Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Zika-veiran jafnvel skæðari en óttast var

epa05254755 Director of the National Institute of Allergy and Infectious Diseases Anthony Fauci (R) and Dr. Anne Schuchat (L), Principal Deputy Director of the Centers for Disease Control and Prevention (CDC), participate in a news conference in which
Dr. Anne Schuchat og dr. Anthony Fauci fara yfir stöðuna á fréttamannafundi í Washington Mynd: EPA - EPA
Zika-veiran er meiri ógn er ætlað var í fyrstu og gæti gert meiri usla í Bandaríkjunum en spáð var segja þarlendir embættismenn í heilbrigðisgeiranum. Vonast er til að þróun bóluefnis verði nógu langt á veg komin síðsumars til að hægt verði að hefja tilraunir á mönnum strax í september. Almenn dreifing og notkun bóluefnis getur þó tæpast hafist fyrr en í ársbyrjun 2018.

Dr. Anne Schuchat, einn æðsti yfirmaður Smitsjúkdómavarna Bandaríkjanna, segir margt benda til að rekja megi fleiri fæðingargalla en dverghöfuð til Zika-veirunnar, sem berst aðallega með moskítóflugum. Þar að auki virðast þær moskítóflugur sem dreifa veirunni líklegar til að flækjast víðar um Bandaríkin en áður var talið mögulegt.

Dr. Schuchat segir flest það sem rannsóknir stofnunarinnar undanfarna mánuði hafi leitt í ljós töluvert meira uggvekjandi en búist var við. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, fór fram á 1,8 milljarða Bandaríkjadala fjárveitingu til að fjármagna rannsóknir Smitsjúkdómavarna á Zika-veirunni. Sú krafa mætti mótspyrnu repúblikana á þingi, sem sögðu stofnunina geta gengið í þær tæplega 600 milljónir dala sem enn eru ónýttar til rannsókna á e-bólu, við lítinn fögnuð dr. Anthonys Fauci, forstjóra Rannsóknarstofnunar í ofnæmis- og smitsjúkdómum. Hann telur ekki vanþörf á að halda áfram rannsóknum á e-bólu þótt annar vágestur hafi látið á sér kræla í millitíðinni.

Um 100 manns hafa sýkst af Zika-veirunni í Bandaríkjunum til þessa og allt kapp er lagt á að flýta þróun bóluefnis áður en útbreiðslan nær að verða eitthvað í líkingu við það sem hún er í Suður-Ameríku. Jafnvel þótt allt gangi að óskum og unnt verði að hefja tilraunir á mönnum í september á þessu ári eins og að er stefnt verður þó tæpast hægt að koma bóluefninu í almenna dreifingu og notkun fyrr en í fyrsta lagi í ársbyrjun 2018.