RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Kosningaumfjöllun RÚV fyrir alþingiskosningar 2017

Mynd með færslu
 Mynd: AP Images - RÚV
Eftirfarandi eru upplýsingar um kosningaumfjöllun RÚV fyrir alþingiskosningarnar 28. október. Rétt er að taka fram að eftirfarandi upptalning er hin formlega kosningaumfjöllun. Áfram verður fjallað um stjórnmálin í dægurmálaþáttum og  fréttum RÚV en það ræðst af fréttamati hverju sinni.

Kosningavefur og samfélagsmiðlar

Vefurinn verður opnaður í kringum mánaðamót og upplýsingum um flokka og framboðslista bætt við eftir því sem þær berast. Þangað inn fara auk þess allar fréttir og dagskrárefni RÚV sem tengist kosningunum. Á vefnum verður auk þess kosningapróf RÚV. Það er þannig byggt upp að kjósendur taka afstöðu til fullyrðinga, sem tengjast stefnumálum, með því að staðsetja sig á kvarða eftir því hversu sammála eða ósammála þeir eru fullyrðingunni. Þegar búið er að taka afstöðu til allra fullyrðinganna kemur i ljós hvaða frambjóðanda viðkomandi kjósandi á mesta samleið með. Svo þetta sé hægt verða frambjóðendur sjálfir fyrst að taka afstöðu til fullyrðinganna. Við munum senda þeim póst með slóð á vefsvæði þar sem þeir geta bæði gert það og hlaðið upp myndum af sér. Þetta naut mikilla vinsælda á kosningavef RÚV í fyrra, bæði fyrir forsetakosningarnar og alþingiskosningarnar – prófið var þreytt tæplega 80 þúsund sinnum fyrir alþingiskosningarnar og fjöldi fólks deildi niðurstöðunni á samfélagsmiðlum. Við vonumst því eftir góðri þátttöku frambjóðenda í þessu verkefni.

Áhersla verður lögð á að framleiða efni fyrir vefinn og samfélagsmiðla, til dæmis Instagram, Snapchat og Facebook. Meðal annars verða fulltrúar flokkanna teknir tali og reynt verður að höfða sérstaklega til ungra kjósenda. Dagskrárgerðarmenn RÚV, sem halda utan um þessa framleiðslu, munu setja sig í samband við flokkana þegar nær dregur varðandi viðtöl við fulltrúa flokkanna eða heimsóknir í kosningamiðstöðvar.

Leiðtogaumræður 8. október

Formönnum allra framboða sem sannanlega hyggjast bjóða fram er boðið að mætast í sjónvarpssal í tæplega tveggja klukkustunda löngum þætti í beinni útsendingu. Líkt og fyrir síðustu kosningar verður það sett sem skilyrði fyrir þátttöku að framboðin hafi fengið listabókstaf en í ljósi þess hve skamman tíma framboðin hafa til að undirbúa framboðslista verður ekki gerð krafa um að þau hafi birt fullmannaðan framboðslista. Þess í stað þurfi þau að hafa mannað og birt hálfan framboðslista, þ.e. efstu sætin á einum lista. Fjöldi þátttakenda þarf að liggja fyrir með hæfilegum fyrirvara, m.a. svo hægt sé að undirbúa stúdíóið, gera ráð fyrir réttum fjölda í setti, hanna lýsingu, grafík og svo framvegis. Þess vegna verður miðað við að skilyrði fyrir þátttöku séu uppfyllt í síðasta lagi á hádegi 6. október. Á undan umræðunum verður sýnd fréttaskýring um stjórnmálaástandið í aðdraganda kosninga. 

Forystusætið

Formaður hvers framboðs verður tekinn í 25 mínútna langt viðtal. Fyrsta viðtalið verður sent út mánudaginn 9. október. Þau verða sýnd á hverju virku kvöldi að loknum 22 fréttum. Viðtölin verða tekin upp samdægurs, fyrir hádegi. Dregið verður um það í hvaða röð viðtölin verða tekin og sýnd. Stefnt er að því að röðin liggi fyrir sem fyrst.

Málefnaþættir

Fjallað verður um stefnumál framboðanna í fjórum þáttum, sem sendir verða út á mánudögum og miðvikudögum síðustu tvær vikurnar fyrir kosningar. Fyrsti þátturinn fer í loftið 16. október. Þættirnir verða teknir upp fyrirfram og rætt við frambjóðendur um stefnu flokkanna. Umsjónarmenn þessara þátta verða Baldvin Þór Bergsson, Þóra Arnórsdóttir, Helgi Seljan og Helga Arnardóttir. Upptökur hefjast í lok næstu viku en haft verður samband við flokkana til að bóka viðtöl við talsmenn þeirra í tilteknum málaflokkum. Tekið er fram að ætlast er til þess að flokkarnir sendi einn talsmann í hvern þátt og að hver talsmaður mæti einungis í einn þátt.

Efnistökin verða sem hér segir:

1)      Efnahags- og velferðarmál (16.okt)

2)      Atvinnu-, samgöngu- og umhverfismál (18.okt)

3)      Mennta- og menningarmál (23.okt)

4)      Heilbrigðismál (25.okt)

Þættirnir verða á Kastljóstíma, kl 19:35, og verða ca 40 mínútna langir. Þættirnir hefjast á stuttri fréttaskýringu um stöðuna í málaflokknum.

Kjördæmaþættir

Gert er ráð fyrir að oddvitar allra framboða mætist í útvarpssal. Þættirnir verða sendir út síðdegis á rás 2 og standa í 90 mínútur. Fyrsti þátturinn verður sendur út þriðjudaginn 10. október. Áætlunin, með fyrirvara um breytingar, er sem hér segir:

10. október – Reykjavík norður (Efstaleiti)

12. október –Norðaustur (Akureyri)

17. október – Suðvestur (Efstaleiti)

19. október – Norðvestur (Borgarnes)

24. október – Suður (Selfoss )

26. október – Reykjavík suður (Efstaleiti)

Nánari upplýsingar um þessa fundi, t.a.m. fundarstaðir og nákvæmari tímasetningar, verða sendar út þegar nær dregur.

Kynningarefni framboða

Minnt er á að frestur til að skila inn kynningarefni framboða, sem RÚV sýnir gjaldfrjálst, rennur út 16. október. Reglur sem gilda um kynningarefnið fylgja hér í viðhengi.

Seinni leiðtogaþáttur

Formenn allra framboða eru boðaðir í sjónvarpssal föstudaginn 27. október. Þátturinn hefst að loknum sjónvarpsfréttum, íþróttum og veðri og stendur í tæpar tvær klukkustundir. Nánari útfærsla verður kynnt þegar fjöldi framboða skýrist.

Kosningavaka

Gert er ráð fyrir leiðtogum stjórnmálaflokkanna í sjónvarpssal að kvöldi kjördags.

Daginn eftir…

Sunnudaginn 29. október er óskað eftir að formenn þeirra framboða sem fá kjörna fulltrúa á þing mæti í Silfrið í stuttar umræður.