RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

112 sóttu um í hagnýta viðmælendaþjálfun 2021

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frestur til að skila umsókn um þátttöku í fjölmiðlaþjálfun FKA fyrir konur í samstarfi við RÚV rann út á miðnætti föstudaginn 15. janúar. Félagi kvenna í atvinnulífinu bárust rúmlega 112 umsóknir um þátttöku. Engar inngöngukröfur voru í verkefnið og voru allar konur gjaldgengar.

Nú bíður það verkefni valnefndar að velja 12 konur til þátttöku, en nefndin er skipuð þeim Huldu Bjarnadóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra FKA sem nú starfar á alþjóðasviði mannauðs hjá Marel, Evu Laufeyju Kjaran Hermannsdóttur, sjónvarpskonu á Stöð 2, Gunnari Hanssyni, útvarpsmanns á Rás 1 og Sigmundi Erni Rúnarssyni, sjónvarpsstjóra Hringbrautar. Bráðlega verða nöfn þeirra sem hljóta heilsdagsþjálfun kynnt, en námskeiðið byggir á grunni sem Þórhallur Gunnarsson fjölmiðlamaður og Andrés Jónsson almannatengill hafa byggt upp fyrir stjórnendur á Íslandi á undanförnum árum.

Námskeiðið er fyrst og fremst hugsað til að auka fjölbreytni viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum og bæta um leið aðgang fjölmiðlafólks að konum. Námskeiðið er haldið á grunni samstarfssamkomulags RÚV og FKA sem undirritað var í febrúar á síðasta ári um samstarf um viðmælendaþjálfun til næstu þriggja ára og fer námskeiði fram í Útvarpshúsi.

 

20.01.2021 kl.14:42
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Félag kvenna í atvinnulífinu, Í umræðunni