Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Yrði merkileg tilraun á heimsvísu

03.06.2015 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastýra Jafnréttisstofu telur vafasamt að hugmyndir um kvennaþing standist reglur stjórnarskrárinnar. Hún segir hins vegar að tilraunin yrði mjög merkileg á heimsvísu, og telur ekki útilokað að hrinda henni í framkvæmd ef karlar ákvæðu sjálfviljugir að draga sig í hlé.

Ragnheiður Ríkarðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, varpaði fram róttækum hugmyndum í ræðustól á Alþingi í gær þegar hún stakk upp á því að þingið yrði einungis skipað konum eftir næstu kosningar. Þetta taldi hún til þess fallið að bæta starfsandann og vinnubrögðin á Alþingi.

Þessar hugmyndir hafa vakið athygli og telja viðmælendur fréttastofu vafasamt að þær standist reglur stjórnarskrárinnar.

Þyrfti samkomulag um að karlarnir drægju sig í hlé
Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, telur hugmyndina mjög athyglisverða og veit ekki til þess að þetta hafi nokkurn tíma verið gert. Hún telur ekki útilokað að hrinda hugmyndinni í framkvæmd, þrátt fyrir reglur stjórnarskrárinnar um jafnrétti.

„Það þyrfti að vera algjört samkomulag um að karlarnir drægju sig í hlé," segir Kristín og telur líkur standa til þess að ef slík sátt næðist væri hægt að hrinda hugmyndum Ragnheiðar í framkvæmd.

Kristínu þykir skipta máli hver tilgangurinn væri með slíkum inngripum. „Það þyrfti að vera alveg skýrt," segir hún og minnir á að á sínum tíma hafi kvennalistar verið heimilir í framboði til Alþingis, en það hafi verið aðgerð til að fjölga konum í framboði.

Stenst ekki jafnræðisreglur
Björg Thorarensen, lagaprófessor og sérfræðingur í stjórnskipunarrétti, minnir á að kjörgengi sé kjarni stjórnmálalegra réttinda allra borgara í landinu. Hún tekur fram að hún hafi ekki kynnt sér hugmyndir Ragnheiðar til hlítar, en telur vafasamt að það gangi upp að löggjafarsamkunda landsins yrði einungis skipuð konum.

„Það væri svo afgerandi skerðing á kjörgengi manna að binda það við kynferði, að það myndi aldrei standast ákvæði stjórnarskrár um jafnræði," segir Björg.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir