RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

RÚV hlýtur viðurkenningu Jafnréttisráðs

Viðurkenning Jafnréttisráðs
 Mynd: RÚV
Í dag hlaut RÚV fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs. Hana hljóta aðilar sem skarað hafa fram úr þegar kemur að umfjöllun um mál sem tengjast jafnrétti kynjanna. 

Í rökstuðningi ráðsins segir m.a.:

Veittar eru viðurkenningar í þremur flokkum: Til fjölmiðils sem skarað hefur fram úr á sviði jafnréttismála, s.s. hvað varðar efnistök, umfjöllun og miðlun efnis. Vegna þáttar, þáttaraðar, greina eða annars afmarkaðs efnis þar sem jafnrétti er sérstakt viðfangsefni eða leiðarstef og til einstaklings sem með störfum sínum á fjölmiðli hefur unnið sérstaklega að jafnréttismálum. 

Ríkisútvarpið hlaut fjölmiðlaviðurkenningu fyrir metnaðarfullt jafnréttisátak til að jafna stöðu kynja í umfjöllun og meðal starfsfólks. Í umfjöllun segir að gerðar hafi verið róttækar breytingar í framkvæmdastjórn stofnunarinnar með þeim árangri að þar sitji nú jafnmargar konur og karlar. Það sama hafi verið gert í hópi millistjórnenda þar sem konur, sem áður voru í minnihluta, eru nú örlítið fleiri er karlar. Samhliða þessu hafi verið unnið að bættri samþættingu vinnu og einkalífs starfsfólks miðilsins. 

Tekist hefur að ná jafnvægi í hópi umsjónarmanna sem birtast í sjónvarpi og heyrast í útvarpi. Að þessu leyti sker RÚV sig frá öðrum ljósvakamiðlum hér á landi. Kynjatalning viðmælenda með að markmiði að jafnvægi ríki á milli kvenna og karla til sóma. Ákvarðanir og áherslur í dagskrá bera einnig skýrt merki jafnréttisátaksins. RÚV hefur miklum skyldum að gegna sem fjölmiðill í almannaþjónustu – ekki einvörðungu við að spegla samfélagið hverju sinni heldur sem fjölmiðill sem tekur hlutverk sitt alvarlega og vill hafa áhrif til góðs.

Auk RÚV hlutu Björg Einarsdóttir og Kynjabilið fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs.

Kynjabilið hlýtur viðurkenningu fyrir nýstárlega og spennandi framsetningu á fréttum og upplýsingum um ójafnrétti kynjanna í samfélaginu. Kynjabilið er annars vegar síða á Facebook og hins vegar á Twitter og hefur verið starfrækt frá því í mars 2015. Kynjabilið beinir sjónum að því hvernig kynjahlutföll birtast í umfjöllun fjölmiðla. Vakin er athygli á fréttum þar sem hallar á annað kynið auk þess sem það fjallar um kynjahalla á ýmsum sviðum samfélagsins.

Þá hlaut Björg Einarsdóttir viðurkenningu fyrir einstakt og óeigingjarnt starf við skrásetningu á sögu kvenna og umfjöllun um jafnréttismál. Í umsögn valnefndar segir að höfundarverk Bjargar sé drjúgt. Af ritstörfum hennar ber hæst ritsafn í þremur bindum „Úr ævi og starfi íslenskra kvenna“, sem byggði á útvarpserindum á árunum 1983 og 1984. Auk bóka og ritsafna sem Björg hefur samið og ritstýrt liggja eftir hana fjölmargar greinar í blöðum og tímaritum, auk sjónvarpsþátta, um málefni íslenskra kvenna. 

Valnefnd skipuðu Fríða Rós Valdimarsdóttir, fulltrúi Jafnréttisráðs. Arndís Þorgeirsdóttir, fulltrúi Blaðamannafélags Íslands og Ragnar Karlsson, fulltrúi Háskóla Íslands.