Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ýmislegt athugavert við verðkönnun ASÍ

15.02.2013 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdastjóri innkaupasviðs hjá Krónunni segir að ýmislegt sé athugavert við verðkönnun ASÍ. Margoft hafi verið bent á villur við framkvæmd könnunarinnar sem skýri að hluta hvers vegna hún sýni mikla hækkun á grænmetisverði.

Matvöruverð hefur hækkað mikið í öllum vöruflokkum frá því í haust, samkvæmt verðkönnun sem ASÍ birti í gær. Flestir vöruflokkar hafa hækkað um 2-5 prósent. Verð á grænmeti og ávöxtum hefur hækkað mest, um 9-20 prósent. Mesta hækkunin var á grænmeti og ávöxtum í Krónunni, 21,3 prósent. Hagfræðingur ASÍ sagði í gær að hefðbundnar árstíðasveiflur skýrðu verðhækkunina að hluta en ekki alfarið. Sigurður Markússon, framkvæmdastjóri innkaupasviðs hjá Krónunni, segir að margt sé gagnrýnisvert við verðkannanir hjá ASÍ.

„Í fyrsta lagi að halda þessum hlutum alveg leyndum og hleypa okkur ekki að því þannig að við getum ekki einu sinni fundið skýringar á hlutunum eða útskýrt. Við höfum líka margoft bent þeim á villur í hlutum sem þeir hafa gert,“ segir Sigurður. Hann bætir við að verðkönnun ASÍ sé ekki í takt við það sem komið hafi út úr verðmælingum Hagstofunnar. Auk þess hafi tilboðin hjá Krónunni mjög líklega áhrif á niðurstöðurnar.

„Tökum sem dæmi eina verðmælingu þar sem fimm til tíu vörutegundir eru í matarkörfu og tvær eða þrjár eru á tilboðsverði með 20 til 50 prósent afslætti. Næst þegar mælt er eru þessar vörur ekki á tilboði heldur einhverjar aðrar og þá er er að sjálfsögðu kominn verulega mikill munur,“ segir Sigurður. Hann bendir jafnframt á að hámarksuppskera hafi verið í september og verð þar af leiðandi lægra þá en þessa dagana. Fyrsti ársfjórðungur hvers árs sé erfiðastur þegar ávextir og grænmeti er flutt inn, „þannig að ég held að þetta sé sambland af flestu þessu. En síðan heldur ASÍ þessu þannig fyrir sig að við getum ekki fengið að sannreyna eða fara yfir hlutina,“ segir Sigurður Markússon.