RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Tvö verkefni RÚV í nýrri handbók EBU

Mynd með færslu
 Mynd: EBU - ebu
Fyrr í vikunni var handbók DEI (Diversity, Equity and Inclusion) stýrihóps EBU gefin út og birt á heimasíðu EBU.

Það er gaman að segja frá því að tvö verkefni frá okkur hér á RÚV rötuðu í handbókina – þáttaröðin Með okkar augum annars vegar og jafnlaunavottun og vinna okkar í jafnlaunamálum hins vegar.

Handbók DEI-stýrihópsins beinir kastljósinu að framúrskarandi verkefnum á þessu sviði frá tugum EBU meðlima og félaga um allan heim. Efni hennar er ætlað að veita innblástur og sýna hvernig fjölmiðlastofnanir í almannaþjónustu eru að gera fjölbreytileika, jöfnuð og breiða þátttöku að forgangsverkefni. Handbókinni er um leið ætlað að sýna að með því að innleiða stefnumótun sem miðar að framangreindum markmiðum skapast ekki aðeins betra og árangursríkara starfsumhverfi heldur auðveldar hún miðlum að ná til og tengjast betur sem fjölbreyttustum hópi notenda.

„Fjölbreytni, jafnræði og sýnileiki allra hópa (Diversity, Equity and Inclusion) eru að mínu mati lykilþættir í hlutverki okkar sem almannaþjónustumiðill,“ segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri RÚV af þessu tilefni. „Það er því nauðsynlegt að við stöndum okkur í stykkinu í þeim efnum.“ Hann segir það lykilatriði að aðilar tengdir EBU skiptist á góðum hugmyndum og notfæri sér í sínum miðlum, notendum til góðs.

„Ég vil undirstrika mikilvægi þess að leggja áfram áherslu á fjölbreytileika, jöfnuð og þátttöku í stefnumótun okkar, bæði nú þegar og til framtíðar. Skuldbinding okkar sem förum fyrir málaflokknum verður að skýr og öllum sýnileg. Við höfum það í hendi okkar að koma á enn frekari breytingum til hins betra.“

DEI-handbókina má skoða í heild sinni hér:

https://www.ebu.ch/diversity#casebook