RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Jafnt kynjahlutfall í dagskrá RÚV

Mynd með færslu
 Mynd:
RÚV hefur jafnréttismál í forgrunni á undaförnum misserum og náð marktækum árangri. Í lok árs 2015 voru teknar upp markvissar mælingar á hlutfalli karla og kvenna í hópi viðmælenda í föstum þáttum og fréttum.

Nýtt verklag og stöðug skráning stuðlar að jafnrétti í dagskrá og starfsemi

Nýtt verklag var innleitt, aðgengilegt skráningarkerfi var forritað og starfsmenn þjálfaðir. Skráningin er framkvæmd daglega af frétta- og dagskrárgerðarmönnum, mældir eru viðmælendur í fréttatímum og fréttatengdum þáttum í útvarpi og sjónvarpi sem og reglubundum innlendum þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Tölurnar eru  birtar opinberlega fjórum sinnum á ári fyrir hvern miðil og fréttastofu RÚV. Nákvæmari tölur niður á þátt eru birtar innanhúss og ræddar á dagskrársviðum. Nú liggja fyrir tölur, bæði fyrir 4. ársfjórðung 2017, sem og heildartölur fyrir allt árið.

Jafnt hlutfall kynja í dagskrá árið 2017
Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV, án frétta árið 2017 var 3% betri en árið á undan og nánast jöfn, eða 51% karlar og 49% konur. Séu fréttatímar og fréttatengdir þættir eingöngu teknir saman er hlutfall kynjanna 64% karlar og 36% konur, sem skýrist af hærra hlutfalli karla í leiðandi stöðum í stjórnmálum og samfélaginu sem fluttar eru fréttir af. Tölur fyrir 4. ársfjórðung sýna mjög jákvæða þróun í átt að meiri jöfnuði í fréttum. Samtals var hlutfall kynjanna í dagskrá og fréttum árið 2017 58% karlar og 42% konur, sama hlutfall og var árið 2016.

Jafnrétti í forgrunni allrar starfsemi
RÚV hefur miklum skyldum að gegna sem fjölmiðill í almannaþjónustu – ekki einvörðungu við að spegla samfélagið hverju sinni heldur sem fjölmiðill sem tekur hlutverk sitt alvarlega og vill hafa áhrif til góðs. Frá árinu 2014, þegar nýir stjórnendur tóku við, hefur verið jafnt kynjahlutfall í framkvæmdastjórn RÚV og á árinu 2016 náðist einnig jafnt hlutfall meðal millistjórnenda fyrirtækisins sem og í hópi umsjónarmanna sem birtast í sjónvarpi og heyrast í útvarpi. Að þessu leyti sker RÚV sig frá öðrum ljósvakamiðlum hér á landi. Stjórnendur RÚV hafa einnig unnið að því að eyða út kynbundnum launamun hjá RÚV, sem er nú undir 2%, og í vor hlaut RÚV gullmerki jafnlaunaúttektar PWC, fyrst fjölmiðla. Vinna við jafnlaunavottun er hafin.

Til að hvetja konur til þátttöku á sviðum þar sem þær hafa ekki tekið þátt hefur RÚV staðið markvisst fyrir ýmsum aðgerðum, m.a. námskeið í íþróttafréttamennsku fyrir konur, námskeið í spurningatækni fyrir Gettu betur og kynjakvóta í liðum í Gettu betur. 

Fjölmiðlaviðurkenning Jafnréttisráðs
RÚV hlaut Fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs í lok árs 2016 fyrir metnaðarfullt jafnréttisátak til að jafna stöðu kynja í umfjöllun og meðal starfsfólks. Í umfjöllun með viðurkenningunni segir að gerðar hafi verið róttækar breytingar í framkvæmdastjórn stofnunarinnar með þeim árangri að þar sitji nú jafnmargar konur og karlar. Það sama hafi verið gert í hópi millistjórnenda þar sem konur, sem áður voru í minnihluta, eru nú örlítið fleiri er karlar. Samhliða þessu hafi verið unnið að bættri samþættingu vinnu og einkalífs starfsfólks miðilsins. 

Tekist hefur að ná jafnvægi í hópi umsjónarmanna sem birtast í sjónvarpi og heyrast í útvarpi. Að þessu leyti sker RÚV sig frá öðrum ljósvakamiðlum hér á landi. Kynjatalning viðmælenda hefur að markmiði að jafnvægi ríki á milli kvenna og karla. Ákvarðanir og áherslur í dagskrá bera einnig skýrt merki jafnréttisátaksins. 

 

Viðmælendaskráning 4. ársfjórðungur 2017

  KK KVK heildarfj. KK% KVK%
Rás 1 577 663 1240 47% 53%
Rás 2 352 295 647 54% 46%
RÚV- sjónvarp 573 565 1138 50% 50%
Fréttir 1882 1138 3020 62% 38%
           
Dagskrá og fréttir 3384 2661 6045 56% 44%
Dagskrá RÚV 1502 1523 3025 50% 50%

 

Viðmælendaskráning 2017 - heild
  KK KVK heildarfj. KK% KVK%
Rás 1 2112 2395 4507 47% 53%
Rás 2 1841 1420 3261 56% 44%
RÚV- sjónvarp 1517 1433 2950 51% 49%
Fréttir 7234 4113 11347 64% 36%
           
Dagskrá og fréttir 12704 9361 22065 58% 42%
Dagskrá RÚV 5470 5248 10718 51% 49%

 

Viðmælendaskráning 2016 - heild
  KK KVK heildarfj. KK% KVK%
Rás 1 1830 1821 3651 50% 50%
Rás 2 2363 1810 4173 57% 43%
RÚV- sjónvarp 1578 1363 2941 54% 46%
Fréttir 6755 4092 10847 62% 38%
           
Dagskrá og fréttir 12526 9086 21612 58% 42%
Dagskrá RÚV 5771 4994 10765 54% 46%
19.02.2018 kl.13:26
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Jafnréttismál, Í umræðunni