Ýmis vandræði við gangsetningu á Bakka

29.05.2018 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Ýmsar bilanir og vandræði hafa gert mönnum erfitt fyrir við að gangsetja kísilver PCC á Bakka. Forstjórinn segir gangsetninguna þó að mestu ganga eins og við var búist. Reykur hefur nokkrum sinnum stigið upp af verksmiðjunni í gangsetningunni.

Fyrri ofn verksmiðjunnar á Bakka var gangsettur 30. apríl. Síðan þá hefur verið unnið að því að koma honum í stöðugan rekstur. Þar hefur ýmislegt komið upp á sem hefur flækt þetta ferli.

„Önnur vandamál en við bjuggumst við“

„Uppkeyrslan hefur gengið að mestu leyti eins og við bjuggumst við,“ segir Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC Bakki Silicon. „Við höfum orðið fyrir ýmsum bilunum og allskonar vandræðum á leiðinni. Ég myndi kannski ekki segja að það væri neitt meira en við bjuggumst við, en kannski önnur vandamál en við bjuggumst við.“

Hefur tafið fyrir

Það eigi við um ýmsan lausabúnað, tölvukerfi og fleira. En allur meginbúnaður, reykhreinsivirki og ofninn sjálfur, virki eins og skyldi. En þetta hefur tafið fyrir. „Ég myndi segja að miðað við þann stað sem við erum á í dag, ég hefði viljað vera þar fyrir svona viku síðan,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Vinna við ofninn í verksmiðjunni á Bakka

Hafa þurft að hleypa reyk út um neyðarreykháfa 

Þegar horft var í átt að verksmiðju PCC á Bakka í dag, var ekki hægt að sjá að nein starfsemi væri þar í gangi. En þannig hefur það ekki alltaf verið í gangsetningunni. Reykur hefur sést fara í loftið út um neyðarreykháfa sem eru opnaðir ef eitthvað fer úrskeiðis í verksmiðjunni. „Við höfum fjórum eða fimm sinnum orðið fyrir því að eitthvað hefur komið upp á og við höfum þurft að opna þessa reykháfa og þá sést reykur frá verksmiðjunni,“ segir Hafsteinn. 
„Varð einhvers konar sprenging í verksmiðjunni?“
„Nei, en það myndast gas í ofninum og það gas getur streymt út um töppunarholuna þar sem málminum er tappað út. Og það gerðist hjá okkur um helgina.“ Þetta gas dragi með sér allan reyk úr ofninum. Þá reyni á neyðarreykháfana svo reykurinn dreifist ekki um verksmiðjuna.

Mynd með færslu
 Mynd: Snorri Ingason
Reykur hefur sést fara í loftið út um neyðarreykháfa

Tilkynningarskyld atvik

Svona atvik verður að tilkynna til Umhverfisstofnunar. Auk þess segir Hafsteinn að upplýst sé um þetta á Facebooksíðu verksmiðjunnar. „En þegar verksmiðjan er í gangi eins og vanalega, þá er þetta bara eins og í dag núna. En ef eitthvað fer úrskeiðis þá getur sést reykur,“ segir Hafsteinn.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi