RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Guðrún Hálfdánardóttir hefur störf á Rás 1

Mynd með færslu
 Mynd:
Gengið var frá ráðningu Guðrúnar Hálfdánardóttur á RÚV í vikunni. Guðrún leysir Þórunni Elísabetu Bogadóttur af á Morgunvaktinni á Rás 1 næsta hálfa árið.

Guðrún hefur verið blaðamaður á Morgunblaðinu frá árinu 1996 en hún lét af störfum þar síðastliðið vor. Þar var hún meðal annars fréttastjóri viðskiptafrétta, fréttastjóri á mbl.is og almennur fréttamaður á vefnum. Guðrún hefur þó ekki síst vakið athygli fyrir ítarlega greinaflokka um skólamál, geðheilbrigðismál o.fl.

„Ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir en þetta er í fyrsta skipti sem ég starfa við útvarp. Mikil gerjun á sér stað í útvarpi um allan heim og Rás 1 hefur fylgst vel með þeirri þróun, bæði í mótun línulegrar dagskrár og í hlaðvarpsþáttum. Ég er þakklát fyrir að fá tækifæri til að starfa við hlið Björns Þórs Sigbjörnssonar á Morgunvaktinni næstu mánuði og læra af honum enda afburðadagskrárgerðarmaður líkt og Þórunn Elísabet Bogadóttir, sem ég leysi af á meðan hún er í fæðingarorlofi,“ segir Guðrún Hálfdánardóttir.

„Það er mikið gleðiefni að fá Guðrúnu í lið með okkur og við bjóðum hana velkomna,“ segir Þröstur Helgason dagskrárstjóri Rásar 1.

 

 

20.08.2021 kl.15:53
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni