Yoko er fimmti einstaklingurinn sem hlýtur þessa nafnbót, en fyrstur til þess var Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur sem var útnefndur heiðursborgari árið 1961. Næstur var Kristján Sveinsson augnlæknir árið 1975, Vigdís Finnbogadóttir árið 2010 og listmálarinn Erró var útnefndur á síðasta ári.
Með heiðursnafnbótinni vill Reykjavíkurborg þakka Yoko Ono fyrir framlag hennar til friðar og mannréttinda og fyrir að kjósa Reykjavík sem vettvang þeirrar baráttu.
„Þetta er stórkostlegt, ég trúi þessu ekki,“ segir Yoko Ono. „Ég varð mjög hissa, en þetta er gott. Ég tel að þetta sé hvatning til mín til að halda áfram mínu starfi og gera betur.“
Nánar verður rætt við Yoko Ono í sjónvarpsfréttum klukkan sjö.