alan segist hafa hitt Hauk og telur ólíklegt að það takist að endurheimta lík hans í bráð: „Þó að það sé hættulegt þá skriðum við inn til að ná í okkar menn í stað þess að láta þá í hendur óvininum. Orrustuþotur og þyrlur gerðu árásir linnulaust. Ég sá það með eigin augum og það tók fyrir alla leit.“

„Í framhaldinu, daginn eftir að Sahin féll, reyndi hópur félaga okkar að sækja lík hans“, segir vopnabróðir Hauks. „Þeir reyndu að komast að svæðinu en það var að stórum hluta undir yfirráðum vígahópa og Tyrklandshers. Þeir höfðu komið þar fyrir skriðdrekum og fallbyssum og ekki var nokkur leið að komast þangað aftur.“

Tyrkir hafa enn ekki leyft neinum að fara inn á svæðið til að sækja líkamsleifar fallinna frá þessum dögum. Ekki einu sinni alþjóðlegum mannúðarsamtökum eins og Rauða krossinum. Það er brot á Genfarsáttmálanum.

En nær staðfestingu á örlögum Hauks Hilmarssonar komumst við ekki í þessari ferð.