Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Yngsti þingmaður nokkru sinni

Mynd með færslu
 Mynd:
Jóhanna María Sigmundsdóttir, 21 árs framsóknarmaður, er yngsti þingmaður sem kjörinn hefur verið á Alþingi. Hún telur að kjör sitt sýni að ungt fólk geti látið til sín taka.

Jóhanna nam búfræði við Bændaskólann á Hvanneyri og situr í stjórn ungra bænda. Hún skráði sig í sögubækurnar í gær þegar hún varð yngsta manneskjan sem nokkru sinni hefur verið kjörin á þing. Jóhanna er 21 árs og 303 daga gömul. Hún sló met Gunnars Thoroddsen sem var 23 ára og 177 daga gamall þegar hann komst fyrst á þing 1934. Jóhanna segist afar þakklát fyrir tækifærið. 

„Það var auðvitað spenna í mannskapnum og mikið fagnað þegar ég fór fyrst inn og fólk vonaði bara að þetta myndi halda. Ég fór allavegana að sofa sem þingmaður en bjóst alls ekki við því að vakna sem þingmaður,“ segir Jóhanna. „Ég held að þetta sé bara mjög gott fordæmi fyrir ungt fólk og sýnir að við getum tekið þátt og getum látið í okkur heyra.“