
Stjórnlagadómstóll Suður Afríku úrskurðaði á fimmtudag að Zuma hefði brotið gegn stjórnarskrá landsins með því að láta undir höfuð leggjast að fara að tilmælum lægra dómsstigs frá 2014. Sá dómur, sem einkum fæst við spillingarmál innan opinbera kerfisins, skipaði forsetanum að endurgreiða úr eigin vasa það fé sem hann hefði tekið úr opinberum sjóðum og nýtt í eigin þágu.
Framkvæmdirnar við sveitasetur forsetans kostuðu sem svarar 1,8 milljörðum króna, eða það var í það minnsta upphæðin sem Zuma sótti í ríkissjóð til að greiða fyrir þær. Meðal þess sem byggt var á sveitasetrinu voru sundlaug og útileikhús. Dómarar stjórnlagadómstólsins voru einróma í úrskurði sínum og ítrekuðu kröfuna um að Zuma endurgreiddi ríkinu hverja krónu.
Í ávarpi sínu í gærkvöldi, sem sjónvarpað var beint, sagðist Zuma virða niðurstöðu stjórnlagadómstólsins og ætla sér að breyta í samræmi við hana. Hann bætti því þó við að hann hefði gert þetta allt saman í góðri trú og aldrei ætlað sér að brjóta gegn stjórnarskrá landsins. Brot hans mætti öll rekja til mismunandi nálgunar og skilnings manna á ákvæðum stjórnarskrárinnar.