Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Yngsti þingmaður Íslandssögunnar hættir

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs. Hún tilkynnti þetta á Facebook-síðu sinni í morgun. Hún er þar með sautjándi þingmaðurinn sem tilkynnir að hún sækist ekki eftir áframhaldandi þingsetu. Þar með hafa allir sitjandi þingmenn tilkynnt um hvort þeir hyggi á áframhaldandi þingsetu eða ekki.

Jóhanna María varð yngsti einstaklingur Íslandssögunnar til að ná kjöri á þing þegar Framsóknarflokkurinn vann stórsigur í síðustu þingkosningum. Hún var þá 21 árs að aldri. Jóhanna María segist ánægð með störf sín á þingi og þau tækifæri sem hún hafi fengið til að hafa áhrif á landsmálin. Þá kveðst hún vona að vegferð sín opni möguleikann fyrir ungt fólk að bjóða sig fram og fá tækifæri.

Nú er ljóst að rúmlega fjórðungur þingmanna hverfur á braut við þingkosningar í haust þar sem þeir verða ekki í framboði. Einnig er viðbúið að all nokkrir þeirra sem gefa kost á sér nái ekki kjöri. 

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV