Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ýmishúsið verður moska og menningarsetur

16.10.2012 - 18:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Menningarsetur múslima á Íslandi hefur fengið Ýmishúsið við Skógarhlíð í Reykjavík afhent Til stendur að opna þar mosku innan skamms. Félag múslima á Íslandi bíður enn eftir lóð undir sína mosku.

Tvö trúfélög

Á Íslandi eru tvö trúfélög múslima, Félag múslima á Íslandi með 419 félaga og Menningarsetur múslima á Íslandi sem í eru 275 félagar. Hið síðarnefnda klauf sig frá Félagi múslima fyrir nokkrum árum og stendur á bak við menningarmiðstöðina í Ýmishúsinu. Húsið var afhent á dögunum. Í því verður moska, arabískuskóli fyrir börn og bókasafn svo fátt eitt sé nefnt.

Umdeildur hópur

Peninga fær félagið frá umdeildum hópi í Svíþjóð en Karim Askari, formaður menningarmiðstöðvar múslima á Íslandi, segir ekkert hæft í því að samtökin tengist öfgafullum sértrúarsöfnuðum. Sverrir Agnarssom, formaður félags múslima á, Íslandi ekki sammála.

„Ýmishúsið er keypt af sænskum sértrúarhópi sem heitir Risala og ég vil gjarnan taka það fram því misskilningurinn er svo víðtækur að íslam sé bara eitt,“ segir Sverrir.

Segir Risala öfgahóp

„Í íslam er miklu ríkari hefð fyrir túlkun á textum og viðhorfum heldur en í kristnidómi þannig að við viljum reka mosku sem er opin fyrir alla, sem ég geri ráð fyrir að þeir vilji líka en við viljum ekki tengjast neinum sértrúarhópum. Að mínu mati er Risala öfgahópur en hvort þeir séu hættulegir það eru ekki mín orð.“

Moska Félags múslima er í Ármúla í Reykjavík. Félagið hefur beðið eftir lóð undir mosku í Reykjavík í rúman áratug. Hún er nú á skipulagi í Sogamýri og er vinna við deiliskipulag í gangi.