10–20 ár þar til skólakerfið verður óstarfhæft

Kennaranám var lengt úr þremur árum í fimm árið 2009. Til þess að verða leikskóla- eða grunnskólakennari þarf nú meistaragráðu. Þá hrundi aðsóknin.

Að tala um hrun eru engar ýkjur eða dramatísering: Nýnemar í kennaranámi árið 2016 voru 60% færri en fyrir lengingu. Þeir voru 440 árið 2009 en 175 2016. Flestir voru þeir reyndar 2002, um 850, en þeir dagar eru augljóslega liðnir.

Og það þarf engan kjarneðlisfræðing til að reikna út hvað þetta þýðir.

Sjá einnig: Eins og að koma út úr skápnum

„Við finnum það nú þegar að kennaraskortur segir þannig til sín að nemendur okkar, sem eru í vettvangsnámi, þeir eru gripnir til að fylla í þau skörð sem alls staðar eru að myndast í skólunum. Og við eigum orðið erfitt með að fá þau til að ljúka náminu, hreinlega,“ segir Baldur Sigurðsson, forseti kennaradeildar menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Baldur telur þó ekki hafa verið mistök að lengja námið; starfið hefur breyst og kennarar þurfa að kunna meira. En það eru ekki nógu margir sem kjósa sér það að ævistarfi.

Hvenær verður þá kennaraskorturinn það æpandi að það fer að hafa veruleg áhrif á samfélagið? „Ef nýliðun í kennarastéttinni heldur áfram að vera sú sem hún er núna, þá hugsa ég að við þurfum ekki að bíða nema 10-20 ár þangað til skólakerfið verður óstarfhæft,“ segir hann.

Í Kveik er rætt við kennara, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga og kennaranema um stöðuna sem nú blasir við. Sjáðu umfjöllunina í spilaranum hér fyrir ofan.