RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Öflugra og skarpara RÚV – til framtíðar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Uppfært stjórnskipulag RÚV sem kynnt var í dag styrkir dagskrárþróun, framleiðslu og miðlun til stafrænnar framtíðar.

Í nýrri stefnu RÚV til 2021 segir meðal annars að RÚV eigi að gegna uppbyggilegu forystuhlutverki í íslenskri fjölmiðlun og þurfi að þróast og breytast til að vera í stakk búið til að mæta breyttri tækni, fjölmiðlanotkun og samfélagi. Í stefnunni er því einnig lýst hvernig til framtíðar þurfi að vinna efni heildstætt þvert á miðla þar sem tækni er leið að markmiðinu en ekki markmið í sjálfri sér. Þessi þróun kallar á nýja hugsun, innviði, færni, þjálfun og mönnun, þar sem teymi dagskrárgerðar- og tæknimanna bera sameiginlega ritstjórnarlega og tæknilega ábyrgð á þróun, fréttamiðlun og dagskrárgerð. Í dag kynnti útvarpsstjóri fyrir starfsfólki uppfært stjórnskipulag fyrirtækisins sem byggir á áhersluþáttum stefnunnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Freykja Gylfadóttir - RÚV

Markmið og meginlínur

Markmið breytinganna er fyrst og fremst að gera RÚV betur í stakk búið til að efla stafræna og ólínulega þjónustu við nútímafólk. Stafræn þróun og þjónusta er byggð inn í kjarnastarfsemi allra dagskrársviðanna í stað þess að vera í sérdeild eins og verið hefur.

Kraftmikið teymi dagskrárgerðarfólks verður til á nýju sviði,  „Númiðlun – Rás 2“, sem sinnir jöfnum höndum síkvikri dagskrárgerð á vef, í útvarpi og á samfélagsmiðlum. Áherslan er á unga fólkið og á að vera alltaf á staðnum með fólki í dagsins önn. RÚVnúll, ný þjónusta fyrir ungt fólk, og samfélagsmiðlar verða einnig á þessu sviði.

Þá verður til nýtt framleiðslusvið þar sem við byggjum upp einfalda og sterka framleiðslueiningu til að framleiða hágæðadagskrárefni fyrir RÚV og bæta þjónustu við sjálfstæða framleiðlendur og aðra fjölmiðla með samframleiðslu og útleigu til þeirra í auknum mæli. Hingað til hafa framleiðsludeildir verið á ólíkum sviðum inni í starfsemi RÚV.

Dagskrársviðin eru styrkt með nýrri stöðu, framkvæmdastjóra miðla, sem veita mun liðsstyrk við samninga- og áætlanagerð, birgðastýringu og daglegan rekstur enda hefur RÚV stóraukið þátttöku sína í framleiðslu stórra leikinna sjónvarpsverkefna sem kallar á lengri þróunarferli og flóknari samningagerð en áður.

Sjálfstæði fréttastofunnar er einnig formfest með enn skýrari hætti í nýju skipuriti sem og skilin milli dagskrárstjórnar og framkvæmdastjórnar RÚV. Formföst dagskrárstjórn fer með óumdeilt dagskrárvald og samhliða fækkum við í framkvæmdastjórninni sjálfri.

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri:

„Þessar breytingar eru gríðarlega jákvæðar fyrir RÚV og standa traustum fótum á þeirri hugmynd að almannafjölmiðli beri skylda til að ná til allra. Og til að ná árangri verður RÚV að þróast í takt við nýtt umhverfi og nýja tækni. Við byggjum á góðum árangri síðastliðinna þriggja ára, nýlegum þjónustusamningi og nýrri framsýnni stefnu. Af þeirri ástæðu eru þessar breytingar sóknarleikur og hér erum við að stilla okkar öfluga fólki upp á markvissari hátt í takt við nýjar þarfir og væntingar notendanna. Við hlökkum til að takast á við nýja tíma í miðlun með það markmið að leiðarljósi. Á næstu dögum verða auglýstar þrjár nýjar og spennandi stöður í íslenskri fjölmiðlun og það fólk verður okkur öflugur liðsstyrkur í stafrænni framtíð.“

Tveir hverfa úr framkvæmdastjórn RÚV, Ingólfur Bjarni Sigfússon og Frank Hall, „Frank og Ingólfur hafa báðir verið afar mikilvægir og öflugir í þeim breytingum og árangri sem hefur náðst á síðustu þremur árum en við sýnum því að sjálfsögðu skilning að þeir kjósi að söðla um á þessum tímapunkti,“ segir Magnús og bendir á að á tímabilinu hafi náðst kynjajafnvægi á Rás 2, þátttaka í tónlistarhátíðum hefur aukist og bylting orðið í þjónustu á vef og nýmiðlum. Þrjár nýjar stjórnunarstöður verða auglýstar á næstu dögum.

Smelltu hér til að lesa stefnu RÚV 2021 (PDF)

Uppfært skipulag tekur gildi um áramótin 2017/2018
26.10.2017 kl.14:08
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni, RÚV 2021, Stefna RÚV