Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Yngri aldurshópar kjósa ensku í stað íslensku

09.03.2018 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verulegur munur er á svörum aldurshópa í viðamikilli rannsókn sem nú stendur yfir á áhrifum enskrar tungu á íslensku. Yngsti hópurinn, 13-20 ára kýs miklu fremur að nota enskt viðmót í til að mynda í símum og tölvum, en þeir sem eldri eru.

117 milljóna króna rannsókn

Rannsóknasjóður veitti fyrir tveimur árum þriggja ára öndvegisstyrk til verkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis, alls 117 milljónir króna.  Eiríkur Rögnvaldsson og Sigríður Sigurjónsdóttir prófessorar við Háskóla Íslands ætla á Hugvísindaþingi í Háskólanum á morgun að segja frá rannsókninni og fyrstu frumniðurstöðum. Eiríkur segir að meginmarkmið rannsóknarinnar sé að kanna áhrif stafrænna miðla og snjalltækja, sem gjarnan bjóða upp á gagnvirk samskipti við notendur á ensku, á orðaforða, málkunnáttu og málnotkun Íslendinga.

Krakkar að tala saman á ensku

„Rannsóknin er tilkomin þannig að við höfðum fengið ýmsar hugmyndir eða ábendingar um að það væri eitthvað að gerast í íslensku" segir Eiríkur Rögnvaldsson í samtali við Spegilinn.  „Maður heyrir ótal sögur um það að íslenskir krakkar tali saman á ensku o.sv.frv. Okkur fannst eins og það væri ekki hægt annað en að rannsaka þetta almennilega. Þó maður heyri einhverja sögu um að tveir íslenskir krakkar tali saman á ensku. Hvað segir það?  Það eru kannski 20 þúsund krakkar sem gera það ekki, en hinir vekja bara miklu meiri athygli. Þannig að við ákváðum að safna saman liði. Við Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor söfnuðum saman hópi fræðimanna innanlands og svo erum við í samstarfi við virta erlenda fræðimenn líka"

Rannsókn sem nær til 5 þúsund manna úrtaks

Og þið náið til ansi margra og á breiðu aldursbili?
„Já við stefnum að því. Við byrjum á að gera netkönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands leggur fyrir og sendir út. Það er fimm þúsund manna handahófsvalið úrtak úr þjóðskrá og það eru börn frá þriggja ára aldri og alveg upp úr. Elstu þátttakendurnir eru 98 ára. Í þessari könnun spyrjum við um ýmislegt. Við spyrjum um viðhorf til tungumálanna, viðhorf til íslensku og ensku. Við spyrjum um ílagið, þ.e.a.s. hversu mikla íslensku og ensku fólk hefur í umhverfinu. Hvað mikið menn séu að lesa eða hlusta á ensku, tala eða skrifa ensku o.sv.frv.  Síðan spyrjum við um nokkur málfarsleg atriði. Við reynum að velja atriði þar sem að okkur grunar að enskan gæti haft áhrif". 

Vonast til að ná til tuga þúsunda Íslendinga

„Auðvitað gerum við ráð fyrir því, af því að við förum niður í þriggja ára aldur, að foreldrarnir svari fyrir yngstu börnin. Svo eftir því sem börnin eldast að þau svari með aðstoð foreldranna og síðan sjálfstætt þegar þau eru komin á þann aldur. Þetta er fyrsta skrefið í rannsókninni, sem er að ljúka. Í næsta skrefi eru ítarleg viðtöl við 400 manna hóp úr þessu stóra úrtaki. Það verða tvö tveggja tíma viðtöl tekin við hvern af þessum 400. Þar verða könnuð sömu atriði og í netkönnuninni, en bara miklu ítarlegar og reynt að komast nánar að því hvað er að gerast.

Svo er það þriðja stigið. Í því gerum við ráð fyrir að öllum verði gefinn kostur á að taka þátt í upphaflegu netkönnuninni. Við auglýsum á samfélagsmiðlum og víðar og vonumst til að fá tugi þúsunda til að taka þátt í þeirri könnun".

Fyrstu niðurstöður að koma í ljós

Eiríkur segir að fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar séu að koma. „Við erum farin að sjá yfirborðið, farin að sjá svör við einstökum spurningum. En það sem verður virkilega forvitnilegt er þegar við keyrum saman svör við mismunandi spurningum. Við höfum svör t.d. við því hversu margir tala ensku tvisvar í viku eða oftar, eða daglega. Við sjáum að það er talsvert misjafnt eftir aldurshópum. Við höfum svör við öllu mögulegu svona.

En það sem verður virkilega forvitnilegt er þegar við keyrum þetta saman og sjáum hvort það er einhver fylgni á milli þess hversu mikil enska er í umhverfinu og svo hvernig menn dæma einstakar setningar t.d. Þá sjáum við hvort, við skulum segja ef við fyndum einhver ensk áhrif á setningagerð eða eitthvað slíkt,  við getum tengt það eitthvað saman við enskuna í umhverfinu og þá á hvaða hátt. Við erum ekki komin svo langt enn þá, en við erum farin að sjá nú þegar verulegan mun á aldurshópum í svörum við mörgum af þessum spurningum".

Yngsti aldurshópurinn sker sig úr

Hvað áttu við? Á milli hvaða aldurshópa?
„Yngsti aldurshópurinn er 13-15 ára og sá næsti er 16-20 ára. Síðan kemur hópurinn 21-30 ára. Við getum sagt að yngstu tveir hóparnir, 13-20 ára, skeri sig dálítið úr. 21-30 ára nálgast þá í sumum atriðum en er samt oft nær þessum eldri hópum. Við spyrjum t.d. hvort fólk gæti hugsað sér að nota ensku í raddstýringu. T.d. að tala við Siri, Amazon, Alexa og annað sem að nú er komið. Hvort fólk vilji hafa símann sinn og tölvuna stillt á íslensku eða íslenskt viðmót. Þarna sjáum við heilmikinn mun á aldurshópum."
Þannig að þau yngri vilja enskuna?
„Já. Miklu frekar."

Erum að ganga í gegnum miklar breytingar

„Það er enginn vafi á því að við erum að ganga í gegnum breytingartíma.  Það er mjög margt að breytast í þessu. Hvaða áhrif það kemur til  með að hafa á tungumálið til lengri tíma, það veit maður ekki. Við vitum að málbreytingar haga sér á mismunandi hátt. Sumar eru þess eðlis að þær eldast af fólki ef svo má segja. Börn og unglingar temja sér ákveðið málfar. Svo þegar þau vaxa upp og verða ábyrgari þjóðfélagsþegnar þá leggja þau þetta af. En svo eru aftur aðrar breytingar sem færast upp. Fólk tileinkar sér eitthvert ákveðið málfar og heldur því. Við getum ekki á þessu stigi svarað því hvort um sé að ræða einhverjar varanlegar eða óafturkræfar breytingar" segir Eiríkur Rögnvaldsson.

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV